Enn eru frelsisbaráttur að há, þú mátt ekki niðurhala!

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

12.Ágúst'10 | 01:08
Fyrir börnin, fyrir frelsið
 
Nokkrum sinnum hefur það komið fyrir höfund að honum tekst að fá megnið af umhverfinu upp á móti sér með einhverjum yfirlýsingum. Slíkt gerðist t.d. nýlega þegar höfundur var á NATO ráðstefnu og lýsti yfir óánægju sinni í formlega kvöldverðinum, með að ekki væri hvalkjöt á boðstólnum.
Við þetta varð allt brjálað og var þjóðverji við borðið sem að úthúðaði höfundi fyrir að vera svona vitlaus og grimmur að vilja veiða hvali. Höfundur viðurkennir hér með að vissulega fannst honum þetta skemmtilegt og var þetta að nokkru leyti eins konar beita sem hafði verið lögð, enda var þetta alltof rólegt kvöldverðarboð. Þjóðverjinn sem sagt tilkynnir höfundi það að allir hvalir séu í útrýmingarhættu og að enginn góð né efnahagsleg ástæða sé fyrir því að veiða hvali. Á sinn kurteisasta hátt útskýrði höfundur að það væri allt troðið af hvölum á Íslandi, sjálfur kæmi hann frá eyju sem varla væri hægt að sigla í kring um án þess að rekast á hvali (sem er einfaldlega byggt á persónulegri reynslu, vegna þess að í u.þ.b. helming af síðustu sjóferðum mínum hef ég séð hvali í kringum Vestmannaeyjar) og að Íslendingar veiða einungis hvali sem eru ekki í útrýmingarhættu, þá útskýrði höfundur einnig að Ísland væri fiskveiðiþjóð og það væri virkilega mikilvægt fyrir efnahag þjóðarinnar að fiskistofnarnir væru sterkir hér sem væru veiddir og að stór hvalur geti étið álíka magn af fiski eins og margir fiskibátar fiska á ári, þá var honum einnig kurteislega bent á að hvalir væru gómsætir og að vissulega væri hagnaður af hvalveiðum þó hann væri etv ekki neitt gífurlegur. Það sem gerðist næst kom höfundi virkilega á óvart: Danirnir við borðið, Þjóðverjinn og Úkraínu maðurinn höfðu öll æst sig yfir upphaflegu hval athugasemdinni og látið í sér heyra, en nú þögnuðu þau öll. Ekkert af þeim hafði nokkur tíman heyrt neina af þessum röksemdum. Þjóðverjinn meira að segja baðst afsökunar og sagðist ekki vita þetta, eina sem hann vissi, væri að í vötnum Evrópusambandsins væru hvalir sjaldséðir.
 
En eins og ég byrjaði á að segja þá hef ég stundum með yfirlýsingagleði í hita leiksins endað einn gegn öllum. Hvala málefnið hefur eins og dæmið hér fyrir ofan sýnir, komið mér í slíka stöðu en það sem hefur oftar komið mér í þá aðstöðu er þegar ég hef rætt notkun internetsins og þá sérstaklega niðurhal.
 
Þá kem ég loksins að kjarnanum í Þrumunni: „af hverju ætti að vera í lagi að sækja sér efni í gegnum internetið?“
 
Með internetinu og í kjölfarið nægilega mikilli flutningsgetu til að geta niðurhalað margmiðlunarefni breyttust allar forsendur í dreifingu og aðgang að slíku efni. Það er eindregin skoðun höfundar að það sé mikil þrjóska og barátta við vindmyllur að ætla sér að berjast gegn þessari þróun, þ.e. þeirri þróun að fólk mun sækja sér gögn í gegnum netið.
 
 
Setjum upp nokkur dæmi:
 
Tónlist: Hvað er það sem flestir tónlistarmenn vilja gera með og við tónlist sína? Þeir vilja að hún fari í mikla dreifingu og verði hlustað á hana víða þ.e. frægð. Þeir vilja græða á henni þ.e. ríkidæmi. Þeir sem eru svo hugsjónarmenn vilja e.t.v eitthvað meira eins og ódauðleika. Með aðstoð netsins hafa tónlistarmenn í dag allir sem einn fengið risa stökkpall til að ná akkurat þessum markmiðum. Tónlistarmenn í dag græða aðallega á því að selja inn á tónleika, fólk fer á tónleika vegna þess að það hefur haft aðgang að efni listamannsins og líkar það. Með tilkomu frjálsrar dreifingar á netinu var einfaldlega hægt að klippa út óþarfa millilið; plötufyrirtækin. Ég mæli með því við alla upprennandi tónlistarmenn í dag að fjárfesta í góðum upptökum og setja svo efnið frítt á netið og að hægt sé að niðurhala því. Þetta margaldar stuðulinn á að fólk muni heyra tónlist listamannsins.
 
