Vildi að ég gæti spólað til baka

4.Júlí'10 | 15:29
„Mér finnst mjög erfitt að rifja þetta upp en ég vil aðvara unga krakka því ég vil ekki að neinn þurfi að ganga í gegnum það sem ég hef þurft að ganga í gegnum,“ segir Helga Björk Möller 24 ára frá Vestmannaeyjum sem lenti í alvarlegu bílslysi fyrir sjö árum. Hún og vinkonurnar höfðu verið á rúntinum þegar þær ákváðu að fara í spyrnu. Helga Björk var að keyra og missti stjórn á bílnum í beygju og klessti á vegg við Steypustöðina.
Vinkona hennar, Anna Ragnheiður, lést í slysinu, önnur slasaðist töluvert og sjálf slasaðist Helga mikið. Helga þurfti að læra allt upp á nýtt en hún varð fyrir framheilaskaða, missti jafnvægi og varð að notast við hjólastól fyrstu árin eftir slysið. Í dag er hún komin úr stólnum en styðst við hækjur.
 
„Slysið hefur breytt lífi mínu á allan hátt. Stundum á ég ágæta daga en stundum er allt ömurlegt og ég vil hreinlega ekki lifa. Stelpurnar sem ég kallaði vinkonur mínar lokuðu á mig svo í dag er fjölskyldan einu vinir mínir og vill sem betur fer umgangast mig enn og ég er þakklát fyrir það. Ég vildi óska að ég gæti spólað til baka og tekið bílprófið upp á nýtt og tekið aðrar ákvarðanir. Ég var svo ung og var viss um að ekkert ætti eftir að koma fyrir mig. Ég hélt að það myndi ekki skipta máli þótt ég færi í spyrnu.“
 
 
Hugsar daglega til bílstjórans
Fyrstu tvo, þrjá dagana eftir slysið var Helgu ekki hugað líf en eftir 14 daga á gjörgæslu var hún flutt yfir á barnadeild þar sem hún lá í kóma þar til í júlí. Eftir það tók við eins árs dvöl í endurhæfingu á Grensás. „Helga opnaði augun en hún þekkti okkur ekki og við vissum ekkert hvernig líf beið hennar. Við urðum að halda á henni, mata og skipta á henni. Hún kunni ekki neitt og þekkti engan mat, ekki einu sinni pitsu, sjálf pitsudrottningin. Það var bara eins og við værum komin með 60 kílóa smábarn,“ segir Ólöf Helgadóttir, móðir Helgu, sem á erfitt með að heyra fréttir af bílslysum, sérstaklega þegar ungt fólk á í hlut. „Slysið í Keflavík hefur sett líf mitt á annan enda. Þegar svona alvarleg slys verða fer ég aftur á slysstað í huganum og líður mjög illa, verður kalt og heitt til skiptis, get ekki borðað og fer í sama pakkann og fyrir sjö árum. Ég tek slysin gríðarlega inn á mig og get ekki annað en hugsað til bílstjórans á hverjum degi. Það er meira en að segja það að verða valdur að svona slysi. Þetta er bara alveg hræðilegt,“ segir hún og bætir við að hún spái mikið hvað geti haft áhrif á unga fólkið svo það fari varlegar í umferðinni. „Langar það virkilega að vera í Helgu Bjarkar sporum? Ég get ekki ímyndað mér það.“
 
Tekið af www.dv.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is