Karakter

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

22.September'10 | 23:48
Ofurmennska
 
Finnst þér þú vera góð manneskja?
Spurningin hér að ofan er vissulega huglægt mat, en smá dæmi getur etv hjálpað manni að meta þetta:
 
 
Getur maður sagt að maður sé kærleiksríkur ef að allir í kringum mann eru kærleiksríkir og mjög þægilegir einstaklingar? Það er tiltölulega auðvelt fyrir flesta að sýna sínum nánustu kærleik, koma rétt fram við þá, sýna þeim virðingu osfrv. En hvað hvernig bregst fólk við þegar það kemur manneskja inn í líf þeirra sem á kærleikann ekkert skilið (út frá því hvernig hún hagar sér)? Það eru allar á því að sú manneskja þarfnist kærleika meira, jafnvel mest. Það eru einnig líkur á því að margir sem telja sig vera kærleiksríka hundsi eða komi jafnvel ekki fram af kærleika gagnvart svona manneskjum, enda er slíkt erfitt og krefst orku og áreynslu. Í svona aðstæðum kemur karakterinn inn í spilið. En ekki bara við að eiga við erfiða, það að gefast ekki upp, að gera hlutina vel, mæta mótlæti, að hjálpa öðrum, að segja ekki frá leyndarmálum, að baktala ekki aðra og svona mætti áfram telja, eru allt aðstæður þar sem öflugur karakter mun bæta árangur.
 
 
Það er varla hægt að ítreka það nægileg, hversu mikilvægur sterkur karakter er fyrir einstaklinginn, lítum t.d. á eftirfarandi:
 
• Aristoteles og grísku heimsspekingarnir voru mjög uppteknir af mótun karakters og Aristoteles sjálfur þróaði t.d. líkan fyrir karakter umbreytingu/styrkingu. Slík umbreyting eða þróun hófst á takmarki (g. Telos), til að komast þangað þurfti siðferðisþjálfun sem myndi svo gera „styrk þinn“ að venju. Efla karakterinn.
 
• Jesús Kristur sem er án nokkurs vafa áhrifamesti karakter kennari allra tíma, gaf mannkyninu siðferðisleiðbeiningar til að þróa sterkan karakter. En það er það sem Kristni snýst um að miklu leyti, að þróa karakter þannig að maðurinn hafi getu og skilning til að taka við þeirri gjöf sem honum hefur verið gefin.
 
• Fólk sem hefur framkvæmt hetjudáðir oft gegn öllum líkum og bjargað lífum eiga mjög oft öflugum karakter því að þakka hvernig þau brugðust við.
 
• Nútíma rannsóknir á heilanum eru að sýna fram á að við ítrekað hátterni myndast einskonar braut í heilanum eða rafboðatengsl sem virðast styrkjast eftir því sem hátternið er stundað oftar. Þetta er líklega auðveldast að útskýra með t.d. þjálfun íþróttamanna (muscle memory), en þetta nær dýpra. Vegna þess að það hefur einnig verið sýnt fram á að aðgerðir og ákvarðanartökur virðast byggja svona brautir líka. Þetta eru mikilvægar niðurstöður sem gefa það til kynna að ef að þú ákveður t.d. að vera duglegur að hjálpa fólki (eitthvað sem er e.t.v. erfitt fyrir þig til að byrja með) þá fer heilinn að byggja slíkar tengingar í heilanum og það verður smám saman auðveldara fyrir þig að framkvæma slíkar aðgerðir (einfaldað dæmi). Það sem þetta segir manni líka er að þú getur einnig styrkt slæma hegðun. Það er semsagt líffræðileg atferlisstyrking sem fer fram í heilanum á þér og þetta á maður að nota sér til framdráttar.
 
Ef þú veist að með því að láta eftir þér einhverja fyrirlitlega hegðun að þá ertu að auka líkurnar á því að þú munir endurtaka slíka hegðun, þá ætti það að vera þér hvatning til að halda þér frá slíkum aðgerðum. Að sama skapi ætti það að vera gleðifréttir að við það að taka að sér uppbyggilega hegðun þá eykur þú líkurnar á að slík hegðun verði hluti af lífsmynstri þínu, karakternum.
 