Kvikmyndir: Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi kvikmynda og horfi alveg gífurlega mikið á kvikmyndir. Þrátt fyrir að í dag horfi ég mikið á myndir í tölvunni minni er ég engu að síður mjög duglegur að fara í bíó og þrátt fyrir sífelldan áróður að niðurhal hafi áhrif á bíóaðsókn sýna sölutölur bara allt aðra mynd og sífellt eru slegin aðsóknarmet.
 
Með internetinu fékk kynslóðin okkar og barnanna okkar mesta aðgang í mannkynssögunni að upplýsingum sem venjulegt fólk hefur haft og þar með getu og miðil til að auka menntun sína og upplýsingaöflun á eigin vegum og heiman frá sér. En mismikið aðgengi að upplýsingum er nákvæmlega það sem hefur stuðlað að ójöfnuði, kúgun og stéttaskiptingu í fortíðinni. Þess vegna er hrikalegt að sjá það að enn í dag séu aðilar sem berjast gegn þessu. Rétt eins og þegar bókin kom hafa eflaust einhverjir kvartað yfir því að munnmælahefðin myndi nú deyja út, þá kvartar fólk í dag yfir því að með frjálsri dreifingu á internetinu muni hugvit og vilji til að hugmyndasköpunar verða kraminn. Slík röksemdarfærsla er mjög fjarlæg raunverulegri þróun. Þá má vissulega benda á það að á netinu fyrirfinnst einnig mikill viðbjóður og auðveldar netið aðgang að slíku, en það er allt önnur umræða sem kemur að vali mannsins og frelsi hans til að vera viðbjóðslegur. Það að einhver vilji sækja sér óbjóð í gegnum netið á ekki að koma í veg fyrir að ég geti lært stærðfræði í gegnum netið. (vissulega mikil einföldun á málinu, en þar sem þetta er útúrdúr vil ég ekki eyða meira plássi í þetta).
Það verður mikilvæg og ég meina MIKILVÆG réttindabarátta hjá okkur mannfólkinu á næstu árum að tryggja það að niðurhal verði frjálst og að ekki verði settar á miklar ríkistakmarkanir á hvaða upplýsingar við viljum sækja okkur og gera þannig internetinu kleift að gera það sem það gerir best, miðla og deila upplýsingum. Vissulega eru ákveðnir hlutir viðbjóðslegir og ólöglegir eins og barnamisnotkun og á allt slíkt efni að mati höfundar að vera bannað og fjarlægt eftir bestu getu. Hér er auðvitað ekki verið að ræða slík tilfelli.
 
Myndi William Wallace sætta sig við frelsistakmarkanir á internetinu?
 
Það sem við erum að berjast við núna er einfaldlega útrunninn málefnaflutningur sem tekur mið af því að ekki sé til miðill eins og internetið og þess vegna eigi þær takmarkanir sem eru ræddar af alvöru í dag rétt á sér.
 
Fimmtudagsþruman segir nei við slíkri kúgun og já við frelsinu, já við aukinni upplýsingagetu og já við kærleikanum!
 
Kappakveðja
 
Með fullri virðingu
 
Tryggvi
 
Disclaimer (sem er þýtt riftunarákvæði í orðabókinni, ó jæja vona að lesendur viti hvað átt er við):
 
Í pistli á stærð við Fimmtudagsþrumuna kemst aðeins ákveðið magn af upplýsingum fyrir og valdi höfundur þess vegna að taka aðeins tvö grunn kjarnarök í þessari umræðu. Það er miklu fleira sem mælir með því að miðlun upplýsinga í gegnum netið eigi að vera svo til frjáls. En það sem ég tel e.t.v. að liggi meira í augum uppi, þurfi ekki að segja eða sé einfaldlega of tæknilegt til að taka fram í svona almennri yfirferð var látið liggja á milli hluta. Þess vegna bið ég fólk sem hefur athugasemdir eða pælingar eða finnst eitthvað ekki koma fram endilega bara að senda slíkt á vefpóstinn minn: tryggvi@inbox.com hafi það gríðarsterka löngun út frá siðferðiskennd sinni til þess að tjá sig frekar.(þetta segi ég vegna þess að ég veit hvað þetta er mikið hitamál hjá sumum).
 
 
 
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.