Styrkur Eyjamannsins

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

9.September'10 | 00:22
„Að fæðast með Vestmannaeyjaskeið í munninum“
 
Ég er nýfluttur í höfuðborgina og var það gert með ákveðnum trega. Ég er mikill Vestmannaeyingur í mér og hef alltaf verið mjög stoltur af því. Ég var í raun ný búinn að faðma að mér kyrrð, fegurð og heimilisværu Eyjarinnar minnar eftir langt stopp í Bandaríkjunum þegar ákveðin þróun kallaði mig í borgina.
 
Í borginni þarf maður að sinna því af nokkurri staðfestu að vera Vestmannaeyingur og var það furðuleg uppgötvun fyrir mig að það er í raun erfiðara að vera Vestmannaeyingur í Reykjavík heldur en í Bandaríkjunum. Maður er svo rosalega einstakur í öðru landi að Vestmannaeyingurinn er alltaf hluti af manni bara í gegnum samanburð við umhverfið. En í Reykjavík gæti hver sem er þess vegna haldið að ég væri KR-ingur eða Selfyssingur. Ég þekki nokkra Vestmannaeyinga sem hafa „breyst í Reykvíkinga“. Það athyglisverða er að eftir hrun hafa margir af þeim breyst aftur í Vestmannaeyinga og dragi nú hver sína ályktun af því hvað það þýðir. En það sem ég á við er að það er greinilega mögulegt að breytast. Fólk skilgreinir sig alltaf í ákveðnu stigveldi; þú ert Íslendingur fyrst, svo faðir, svo lögfræðingur og svo Vestmannaeyingur (sem dæmi).
 
ÍBV hefur verið eitt af sameiningaröflum Eyjamanna á fastalandinu á þessu keppnistímabili (og oftar) og er það perla í skríni okkar Eyjamanna þessa dagana. Ekki finnst mér leiðinlegt að tala um kappana í ÍBV við samferðarfólk mitt hér í borginni um þessar mundir. Ég er keppnismaður og ber virðingu fyrir sigurvegurum. Hér á ég ekki við að ÍBV yrði ekki mitt lið þrátt fyrir að þeim gengi illa, ÍBV verður alltaf mitt lið. ÍBV verður hinsvegar miklu meiri hluti af tilveru minni og stolti þegar þeim gengur vel og er þetta óskrifað lögmál í íþróttaheiminum.
 
Ég fór á ÍBV-Fylkir um daginn í Árbænum. Um helmingur áhorfenda var augljóslega ÍBVarar og um 80% stuðnings á vellinum kom frá þeim. Leikurinn var algjör snilld og ég finn ennþá fyrir ákveðnu stolti að þetta hafi verið liðið mitt sem stóð sig svona vel (manni færri á útivelli). Það sem mér fannst samt jafnvel enn merkilegra heldur en frábær árangur ÍBV á vellinum var frábær árangur eyjamanna yfir höfuð. Hálf stúkan voru vel merktir eyjamenn, þarna var virk lúðrasveit og virkilega öflugur stuðningur. Það kunni ég sko að meta.
 
Eiður Aron skorar sigurmark gegn Keflavík undir lok leiksins, og stúkan hreinlega tryltist af fögnuði.
 
Þetta og sú staðreynd að Eyjamenn halda margir góðum tengslum í borginni eru dæmi um það sem gerir samfélag eins og Vestmannaeyjar verðmætt. Það hefur oft verið talað um að Vestmannaeyingar standi sig hlutfallslega ótrúlega vel hvar sem þeir fara, hvort sem það er að skara fram úr í íþróttum, verða fyrirliðar, stýra fyrirtækjum eða ná langt á annan hátt. Ég heyrði þetta fyrst fyrir um 5 árum og hef síðan fylgst vel með þessu og gert ýmsar athuganir og er handviss um að þetta er rétt. Auðveldasta dæmið er líklega að telja afreksíþróttamenn sem við skilum af okkur sbr. við höfðatölu.
 
En af hverju er þetta?
 
Vestmannaeyingar eru ekki sér þjóðflokkur, við höfum ekki annað mataræði eða önnur gen en aðrir Íslendingar. Ástæðan hlýtur þess vegna að vera félagslegs eðlis.
 
Þá get ég komið mér að niðurstöðunni:
Vestmannaeyingar standa saman og styðja sína ótrúlega vel. Við höfum sameiginlega sögu með vissum áföllum, bæði gömlum og nýjum (eldgosið, Tyrkjaránið) sem þjappa okkur saman og við erum einangruð á allt annan hátt en önnur bæjarfélög á landinu vegna þess að við erum eyja. Það sem við erum t.d. að upplifa núna með Herjólf er ekki eingöngu slæmt, vegna þess að þarna er komin ákveðin samkennd í þjáningu sem bara við Eyjamenn finnum (þú veist að annar Vestmannaeyingur skilur hvað þetta er alvarlegt, en getur ekki ætlast til að einhver úr Reykjavík geri það) sem þjappar okkur saman. Þá er það oft mjög mikilvægt fyrir Vestmannaeyinga sem flytja í burtu að standa sig vel vegna þess að þeir vita að samfélagið fylgist með þeim og er þetta mikill hvati sem er árangursbyggjandi.
 
 
 
Ég er virkilega stoltur af því að vera Vestmannaeyingur enda hef ég fengið ótrúlega mikið frá eyjunni fögru og samfélaginu sem ég hef grætt ómælt á. Ekki gerir þetta mig að minni Íslending, þvert á móti, vegna þess að hamingja og sú tilfinning að vera hluti af heild er holl og skilar góðum þegnum, og Vestmannaeyjar eru hluti af Íslandi. Ég vil þess vegna meina að Vestmannaeyjar skili hamingjusömum þegnum inn í heildina sem er Íslendingar.
 
Fimmtudagskveðja til Vestmannaeyinga hvar sem er í heiminum, munið að þið lifið og starfið í heiðri heimavallarins, notið það sem hvatningu til að gera vel.
 
Tryggvi
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.