Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundaði um borð í Herjólfi

21.Júlí'10 | 00:45
Í tilefni af því að Herjólfur fór sínu fyrsta formlega ferð í Landeyjarhöfn fundaði bæjarstjórn Vestmannaeyja um borð í Herjólfi kl. 16.15 í gærdag. Svo hljóðandi samþykkt var þar gerð:
 
Á vígsludegi Landeyjahafnar fagnar Bæjarstjórn Vestmannaeyja þeim miklu samgöngubótum sem falist geta í tilkomu hennar. Nálægðin milli Vestmannaeyjahafnar og Landeyjahafnar styttir ekki einungis ferðatíma milli lands og Eyja heldur gefur hún einnig tækifæri á tíðari og hagkvæmari ferðum en áður hefur þekkst í samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar. Í því verður hin raunverulega samgöngubót fólgin.
 
Bæjarstjórn Vestmannaeyja þakkar þeim fjölmörgu sem lagt hafa lóð sín á þá vogarskál sem gert hefur Landeyjahöfn að veruleika. Það er von og trú bæjarstjórnar að þjónusta Landeyjahafnar verði til verulegra hagsbóta fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum með auknum lífsgæðum bæjarbúa og velsæld.
 
Þannig samþykkt á aukafundi bæjarstjórnar um borð í m/s Herjólfi á leið til Landeyjahafnar 20. júlí 2010.
 
Afrit af ræðu þeirri sem bæjarstjóri hélt við formlega vígsluathöfn í Landeyjarhöfn: 
 
Eyjamenn, heimamenn - góðir gestir,
 
 
(Núna áðan þegar ég sté frá borði úr Herjólfi og í land hér í Landeyjum er ekki laust við að mér liði eins og Neal Armstrong þegar hann steig fæti á tunglið fyrstur manna. Skref mitt var svo sem ekki stórt en skrefið sem samfélag okkar Eyjamanna er nú að taka er gríðarlegt.)
 
 
Á seinni tímum er okkur Eyjamönnum alltaf dálítill vandi á höndum þegar kemur að því að koma orðum að hlutum sem tengjast okkar ástkæru Eyjum. Það er nefnilega þannig að stór skáld okkar Eyjamanna hafa í raun sagt allt áður, og það mikið betur en okkur flestum er unnt.
 
 
   Í þjóðahátíðarlagi okkar Eyjamanna frá 1951 mælti Ási okkar í bæ svo:
 
 
   Er vorið lagði að landi,
   var líf í fjörusandi,
   þá ríkti unaðsandi
   í ætt við bárunið.
 
 
Nú 59 árum síðar við vígslu Landeyjahafnar á þetta magnaða textabrot afar vel við. Samgöngubætur hafa í gegnum tíðina verið okkur Eyjamönnum mikið kappsmál og því miður hefur á stundum ríkt fimbulfrost í samgöngumálum okkar. Nú sjáum við fram á bjartari tíð með tilkomu Landeyjahafnar. Já, nánast eins og vorið leggi að landi.
 
 
Staðföst barátta skilar árangri
 
Eðlilega höfðu Eyjamenn sjálfir sterkar skoðanir á því hvernig samgöngum þeirra yrði háttað, sem betur fer – allt annað hefði verið merki um fálæti í mikilvægasta máli samfélagsins. Vafalaust urðu þau skoðanaskipti til þess að enn betur var vandað til verka en annars hefði orðið. Eftir að ákvörðun var tekin um að ráðast í framkvæmdina þurfti stöðugt að fylgja henni eftir og gæta hagsmuna heimamanna. Ekki þarf að efast um að þar skipti sköpum sú staðfesta sem Eyjamenn bjuggu yfir. Aldrei var kvikað af stefnu, jafnvel þegar farið var um brotsjói og steytti á skerjum. Á sama tíma unnu starfsmenn Siglingastofnunar undir stjórn Gísla Viggóssonar og Sigurðar Áss Grétarssonar afrek í verkfræði og stjórnun verklegra framkvæmda. Þar náði hugvitið sannarlega sáttum við óblíð náttúruöflin. Ekki get ég heldur látið hjá líða án þess að minnast á þátt Dofra Eisteinssonar vinar míns frá Dalseli. Ekki einungis hefur hann nú komið vatninu til Vestmannaeyja heldur einnig bætt samgöngur svo um munar. Ekki slæmur Haukur í Horni þar.
 
