Framhald af fyrri grein

Georg Eiður Arnarson bloggar seinni grein af Áskorun á bæjarstjórann í Vestmannaeyjum:

15.September'10 | 23:23

Georg Arnarson

Reyndar hafði ég ákveðið að vera ekkert að tjá mig meira um Bakkafjöru, enda búinn að segja mitt, en mér var hins vegar bent á það nýlega, að enn væri tækifæri til að gera gott úr þeirri stefnu sem Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur tekið í samgöngumálum okkar, og ítreka því áskorun mína á bæjarstjórann, um að við Eyjamenn fáum að kjósa um okkar samgöngumál, þ.e.a.s. lítið skip til Landeyjarhöfn eða stórt skip til Þorlákshafnar og einkaaðilum þar með fengið að sjá um Landeyjarhöfn.
 
Í sjálfu sér á ég ekkert sérstaklega von á svari frá honum Elliða, enda er hann ekki vanur að svara pólitískum andstæðingum sínum, frekar en kratarnir í minnihlutanum sem styðja þessa höfn með dáðum og ráðum.
 
Þegar maður les síðustu tvær greinar sem Elliði hefur sent frá sér, t.d. í Fréttum 2. sept. þá gerir Elliði lítið úr undirskriftarsöfnunum eins og t.d. undir nafninu "Ströndum ekki" og dásamar það að bæjarstjórnin hafi staðið föst fyrir.
 
Í nýjustu Fréttum, eftir að Herjólfur var hér um bil strandaður, þá skrifar Elliði um kjark, æðruleysi og vit og kallar eftir samstöðu Eyjamanna, ótrúlegur tvískinnungur bæjarstjórans í Vestmannaeyjum.
 
En í síðustu grein minni fékk ég nokkrar fyrirspurnir, sem ég ætla að reyna að svara hér. Það er fullyrt m.a. að ekki sé hægt að taka stærra skip inn í höfnina í Þorlákshöfn heldur en núvernadi Herjólf. Til þess að svara þessu, þá hringdi ég að sjálfsögðu í Indriða, hafnarstjóra í Þorlákshöfn. Svarið er þetta: Það er ekkert mál þó að Herjólfur væri allt að 100m langur, en þeir hafa lengst tekið inn skip sem eru 140m löng, og uppi eru hugmyndir um að byggja í framtíðinni varnargarð fyrir utan innsiglinguna til að verjast suðaustan áttinni. Væri þá hægt að taka mun lengri skip inn.
 
Varðandi kostnaðar muninn á Þorlákshafnar leiðinni og Landeyjarhöfn, þá hefur mér alltaf fundist lykilatriðið vera traustar og öruggar samgöngur alla daga ársins, og tel hana ekki vera þannig að hægt sé að meta hana til fjárs, enda til hvers að hafa höfn í aðeins 1/2 tíma fjarlægð ef hún er meira og minna ófær allan veturinn?
 
Sigurður Ás Grétarsson, yfirmaður Siglingamálastofnunar, og einn af þekktustu pennum íhaldsflokksins, fer mikinn á Eyjamiðlunum þessa dagana og fullyrðir m.a., eins og Elliði og fleiri, að öll þessi vandamál í Landeyjarhöfn séu til komin vegna gossins í Eyjafjallajökli. Til að svara því, þá vill ég rifja það upp, sem Gísli Jónasson marg ítrekað sagði frá, þ.e.a.s. að það yrði að GPS mæla hreyfinguna á sandinum, til þess að menn gerðu sér grein fyrir því, hversu stórt vandamálið væri í raun og veru, en það var aldrei gert og í fréttunum í hádeginu í dag er síðan sagt frá því, að nú er reiknað með því að það þurfi að tí-falda það magn sem áætlað var að þyrfti að moka úr höfninni á ársgrundvelli og að kostnaður við grafarann sé ca. 2 milljónir á dag, já, sá á eftir að græða.
 
Sigurður Ás lýsir því líka yfir, að náttúran muni taka Landeyjarhöfn í sátt. Afar furðulegt að lesa þetta, enda verð ég að segja eins og er, eftir að hafa starfað hér sem sjómaður í 24 ár, að ég er stöðugt að aðlaga mig að breytingum í náttúrunni, en ekki öfugt.
 
Að lokum þetta: Því er haldið fram að ég sé alfarið á móti Bakkafjöru og ætla ég að leiðrétta það einu sinni enn. Um síðustu áramót skrifaði ég áramótagrein mína, þar sem ég lýsti því yfir að ég teldi Bakkafjöru gríðarlegt tækifæri fyrir ferðaþjónustuna yfir sumarmánuðina. Hins vegar tel ég hana ekki góðan valkost á heils árs grundvelli, eins og nú þegar hefur sýnt sig.
 
Herjólfs ferð er örugg ferð og annað er óásættanlegt.
 
Meira seinna.
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.