Bæjarráð Vestmannaeyja:

fordæmir niðurskurð á heilbrigðisþjónustu á Landsbygðinni

5.Október'10 | 17:33
Fyrir skömmu fundaði bæjarráð Vestmannaeyja um þá váglegu stöðu sem upp er kominn í málefnum heilbrigðisþjónustu. Boðaður niðurskurður á sjúkra- og hjúkrunarsviði er hvorki meiri né minni en 37%. Verði þetta niðurstaðan er einfaldlega verið að leggja niður heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum í þeirri mynd sem við höfum þekkt. Ekkert samband var haft við heimamenn hvorki sveitarstjórn né starfsmenn hjá heilbrigðisstofnun á meðan unnið var að frumvarpinu í ráðuneytinu en sú vinna er þó sögð hafa staðið yfir síðan í júní.
 
Maður kemst ekki hjá því að spyrja sig hvort einhver trúi því í einlægni að svo mikil þekking sé innan veggja ráðuneytisins um hvernig reka á sjúkrahús hér í einangraðri en fjölmennri eyjabyggð að ástæðulaust sé að leita samráðs við þá sem staðið hafa í því í áratugi? Hin vandaða stjórnsýsla sem stjórnarflokkarnir hafa rætt eru þegar upp er staðið ekkert annað en orðin tóm. Við stöndum nú frammi fyrir því að á sama tíma og talað er um að verja grunnþjónustu þá er öryggi bæjarbúa hér í Vestmannaeyjum verulega skert. Það kann að koma einhverjum á óvart en Vestmannaeyjar eru eyja. Um leið og við erum næst stærsti þéttbýliskjarni á landinu utan höfuðborgarsvæðisins þá erum við því einangrað samfélag stærstan hluta ársins. Jafnvel við bestu hugsanleg skilyrði liggja samgöngur niðri í 12 tíma á dag. Þegar veður eru slæm einangrast samfélagið alvarlega. Það er þó engu líkara en að þeir sem unnu þetta fjárlagafrumvarp haldi að við niðurskurð hætti börn að veikjast á nóttinni, sjómenn að lenda í slysum og aldraðir langlegusjúklingar þurfi ekki lengur þjónustu. Til að freista þess að fá skilning á sérstöðu okkar sjáum við okkur því tilneydd til að leita eftir afstöðu landlæknis og almannavarnarnefndar Vestmannaeyja. Sem varaformaður almannavarnarnefndar tel ég einsýnt að verði þessi niðurskurður að veruleika bíður það hættunni heim og ég óttast hið versta.
 
Segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
 
Afgreiðsla bæjarráðs um málið var svohljóðandi: 
 
Á fund bæjarráðs komu Gunnar Gunnarsson framkvæmdarstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmanneyja og Steinunn Jónatansdóttir hjúkrunarforstjóri til að ræða válega stöðu stofnunarinnar í kjölfar fjárlaga fyrir komandi ár.
 
 
Heildar niðurskurður til rekstur heilbrigðismála í Vestmannaeyjum á fjárlögum nemur 23.78%. Þar af verður niðurskurður á Sjúkra- og hjúkrunarsviði hvorki meira né minna en 37% eða 180 milljónir. Öllum má ljóst vera að niðurskurði sem þessum verður ekki náð nema með lokun skurðstofu jafnvel þótt að í fjárlögunum sé tekið fram að áfram skuli rekin skurðstofa hér í Vestmannaeyjum. Fyrir liggur að nái stefna ríkisstjórnar gagnvart heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni fram að ganga verður Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja lögð niður í þeirri mynd sem hún hefur hingað til verið rekin.
Bæjarráð átelur núverandi heilbrigðisyfirvöld harðlega fyrir grandvaraleysi í aðdraganda þessara fjárlaga og fordæmir algeran skort á undirbúningi. Það samráð sem komið var á með stofnun vinnuhópa um heilsugæslu, sjúkra- og hjúkrunadeilda, sjúkraflutninga ofl. með aðkomu fulltrúa Vestmannaeyinga í lok árs 2008 var illu heilli ekki áfram haldið. Hluti af þeirri vinnu var ósk Vestmannaeyjabæjar um að yfirtaka rekstur Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja í stað áforma um að flytja þjónustu til Reykjavíkur. Þeirri tillögu var vel tekið af þáverandi ráðherra og markviss vinna þar að lútandi í farvegi. Eftirmenn hétu því hinsvegar að hugmyndir um sameiningu yrðu aflagðar og áhersla lögð á að viðhalda þjónustustigi í nærumhverfi. Efndir þeirra orða eru engar. Niðurstaðan er áformuð endalok þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hingað til hefur verið veitt í Vestmannaeyjum.
 
 
Bæjarráð fordæmir þá aðferðarfræði sem birtist í fjárlögum og felst í því að skera niður nærþjónustu á landsbyggðinni. Áróður um óhagkvæma og gagnslitla sjúkrahúsþjónustu í nærumhverfi þegna landsins hefur verið marg hrakin og bent á að þjónustan á stóru spítölunum er í raun óhagkvæmari. Engu að síður er ekkert samráð haft við heilbrigðisstofnanir utan Reykjavíkur við fjárlagagerðina og niðurstaðan því sú að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru skornar niður um 2,9 milljarða en stóru sjúkrahúsin einungis um 0,3 milljarða. Ástæða er til að benda á hið augljósa að þótt skorið sé niður á landsbyggðinni þá hættir fólk þar ekki að veikjast, eldast og verða fyrir slysum. Þjónustan verður einfaldlega dýrari í borginni.
 
Bæjarráð gerir einnig alvarlegar athugasemdir við þá staðreynd að gert sé ráð fyrir að draga mjög úr þjónustu við aldraða langlegusjúklinga og mun sá kostnaður flytjast yfir á sveitarfélagið ef ekkert verður að gert. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar kostnaður er þannig fluttur milli stjórnsýslustiga án nokkurs samráðs. Í þessu samhengi minnir bæjarráð á að kveðið er á um lögfestingu samskiptareglna ríkis og sveitarfélaga í samstarfsyfirlýsingu ríkisttjórnar VG og Samfylkingarinnar einmitt til að koma í veg fyrir þessi vinnubrögð.
 
Bæjarráð hvetur þingmenn suðurlands til að láta einskis ófreistað í baráttunni gegn fyrirhuguðum áformum. Það nálgast hreina ósvífni að leiða slíkan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu yfir landsmenn á sama tíma og ráðast á í stjórnlagaþing sem kostar 1,7 milljarð til 2,1 milljarð (skv. mati fjármálaráðuneytisins), setja glerhjúp um menningarhús í Reykjavík fyrir um 3,2 milljarða, ráðast í endurbyggingu Landspítalans sem mun vart kosta undir 50 til 70 milljörðum og reisa menningarhús í Reykjavík fyrir rúmlega 30 milljarða og þannig má áfram telja.
 
 
Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska tafarlaust eftir öryggisúttekt frá landlækni með aðkomu heimamanna. Í slíkri aðkomu verði ma. tekið á stöðu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, bráðaþjónustu við íbúa og öryggi þeirra í fjölmennnu einangruðu Eyjasamfélagi.
 
 
Þá óskar bæjarráð ennfremur eftir afstöðu almannavarnarnefndar Vestmannaeyjabæjar til öryggis bæjarbúa og gesta þeirra verði boðaður niðurskurður að veruleika.
 
 
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.