Fékk tjaldhæl í gegnum ennið

Í sjúkraflugi til Reykjavíkur - „Ég er með þeim heppnari á jörðinni“

13.Ágúst'10 | 17:51
Valdimar Gíslason má teljast ótrúlega heppinn að sleppa án teljandi meiðsla eftir að tjaldhæll stakkst í ennið á honum. Einungis munaði millímetra að tjaldhællinn fór í gegnum höfuðkúpuna og segist hann heppinn að hafa ekki orðið blindur eða hlotið heilaskaða.
Óhappið varð á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, síðdegis á sunnudeginum. Valdimar segir við Pressuna að hann hafi verið staddur á tjaldstæðinu í Herjólfsdal ásamt nokkrum vinum sínum. Þeir fá þá „snilldarhugmynd“ að sækja sér rollu upp í fjall til að taka með á tjaldstæðið.
 
„Ég rauk upp úr stólnum og byrja að rífa upp böndin á tjaldinu minu sem eru vel hæluð niður. Ég held ég hafi verið búinn að taka eitt upp þegar ég kippi af svolitlum krafti í annað bandið. Þá hefur greinilega myndast einhver spenna og bandið orðið eins og teygja , nema hvað um leið og ég kippi í bandið heyri ég svona „dojojong“ hljóð og mér leið eins og ég hafi fengið bolta í andliti.“
 
Valdimar segist ekki hafa fallið um koll, heldur hafi hann vaggað fram og aftur. Hann snýr sér síðan við í átt að vinum sínum sem verða agndofa að undrun. Sjálfur segist Valdimar hafa orðið rangeygður, gripið um hælinn og spurt:
 
„Er ég með tjaldhæl í andlitinu?“
 
Valdimar segir að vinkona hans hafi aðstoðað hann að sjúkragæslunni í Herjólfsdal. Þaðan var hringt á sjúkrabíl sem flutti hann á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þar sem hann fór í myndatöku og gekkst undir skoðun. Valdimar segir að fjöldi sérfræðinga hafi skoðað hann í bak og fyrir, en í ljós kom að áverkarnir voru ekki eins alvarlegir og leit út fyrir í fyrstu. Var honum tjáð að hann hafi verið ótrúlega heppinn.
 
„Þá kemst ég að því að ég er heppnasti drengur á jörðinni því tjaldhællinn var á besta stað á milli augabrúnarinnar og nefsins. Hann fer í gegnum ennisholið og inn í hauskúpuna og það munaði ekki nema einum millímetra að hann færi í gegnum hana.“
 
Valdimar segist hafa beðið í tvo til þrjá tíma á meðan læknarnir réðu ráðum sínum. Síðan hafi einn læknirinn komið inn í herbergið með töng og sagt honum að leggjast og halda sér fast í sjúkrarúmið.
 
„Ég geri það og hann kippir bara í teininn og hann losnar úr hauskúpunni og lafir niður með nefinu á mér. Hann fer eitthvað að tala um að svæfa mig og deyfa. Ég var ekki á því þar sem ég var að drepast í hausnum. Þannig að í stað svæfingar eða deyfingar tek ég bara um hælinn, sný uppá hann og dreg hann út. Ég rétti lækninum hann og leggst aftur.“
 
Valdimar segir að til öryggis hafi hann verið látinn dvelja á Heilbrigðisstofnuninni yfir nóttina en hann hélt heimleiðis með sjúkraflugi daginn eftir, að lokinni læknisskoðun. Hann er óðum að jafna sig og eru ummerkin eftir tjaldhælinn að mestu horfin. Er það eina sem stendur eftir sár á enninu „sem lítur út eins og bóla“. Hann segist hafa sloppið ótrúlega vel.
 
„Eftir þetta allt saman komst ég að því að ég er með þeim heppnari á jörðinni. Ég hefði getað orðið blindur eða gert „sjeik“ úr heilanum á mér. Þess í stað er þetta bara ein mest „legendary“ sagan frá Þjóðhátíð 2010.“
 
Lögreglan í Vestmannaeyjum staðfestir við Pressuna að ungur drengur hafi verið fluttur á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja eftir að hafa fengið tjaldhæl í augað. Hún hafði hins vegar ekki hugmynd um að tilgangur Valdimars hafi verið að krækja sér í rollu. Eins og Valdimar segir sjálfur frá:
 
„Ég vildi helst ekki fara að útskýra fyrir þeim að ég ætlaði að sækja rollu.“
 
www.pressan.is greindi frá.
 
 
 
 
 
 
 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.