Ég skil ekki!

Fimmtudagsþruman eftir Tryggva Hjaltason

1.September'10 | 22:44
„Ríkisafl, kenndu mér að borga skatta“
 
Úr því að við byrjuðum á að ræða skólakerfið í síðustu viku á þrumunótum (strákar í skóla) þá er erfitt að skilja við málefnaflokkinn eftir aðeins eina umræðu og verður þess vegna ein þruma til viðbótar tengd menntamálum áður en haldið verður á önnur mið.
 
 
Það eru ákveðnar athafnir og hlutverk sem sérhver þegn kemur til með að þurfa að gera í lífi sínu og starfi á landinu fagra, Íslandi. Athafnir eins og að borga skatta, taka húsnæðislán og greiða atkvæði í kosningum. En þrátt fyrir það að framangreind atriði séu öll mikilvæg og nauðsynleg fyrir hagkerfið og stjórnsýsluna í landinu þá er nær engin skipulögð kennsla í grunnmenntakerfinu sem er tileinkuð þessum mikilvægu málefnum.
 
 
Förum yfir þetta:
 
Borga skatta: Allir sem vinna heiðarlega vinnu koma til með að þurfa að borga skatta. Það er e.t.v. efni í aðra þrumu hversu efnilegt skattkerfið okkar er, en hvort sem mönnum líkar það eða ekki, þá eru allar líkur á að þeir þurfi að taka þátt í því. En þrátt fyrir að fólk komi til með að greiða um 40% launa sinna til ríkisins í formi skatta alla sína ævi (og væntanlega meira miðað við áform núverandi ríkisstjórnar) þá er þegnum þessa lands sama sem ekkert kennt um þetta kerfi eða hvernig eigi að bera sig að í skyldumenntun sinni sem greidd er af ríkinu. Ég gerði óformlega skoðanakönnun á þessu máli í sumar þar sem ég spurði fólk af báðum kynjum og á öllum aldri einfaldra spurninga um skattkerfið eins og:
1) Veist þú hvað þú færð mikið í persónuafslátt og hversu oft?
2) Veistu hvert frítekjumarkið er?
3) Veistu hvar skattþrepin skiptast?
4) Skilurðu megnið af upplýsingunum á skattskýrslunni þinni?
5) Veistu hvað útsvar er og hversu hátt það er?
O.s.frv.
 
Það kom mér svo sem ekkert á óvart að langflestir gátu ekki einu sinni svarað helmingnum af þessum spurningum. Ekki ætla ég mér að svara þessum spurningum hér að ofan í þessari yfirferð, en ég viðurkenni að þangað til í fyrra þá kunni ég ekki mikið á skattskýrslu og eftir skattabreytingarnar núna vissi ég nær ekkert um skattkerfið. Ég trítlaði þess vegna niður á opinbera stofnun í Vestmannaeyjabæ og bað þar fróðan mann að kenna mér á kerfið sem mér til mikillar gleði og undrunnar hann gerði og hef ég því smá grunn þekkingu á nýja kerfinu (sem er mjög furðulegt). Það er ekki að ástæðulausu t.d. að bankar ráða til sín skattalögfræðinga á himinháum launum, það er vegna þess að það borgar sig að þekkja og kunna á skattkerfið.
 
Taka lán: Nær allir koma til með að þurfa að taka lán á ævinni, flestir þurfa væntanlega að taka húsnæðislán fyrr eða síðar og einhverjir jafnvel bílalán og áfram mætti telja. Hér lendum við aftur á vegg. Hversu margir lesendur geta sagt að þeir hafi góðan skilning á eftirfarandi hugtökum:
a) Höfuðstóll
b) Gengistrygging og munur þess að vera með gengistryggt lán og ógengistryggt og hvernig verðbólga og neysluvísitala mun þá hafa áhrif á afborganir þínar
c) Gengi gjaldmiðla, vaxtamunur og styrkur krónunnar ef að þú ert með erlent lán
d) Fastir vextir
O.s.frv.
 
Ég hef ekki gert sambærilega könnun og með skattkerfið á þessu en ég veit að mikið af fólki á mínum aldri (í kringum 22-30 ára) eru nú í þeim sporum að kaupa sér sína fyrstu íbúð og hafa ekki hugmynd um það að ef að þú tekur 10 miljón króna lán í banka í dag til 25 ára þá kemuru til með að borga til baka um 28 miljónir á bestu kjörum!
 
Greiða atkvæði: Langflestir sem eru yfir 18 ára hafa einhvertíman greitt atkvæði, hvort sem það er í sveitastjórnarkosningum, alþingiskosningum, til Forseta eða annað. Ég leyfi mér hinsvegar að efast um það að megnið af þessum hóp (kosningabærum Íslendingum) skilji mjög vel hvernig atkvæði þeirra virkar. Spurningar eins og:
i) Hvert er raunvægi atkvæðis?
ii) Væri betra að kjósa flokkinn eða manninn?
iii) Skiptir uppstillingin máli?
iv) Hvert er útstrikunarhlutfallið?
v) Hvar liggja kjördæmalínur og hversu mörg atkvæði eru á hvern kjörin fulltrúa í okkar kjördæmi?
O.s.frv.
 
Enn og aftur eru þarna mikilvægar spurningar.
 
Fimmtudagsþrumunni finnst það mjög skrýtið að grundvallaratriði eins og t.d. þessi hér að ofan séu ekki kennd a.m.k. farið vel í grunninn í skólakerfinu! Höfundur fór niður í menntamálaráðuneyti á þessu ári og sagðist vera með eitursnjallar hugmyndir fyrir skólakerfið. Höfundur fékk að hitta þá manneskju sem bar ábyrgð á þessum málum og kynnti hann m.a. ofangreindar hugmyndir. Höfundi til mikillar furðu var eins og það hefði aldrei neinn stungið upp á þessu og fékk hann mikið hrós og lof fyrir góðar hugmyndir ásamt loforði um að þetta yrði skoðað. Ekki hefur höfundur heyrt neitt meira um málið hálfu ári seinna.
 
Mér finnst það algjör krafa að í lýðræðissamfélagi þar sem venjulegt fólk fær að kjósa um framtíð og málefni þessa lands að fólkið sé þá nægilega vel upplýst. Slíkt er algjör grundvallarkrafa á skilvirkt lýðræði. Ef ég veit að ég og flestir Íslendingar vita ekki neitt um húnsæðislán, skatta, og kosningarmál af hverju ætti ég þá að vilja að ég og flestir Íslendingar fái að kjósa og taka úrslitaákvarðanir um slík mál? Þetta er ein af ástæðunum að þjóðaratkvæðagreiðslur um flókin málefni geta (ath GETA) verið varasamar. Allt of margir fá sína kennslu frá hlutdrægum fjölmiðlum.
 
Það er þess vegna krafa og hér með áskorun Fimmtudagsþrumunnar að menntakerfið sinni þessu grundvallarhlutverki, að búa þegna landsins undir líf og starf í samfélaginu Íslandi, en það felst m.a. í því að borga skatta, taka lán og greiða atkvæði.
 
Hvet hér með lesendur Fimmtudagsþrumunar um að halda þessum þrýsting lifandi. Höfundur væri mjög sáttur ef að börn hans í framtíðinni myndu fá kennslu um þetta í skilvirku og kröftugu menntakerfi.
 
Að þessu sögðu (skrifuðu) lofa ég að í næstu Fimmtudagsþrumu verði róið á ný mið.
 
Tryggvi
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.