Vestmannaeyjar og ég

Björgvin Vals bloggar

31.Ágúst'10 | 10:05
Á vefnum eyjan.is er að finna skemmtilegt blogg um heimsókn Björgvins Vals til eyja um síðustu helgi en hann hafði ekki komið til eyja frá því að hann var barn. Björgvin Valur er barnabarn Guðlaugs Brynjólfssonar útgerðarmanns í eyjum og byggði hann m.a. húsið Odda á Vestmannabraut og segir Björgvin frá því að hann hafi séð húsið en ekki þorað að trufla núverandi íbúa. Skrif Björgvins Vals má lesa hér að neðan:
Um helgina fór ég til Vestmannaeyja. Þangað hafði ég ekki komið síðan ég var barn; líklega hefur það verið fyrir Surtseyjargos því ég man eftir að pabbi kom um borð í Esjuna og heilsaði upp á mig en ég man ekki eftir neinum goslátum. Það er til mynd af okkur saman um borð í Esjunni og kannski þykist ég því bara muna eftir heimsókninni.
 
Auðvitað er það bölvaður amlóðaháttur að hafa ekki skroppið fyrr til Eyja því ég er jú hálfur þaðan. Pabbi fæddist þar og ólst upp en afi var stöndugur útgerðarmaður í Vestmannaeyjum á fyrri hluta síðustu aldar en um seinna stríð, seldi hann allt sitt og fjárfesti í einhverjum fasteignum í Reykjavík. Hvað varð um það allt veit ég ekki, en svo mikið er víst að ekkert barna hans erfði neinar fúlgar þegar hann dó.
 
Ég sá húsið sem hann byggði í Eyjum; það heitir Oddi en af því ég er mannfælinn og hlédrægur, kunni ég ekki við að knýja dyra og rabba við núverandi íbúa þess. Leyfi mér þess í stað að tengja hingað mynd (ef eigendur myndarinnar eru ósáttir við þessa birtingu, mun ég glaður fjarlægja hana) sem ég fann á Heimaslóð af Guðlaugi afa og Valgerði ömmu með fjögur föðursystkini mín en sex börn voru þarna ófædd, þeirra á meðal faðir minn, Gvendur Eyja. Þarna er fóstursonur þeirra, Jóhannes G. Brynjólfsson að fermast.
 
En núna lét ég sumsé verða af því að heimsækja þessar slóðir feðra minna og ömmu og eitt er öruggt; ég ætla að fara þangað aftur innan skamms og skoða mig betur um því bærinn í Vestmannaeyjum er annar af tveimur fallegustu á landinu.
 
Hinn er að sjálfsögðu elsti hluti höfuðborgarinnar.
 
Ég hef komið til Gíbraltar og Vestmannaeyjar eru á einhvern hátt smækkuð útgáfa af þeim sögufræga stað; kletturinn hangir yfir bænum, göturnar eru þrengri og minni en hér uppi á fasta landinu og lífið snýst um skip og núorðið túrista á báðum stöðum. Og bæði Vestmannaeyjar og Gíbraltar hafa fallið í hendur fylgjenda Múhameðs. Ég efast þó um að inni í Heimakletti eigi sér stað háleynileg njósnastarfsemi eða að þar sé tónleikasalur en maður veit þó aldrei. Kannski er Árni Johnsen búinn að hola hann út og fylla hellinn af hellum og grjóti.
 
Ég skil vel að Ási í Bæ og Árni úr Eyjum hafi fundið innblástur fyrir ljóð sín þarna og lögin hans Oddgeirs smellpassa við stemninguna sem lifir í eyjunum. Svo ekki sé minnst á ódauðlegar perlur Gylfa Ægissonar og Loga úr Vestmanneyjum.
 
Í bænum er krökkt af veitingahúsum þar sem maður getur setið úti í sólinni og sötrað drykk að eigin vali og söfnin eru sérlega góð; mæli sérstaklega með Surtseyjarstofu.
 
Hraunkanturinn við bæjarjaðarinn er ógnvekjandi áminning um duttlunga náttúrunnar en vinur minn sem var með í för, hafði á orði að það væri örugglega sniðugt að setjast að í Vestmannaeyjum nema frá jarðfræðilegu sjónarhorni litið.
 
Það þurfti skipulagða hópferð til að ég færi út í Eyjar, nánar til tekið sumarferð Samfylkingarinnar og mikið kann ég Gerðu og þeim hinum í ferðanefndinni miklar þakkir fyrir að hafa skipulagt allt jafn vel og raun bar vitni.
 
Næst fer ég þó upp á eigin spýtur og stoppa lengur.
 
Verst að ég gleymdi að láta minniskort í myndavélina (sennilega af því að innra minnið í mér er farið að slappast) en ég treysti því að vinir sem voru með í ferð, deili einhverjum myndum.
 
Mæli svo með því að þið drífið ykkur út í Eyjar því þær eru topp staður.
 
Ferðalagið er bara ljúft og meira að segja ég varð ekkert sjóveikur á leiðinni.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.