Þjóðhátíð í Eyjum frá árinu 1874

Í skugga eldgoss 1973 og níu létust vegna eitraðs tréspíra 1943

26.Júlí'10 | 23:48
Næsta föstudag hefst Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og því er ekki úr vegi að rifja upp sögu þessarar sívinsælu hátíðar. Margar hefðir og venjur fylgja hátíðinni en einstaka sinnum hafa áföll sett svip sinn á hana.
 
Þjóðhátíð í Vestamannaeyjum er haldin einu sinni á ári um Verslunarmannahelgina og hafa vinsældir hennar aukist ár frá ári. Hún er ein sögulegast hátíð okkar Íslendinga og má rekja sögu hennar allt aftur til ársins 1874.
Fyrstu hátíðarhöldin sem fóru fram í Herjólfsdal voru á 19. öld þegar að kaupmaðurinn Pétur Bryde hélt veislu fyrir starfsfólkið sitt. Árið 1859 lagði Pétur veg inn í Herjólfsdal og auk þess reyndi hann að gróðursetja tré í dalnum. Þær tilraunir misheppnuðust og garðurinn var rifinn 1932 þegar hlaupabraut var lögð í kringum tjörnina í Herjólfsdal. Garðurinn stóð þar sem litla sviði er nú staðsett.
 
Fyrsta Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum var haldin 2. ágúst árið 1874 vegna komu Kristjáns níunda Danakonungs til Íslands en af því tilefni afhenti hann okkur fyrstu stjórnarskrá landsins. Um 400 manns mættu á fyrstu þjóðhátíðina í Eyjum.
Sú saga hefur lifað lengi að upphaf þjóðhátíðar stafi af því að fulltrúar Vestmanneyinga hafi ekki komist til Þingvalla til þess að fagna konungi vegna óveðurs, samkvæmt fræðimanninum Árna Björnssyni er það hins vegar ekki rétt. Í fyrsta lagi hófst sú hátíð 5. Ágúst, í öðru lagi komu fulltrúar Vestmanneyinga á þá hátíð og í þriðja lagi var hátíðin í Vestmannaeyjum vel undirbúin.
 
Frá árinu 1874 voru haldnar nokkrar hátíðir í viðbót og þá yfirleitt um miðjan ágúst. Keppt var í róðri, sungið, dansað og kaffi drukkið. Ekkert bendir til þess að um miklar svallhátíðir hafi verið að ræða eins og síðar hefur orðið. Frá árinu 1901 var hátíðin orðin árlegur viðburður.
 
Tréspírahátíðin 1943
 
Mánudaginn 10. ágúst árið 1943, daginn eftir að þjóðhátíð lauk, bárust þau tíðindi frá Vestmannaeyjum að Daníel Loftsson væri látinn og að ekki væri allt með felldu um dauða hans. Litlu síðar bárust fréttir af því að annar Eyjamaður, Þorlákur Sverrisson, væri látinn.
Fljótlega barst sú saga frá Eyjum að um áfengiseitrun væri að ræða og litlu seinna létust sjö einstaklingar til viðbótar.
 
Eftirfarandi lýsingu má sjá í pistli Leifs Sveinssonar í Morgunblaðinu um Vestmannaeyjasumarið 1943:
 
„Menn höfðu yfirleitt klárað allt sitt áfengi, svo nú settu nokkrir ógæfumenn eitraðan tréspíra í umferð með þeim hörmulegu afleiðingum, að níu dóu, einn varð blindur og 20 urðu veikir. Í hæstaréttardómi í málinu nr. 73/1944 var dómur kveðinn upp hinn 9. febrúar 1945 og tveir menn dæmdir í fangelsi, annar í 12 mánaða, en hinn í sex mánaða fangelsi. Sá þriðji, sem ákærður var, var sýknaður. Áhöfnin á Stakksárfossi VE-245 hafði fundið ómerkta tunnu á reki, hirt hana og fór með sýnishorn af innihaldinu til apótekarans í Vestmannaeyjum. Einn hinna ákærðu skildi eftir sýnishorn af innihaldi tunnunnar hjá lyfsalanum, en "hann kvaðst ekki geta sagt um, hvaða vökvi þetta væri, þar sem hann hefði ekki tæki til efnagreiningar. Hins vegar varaði hann við að nota vökvann til drykkjar". Þrátt fyrir þessar aðvaranir lyfsalans fór nokkurt magn af þessu eitraða metanóli í umferð með fyrrgreindum afleiðingum. Andrúmsloftið í bænum dagana á eftir var ólýsanlegt. Alger drungi lagðist yfir bæinn, í tvo daga var engin vinna hafin, hvorki hjá Ársæli frænda né á öðrum vinnustöðum. Menn voru sem lamaðir.˜
 
Eldgosshátíðin 1973
 
Heimaeyjargosið hófst 23. janúar árið 1973 og því lauk 3. júlí sama ár. Þar sem Herjólfsdalur var fullur af vikur og gjalli var hann óhentugur til hátíðahalda og var því þjóðhátíð færð suður á Breiðabakka næstu árin. Hátíðin sem haldin var árið 1973 stóð aðeins yfir í einn dag og var haldin fyrir starfsmenn sem unnu við að hreinsa Vestmannaeyjabæ.
Árið 1976 var Herjólfsdalur hreinsaður og árið eftir var þjóðhátíð haldin í dalnum og hefur hún verið þar síðan.
 
Hefðir
 
Í Vestmannaeyjum voru allt til ársins 1996 tvö íþróttafélög, Týr og Þór, sem héldu þjóðhátíðina annað hvert ár. Mikill rígur var milli liðanna sem byggðu meðal annars sitt hvora brúnna yfir tjörnina í dalnum.
Sagt var um ríginn:
 
„Þórarar fullyrtu að guð væri í Þór, alltaf gott veður á Þórs þjóðhátíð. Týrarar fullyrtu að það væri alltaf fleiri á Týs þjóðhátíð og alltaf meira gaman!˜
 
Eftir að íþróttafélögin sameinuðust árið 1996 hefur ÍBV haft umsjón með hátíðinni en sumir heimamanna vilja meina að hátíðin hafi staðnað eftir að félögin voru sameinuð.
 
Á hverju ári er samið nýtt þjóðhátíðarlag og rekja má þá hefð til ársins 1933 þegar lagið Setjumst hér að sumbli kom út.
Hvítu tjöldin í dalnum eru einnig áratuga gömul hefð en heimamenn bjóða gesti og gangandi inn í þau til þess að þiggja veitingar og skemmta sér. Mikill metnaður er settur í tjöldinn og göturnar milli tjaldanna hafa borið sömu nöfn frá fyrstu tíð.
 
Á þjóðhátíð 1977 var í fyrsta skiptið sunginn svokallaður brekkusöngur undir stjórn Árna Johnsen og hefur hann verið fastur liður æ síðan. Þó þurfti Eyjamaðurinn Róbert Marshall að hlaupa í skarðið fyrir Árna og stjórna brekkusöngnum þegar Árni sat í fangelsi árið 2003.
 
www.pressan.is greindi frá.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).