1-1 í Kópavoginum

17.Ágúst'10 | 08:18
Breiðablik og ÍBV skildu jöfn, 1-1, í toppslag 16.umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.  Eyjamenn halda því tveggja stiga forystu á toppnum og FH-ingar eiga möguleika á að sækja enn harðar að toppliðunum með sigri á Grindvíkingum á fimmtudag.
Fyrri hálfleikur var líflegur og fjörlegur og liðin voru til allrar lukku skemmtilega fjarri því að leggjast í skotgrafirnar og leggja áherslu á varnarleik. Þau léku bæði af skynsemi og Blikarnir voru meira með boltann, reyndu hinar ýmsu aðferðir við að brjóta vörn Eyjamanna á bak aftur, en uppskáru sjaldnast laun erfiðisins. Heimamenn réðu ferðinni á miðjunni og gerðu margt býsna vel, en Eyjamenn, sem lengstum höfðu þann háttinn á að Eyþór Helgi Birgisson var í raun eini maðurinn sem ekki hafði augljósum varnarskyldum að sinna, beittu hröðum og hættulegum sóknum. Það var einmitt upp úr einni slíkri sem þeir fengu vítaspyrnu á 21.mínútu leiksins, boltinn hrökk þá í hönd eins Blikanna inni á vítateignum og ágætur dómari leiksins, Magnús Þórisson, dæmdi réttilega víti. Tryggvi Guðmundsson tók spyrnuna og lét eilitla töf ekki slá sig út af laginu, skoraði af öryggi og kom Eyjamönnum yfir. Eftir markið gerðust gestirnir jafnvel enn varfærnari í sóknaraðgerðum sínum en gáfu hins vegar fá færi á sér. Bæði lið áttu heiðarlegar tilraunir til markaskorunar á lokamínútum fyrri hálfleiks, en vítaspyrnumark Tryggva skildi liðin að þegar flautað var til leikshlés.
 
Blikar hófu síðari hálfleikinn af fítónskrafti. Guðmundur Pétursson kom inn á fyrir Kristin Steindórsson í upphafi hálfleiksins og við það jókst sóknarþungi heimamanna, Alfreð færði sig örlítið aftar á völlinn og hver sóknarlotan á fætur annarri buldi á Eyjavörninni. Hún gaf sig hvergi og Eyjamenn kunna sín hlutverk og sín takmörk afskaplega vel. Þeir kunna þá list að sækja hratt og náðu annað veifið að halda ágætri pressu á Blikaliðinu, en hins vegar var færra um opin og umtalsverð marktækifæri. Danien Justin Warlem kom inn á sem varamaður fyrir Eyþór Helga eftir tólf mínútna leik í síðari hálfleik og frískaði talsvert upp á sóknarleik gestanna. Engu að síður gekk Eyjamönnum bölvanlega að skapa sér færi og rRétt í þann mund sem þeir virtust vera að ná ágætum tökum á leiknum kom jöfnunarmark Blika, nánast upp úr engu. Guðmundur Kristjánsson átti þá hárnákvæma sendingu inn fyrir Eyjavörnina þegar harla fátt virtist vera að gerast, Alfreð Finnbogason nýtti sér sofandahátt í vörninni og skoraði með glæsilegu skoti í hliðarnetið fjær, 1-1 og allt upp í loft. Baráttan var í algleymingi það sem eftir lifði leik, hvorugt liðanna gaf tommu eftir og þótt Blikar hafi á löngum köflum verið líklegri til afreka sýndu Eyjamenn það með reglulegu millibili að mönnum er hollara að setjast ekki aftur á hælana þegar leikið er gegn þeim. Blikar gerðu sig nokkrum sinnum líklega á lokakaflanum, sóttu býsna stíft og fengu þolanleg færi, það besta í viðbótartíma þegar Andri Ólafsson bjargaði skoti Alfreðs Finnbogasonar á marklínu og Blikar skölluðu svo í þverslána upp úr hornspyrnunni. Líklega eru Blikar öllu óánægðari en Eyjamenn með skiptan hlut þegar allt er talið. Lokatölur í Kópavoginum í kvöld urðu 1-1.
 
 
Breiðablik 1-1 ÍBV
0-1 Tryggvi Guðmundsson (v) 21.mín.
1-1 Alfreð Finnbogason 65.mín.
 
Lið Breiðabliks:
Ingvar Þór Kale – Kristinn Jónsson, Elfar Freyr Helgason, Kári Ársælsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson – Kristinn Steindórsson (Guðmundur Pétursson 46.), Jökull Elísabetarson, Finnur Orri Margeirsson (Olgeir Sigurgeirsson 84.), Guðmundur Kristjánsson, Haukur Baldvinsson – Alfreð Finnbogason.
Varamenn: Sigmar Ingi Sigurðarson, Árni Kristinn Gunnarsson, Árni Vilhjálmsson, Rannver Sigurjónsson, Bjarki Aðalsteinsson.
 
Lið ÍBV:
Albert Sævarsson – Matt Garner, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Rasmus Christiansen, James Hurst – Tryggvi Guðmundsson, Finnur Ólafsson (Ásgeir Aron Ásgeirsson 90.), Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andri Ólafsson, Tonny Mawejje – Eyþór Helgi Birgisson (Danien Justin Warlem 57.).
Varamenn: Elías Fannar Stefnisson, Yngvi Magnús Borgþórsson, Anton Bjarnason, Arnor Eyvar Ólafsson, Gauti Þorvarðarson.
 
Áhorfendur: 3.180…metfjöldi á Kópavogsvelli.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.