Eyjamenn vilja fleiri ferðir Herjólfs

25.Ágúst'10 | 07:20
Vestmanneyingar vilja að ferðum Herjólfs milli Eyja og Landeyjahafnar verði fjölgað. Einungis er mánuður frá því að ný Landeyjahöfn var tekin í notkun og ferðum var fjölgað verulega en bæjarstjóri Vestmannaeyja segir að skipið anni ekki eftirspurn að óbreyttu.
Um síðustu mánaðamót gekk í gildi ný Evrópureglugerð sem leiðir til þess að Herjólfi er nú aðeins leyfilegt að flytja 399 farþega í hverri ferð í stað 520 farþega áður, segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.
 
Síðastliðinn mánuð hafa 60.000 farþegar siglt milli lands og Eyja. Allt árið á undan voru farþegarnir 127.000 talsins á tólf mánuðum.
 
Farþegafjöldinn síðasta mánuð jafngildir því helmingi farþegafjölda alls síðasta árs. „Skipið ber ekki nóg til að núverandi áætlun dugi," segir Elliði.
 
„Það er eingöngu ein leið fær og það er að fjölga ferðum."
Nú eru farnar þrjár til fimm ferðir daglega, flestar um helgar en fæstar í byrjun viku. Næsta laugardag á 300 manna hópur pantað far með fyrstu ferð dagsins, að sögn Elsu Valgeirsdóttur, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Vestmannaeyja. Þetta leiðir til þess að 100 manna hópur sem var búinn að panta rástíma á Golfvelli Vestmannaeyja að morgni laugardagsins kemst ekki út í Eyjar.
 
Elsa segir að það sé bagalegt fyrir ferðaþjónustuaðila í Eyjum hve seint siglingar skipsins hefjist um helgar. Fyrsta ferð er klukkan níu um helgar en klukkan hálfátta virka daga. Best væri að ferðir væru á sama tíma um helgar og virka daga.
 
Elliði segir að Eyjamenn vilji bara að ferðirnar anni eftirspurn, ekkert umfram það.
 
„Orðræðan í gegnum tíðina hefur verið sú að siglingar Herjólfs séu eitthvert einkamál okkar Eyjamanna. Nýtingartölur fyrsta mánuðinn eftir að Landeyjahöfn kom til sýnir að notendurnir eru í hverfandi mæli Eyjamenn. Þessir 60.000 farþegar eru að mestu leyti Íslendingar sem eru að nota skipið sér til skemmtunar og ánægju."
 
„Ég er mjög bjartsýnn á að við fáum aukaferð á laugardag," segir bæjarstjórinn. „Og ég er bjartsýnn á að samgönguyfirvöld komi til móts við okkur og sjái að það er brýn þörf á að endurskoða áætlunina."

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.