 
Slagkrafturinn býr í hinni sameiginlegu straumröst
 
Landeyjahöfn er þó ekki bara einstakt verkfræðilegt afrek. Landeyjahöfn er lykillinn sem lýkur upp dyrum að óþrjótandi tækifærum fyrir Vestmannaeyjar, Rangárþing og Suðurland allt.
 
 
Ég tók mér áðan í munn orð Ása í bæ og því við hæfi að vitna hér í stórskáldið og vin minn Pálma heitinn Eyjólfsson, fyrrverandi sýsluskrifara á Hvolsvelli, heimagang á bernskuslóðum mínum í Stóra Dal og faðir Ísólfs Gylfa sveitarstjóra hér í Rangárþingi eystra. Pálmi sagði nefnilega í kvæði sínu “Í Rangárþingi”:
 
Já, saga þíns héraðs er fræg, hver frásögn á mátt,
 
en framtíðarsagan ræðst af vilja og þori.
 
 
Í þessu felast sannarlega mikilvæg skilaboð til okkar sem nú byggjum þessi sveitarfélög. Skilaboð um að nú eru tækifærin til staðar – nú þarf vilja og þor til að nýta þau.
 
 
Með því að taka á ný upp siglingar í Landeyjahöfn erum við að mörgu leyti að loka hring sem spannar nánast alla byggðarsögu Vestmannaeyja því eins og alkunna er hafa samgöngur við Vestmannaeyjar í gegnum árhundruðin fyrst og fremst verið úr Landeyjarsandi. Það hefur gert það að verkum að tengslin milli Rangárþingsins og Vestmannaeyja eru og hafa verið sterk. Stór hluti Eyjamanna getur rakið ættir sínar í Rangárþingið og velviljinn milli þessara svæða er mikill.
 
 
Samgöngubætur hafa þegar skilað bættri búsetu og aukinni trú á samfélagið
 
Á næstu árum komum við Eyjamenn til með að sjá víða merki þeirra breytinga sem samgöngubótin færir okkur. Í raun má með rökum halda því fram að nú þegar megi sjá rík áhrif þessara væntinga í daglegu lífi í Vestmannaeyjum.
 
 
Í Vestmannaeyjum er eftirvæntingin skiljanlega mikil. Tilfinning margra er í raun að sú mikla samgöngubót sem fólgin er í Landeyjahöfn snerti nánast allt daglegt líf Eyjamanna. Þau lífsgæði sem fólgin eru í auknum sveigjanleika til brottfarar og heimkomu þegar ferðum fjölgar úr tæplega tveimur á dag í allt að 8 á dag verða ekki mæld svo vel sé. Sú bætta samkeppnisstaða þegar samgöngukostnaður lækkar um tugi prósenta getur skipt sköpum bæði fyrir fyrirtæki og heimili. Sá léttir að þurfa ekki lengur að sækja samgöngur yfir opið úthaf í þrjá klukkutíma, oft með tilheyrandi sjóveiki, verður ekki í askana látinn. Landeyjahöfn er risa stökk í sögu byggðar í Vestmannaeyjum.
 
 
Vorið leggur að landi
 
Tilkoma Landeyjahafnar markar skil í samgöngusögu Vestmannaeyja. Nú hefur vorið lagt að landi í samgöngumálum okkar Eyjamanna og sannarlega verður líf í fjörusandi. Það er á ábyrgð okkar Eyjamanna og okkar góðu nágranna að tryggja að það leiði til þess „unaðs anda, í ætt við bárunið“ sem Ási orti um.
 
 

 
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%