Þjóðvegur 1 má ekki rofna segir bæjarráð

20.September'10 | 12:56
Í dag fundaði bæjarráð Vestmannaeyja og fjallaði ráðið m.a. um frátafir Herjólfs að undanförnu vegna sandburðar í Landeyjahöfn. Bæjarráð segir m.a. að Landeyjahöfn teljist vart fullbyggð fyrr en að hún geti sinnt þeim kröfum sem til hennar séu gerðar.
 
Framtíðarsamgöngur við Vestmannaeyjar
 
Umræða um stöðu samgöngumála.
Frátafir Herjólfs hafa valdið vandræðum það sem af er september. Viðbúið var að tilkoma hinnar nýju hafnar yrði vandkvæðum bundin í fyrstu og ljóst að eldgos í Eyjafjallajökli yki á þann vanda. Illu heilli hafa örlögin hagað málum þannig að röð af verstu hugsanlegu breytum hafa komið fram á sama tímapunkti. Ekki einungis er verið að nota óhentugt skip við framandi aðstæður fyrir skipstjórnendur. Náttúran hefur einnig sett strik í reikninginn.
 
 
Bæjarráð fagnar því hversu hratt og örugglega var gengið til þeirra verka að dýpka höfnina og ítrekar það sem áður hefur komið fram um mikilvægi þess að dýpkunartæki séu öllum stundum til staðar. Þjóðvegurinn til Vestmannaeyja má ekki rofna. Í ljósi þess að líklegt má telja að sandburður verði verulega aukin á næstu misserum hvetur bæjarráð til þess að leitað verði að heppilegum sanddælubúnaði og honum komið til verka í Landeyjasandi sem allra fyrst.
 
 
Bæjarráð fagnar ennfremur yfirlýsingu Samgönguráðherra um mikilvægi þess að hefja sem fyrst undirbúning og í kjölfarið smíði á hentugu skipi til siglinga í Landeyjahöfn.
 
Landeyjahöfn er aðalhöfn Herjólfs ásamt Vestmannaeyjahöfn og mikilvægt að hún geti sinnt þeim kröfum sem til hennar eru gerðar. Fyrr er hún ekki fullbyggð. Bæjarráð ítrekar einnig þær óskir sínar að þegar samgöngur við Landeyjahöfn eru ekki mögulegar sigli skipið til Þorlákshafnar. Í þeim tilvikum er eðlilegt að farþegum sé veitt full þjónusta m. a. hvað varðar svefnpláss og veitingar.
 
 
Í ljósi þess að líkur eru til að vandkvæði við Landeyjahöfn verði nokkur fyrsta árið hvetur bæjarráð mjög eindregið til þess að flugrekstraraðilar sem þjónusta Vestmannaeyjar fái aukna aðstoð á meðan.
 
Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2009
Erindi frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga dags. 31. ágúst s.l. þar sem fram kemur að við yfirferð eftirlitsnefndarinnar á ársreikningi Vestmannaeyjabæjar er það mat nefndarinnar að niðurstaða ársreiknings gefi tilefni til skoðunar á fjármálum sveitarfélagsins og að óskað er eftir nánari útskýringum á áætluðum horfum í rekstri sveitarfélagsins.
Fyrir liggur erindi sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) sendi Vestmannaeyjabæ dagsett 31. ágúst 2010 sem barst 2. sept.
 
 
Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar heyrðu fyrst af málinu í frétt á RÚV undir heitinu „Listi yfir illa stödd sveitarfélög“ þriðjudaginn 31. ágúst. Í kjölfarið sá Vestmannaeyjabær sig knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu í fjölmiðla. Þá var og tafarlaust óskað eftir fundi með EFS. Sá fundur fór fram 06. sept.
 
 
Niðurstaða þess fundar var sú að EFS dróg erindið til baka og sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla. Orðrétt segir í yfirlýsingu EFS „Fjárhagsstaða Vestmannnaeyjabæjar er traust og ekki fyrirsjáanleg vandkvæði í fjármálum bæjarins“.
 
Stoppdagar til viðhalds á Herjólfi
Erindi frá Eimskip dags. 13. september s.l. vegna breytinga á stoppdögum Herjólfs vegna viðhalds. Óskað er eftir að stoppdagar Herjólfs verði eftirtaldir:
5. og 6. október og 12. og 13. október n.k. Um er að ræða tvær síðustu ferðir að kvöldi og tvær fyrstu ferðir að morgni í bæði skiptin. Ef siglt verður í Þorlákshöfn þá er um að ræða seinni ferð 5. og 12. október og fyrri ferðir 6. og 13. október n.k.
Bæjarráð samþykkir umrædda stoppdaga.
 
Umsókn um fjárveitingu til bættrar aðstöðu í norðurhluta Rauðagerðis
Bæjarráð vísar erindinu til undirbúnings fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011.
 
Samningamál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla samningamáls er færð í sérstaka samningabók
 
Til umsagnar umsókn vegna rekstrarleyfis fyrir Höllina
 
Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 10. september s.l. þar sem óskað er umsagnar vegna umsóknar Bjarna Ólafs Guðmundssonar vegna rekstrarleyfis fyrir Höllina Strembugötu 13. Vestmannaeyjum.
Bæjarráð veitir jákvæða umsögn um rekstrarleyfið. Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.
 
 
Fundagerðina má sjá hérna.
 
 
 
 
 

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.