Ég er búinn að vera að skoða þessar heilarannsóknir (t.d. bókin Brain Rules e. John Medina) í svolítinn tíma ásamt því að hafa stúderað mannlega hegðun frá mörgum sjónarhornum og séu þessir fjórir þættir sem ég bendi á hér að ofan settir í samhengi við t.d. mannkynssöguna þá má draga þá ályktun að það borgar sig margfallt að byggja öflugan og sterkan karakter svo að maður bregðist rétt við þegar á reynir.
 
Prófaðu að fylgjast með næstu frétt sem mun fjalla um eitthvað sem við köllum hugrekki. T.d. hús var að brenna og einstaklingur sem hafði aðeins 20 sek. glugga til að aðhafast bjargaði ungu barni. Þetta er bara dæmi, en ég er þess sannfærður að í svona aðstæðum byggist það að mestu leyti á karakternum þínum hvernig þú bregst við. Ef að þú hefur í mörg ár virt hugrekki, eflt þá skoðun og hegðunarmynstur að maður eigi alltaf að gera það sem maður getur til að hjálpa öðrum þá hefur þú að öllum líkindum byggt hugrakkan karakter sem bregst þá svona við þegar lífið þrumar í andlitið á þér, þá verður slíkt sem annað eðli en ekki erfið ákvörðun. Þessi eðlislægu viðbrögð, þessi djúpa sannfæring, t.d. það að sumum finnst fátt sjálfsagðara eða auðveldara en að setja aðra framar sjálfum sér, kemur ekki að sjálfum sér, heldur í gegnum karakter þjálfun og uppeldi.
 
Einhverjum lesenda finnst hann e.t.v. vera algerlega út á túni núna og ekki vita upp né niður hvar hann stendur eða jafnvel hvort hann geti treyst sínu eigin mati á því hvað er rétt og rangt! Þá þarf að byrja smátt og byrja að bæta og breyta rétt því sem maður veit að er rétt, þessu er nefnilega þannig farið að við að efla siðferði og réttlætiskennd á einu sviði, þá verða hlutirnir skýrari á öðru og einstaklingurinn fer að fá réttari og bjartari mynd á hlutina og þ.a.l. aukna getu að efla karakter sinn. Á þessum orðum þarf þá einnig að benda á að vissulega er hægt að veikja karakter sinn, með því t.d. að ítrekað velja það að guggna, að klára ekki verkefni, að leyfa siðferðisþröskuldi sínum að lækka, að baktala eða ljúga endurtekið. Með ítrekaðri framkomu eins og þeirri sem er talinn upp hér að framan veikir einstaklingurinn viðnámsgetu sína gegn slíkri hegðun og á endanum er byggist svona hegðun inn í karakterinn og það verður hluti af karakternum að ljúga, vera gunga, og sætta sig við mjög lágan siðferðisþröskuld. E.t.v finnst einhverjum það eftirsóknarvert, en slíkt líferni er auðvelda leiðin og getur höfundur persónulega ekki skilið hvernig eða af hverju nokkur manneskja ætti að vilja þannig þróun handa sjálfri sér, þó það sé vissulega skiljanlegt hvernig slík þróun kann að hefjast. Þá er það undir einstaklingnum komið að snúa henni við, því fyrr því betra.
 
Það tekur tíma og erfiði að byggja sterkan, öflugan og réttlátan karakter, en það borgar sig vafalaust. Mannkynssagan hefur þegar sýnt okkur það og hugsaðu nú sjálfur lesandi góður um einhvern sem þú lítur mikið upp til eða hefur að fyrirmynd, það eru miklar líkur á því að sú manneskja hafi sterkan karakter.
 
Þrumuáskorun á alla að byggja öflugan karakter, þá margfaldast líkurnar á skilvirku öflugu og réttlátu samfélagi framtíðarinnar.
 
Kappakarakter kveðja
 
Tryggvi
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.