Ferðasaga

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjalta

9.Júní'10 | 19:23

Tryggvi

Ljósastaurinn fellur, sprengjulaust herbergi, lýðbrun, kapphlaupinu tapað…
 
Í ljósi þess að nú er sumar og margir sem eflaust huga að ferðalögum á næstunni verður fimmtudagsþruman að þessu sinni ferðsaga frá sumrinu 2004.
 
Árið 2004 ákváðum við félagarnir að fara í mikla kappaferð til Bandaríkjanna. 5 saman, þá á aldrinum 17-20 ára, leigðum við glænýjan Pontiac í New York og keyrðum svo inn í landið. Förinni var heitið í eina/n stærsta/u skemmtigarð, verslunarmiðstöð og þungarokkshátíð í heimi og að sjálfsögðu eina rosalegustu ferð í heimi.
 
 
Einn daginn var hópurinn staddur í búð sem seldi fatnað í rokkaðari kantinum og var einn úr hópnum mjög heillaður af ljóshærðu dreddlokkapíunni sem afgreiddi okkur. Einhvern vegin tókst honum að fá hana til að bjóða okkur í partý um kvöldið. Partýið var í einu mesta gettói sem ég hef á ævinni komið í, það fyrsta sem gerðist þegar ég fór út úr bílnum var að frekar ræfilslegur blökkumaður kom að mér með DVD diska í misgóðu ástandi og reyndi að selja mér þá. Ég neitaði þessu frábæra tilboði og þá bauð hann mér eiturlyf, mjög góður vísir að þessu partýi. Lítið fréttnæmt gerðist í þó þessu partýi og var haldið aftur upp á hótel.
 
Þegar þangað var komið lagði ég glænýja Pontiac-inum okkar á glænýju og tómu bílastæði sem hafði ekkert á nema ljósastaur. Ég var sá eini sem var skráður fyrir bílnum og var þess vegna óskráð regla að ég myndi einn keyra hann. Þarna bað þó sá aðili í hópnum sem á hvað skrautlegasta ökuferilinn um að fá að taka einn hring á bílastæðinu. Ég leit yfir galtómt bílastæðið, tók þá ákvörðun að hér væri ekki hægt að koma sér í voða og henti til hans lyklunum og labbaði upp á herbergi. Um mínútu síðar: „Tryggvi, þú verður að koma niður“. Þegar ég kom niður á bílastæðið blasti við mér ljósastaur sem lá ofan á fallega Pontiac-inum og risa skransför í malbikinu.
 
Innan skamms komu 8 lögreglubílar og lokuðu öllu svæðinu. Við drógum þá ályktun að þessi ljósastaur hefði verið þjóðargersemi og í kjölfarið vorum við allir gómaðir. Okkur var bannað að tala saman á íslensku og vildu þeir fara upp í herbergi til okkar að leita af einhverju, væntanlega sprengjum og eiturlyfjum. Það var hinsvegar lítið um sprengjur og eiturlyf í herberginu, aðallega bara drasl, svo mikið drasl að lögreglumönnunum blöskraði illilega og spurðu: „how long have you guys stayed here“ sem myndi útleggjast: „hversu lengi hafið þið verið hér“ (sjá mynd af herberginu).
Herbergið okkar eins og löggurnar komu að því
Við tilkynntum þeim að við hefðum komið daginn áður. Haldið var aftur niður á bílastæði eftir að engar sprengjur eða eiturlyf fundust og þar var eini litaði maðurinn í hópnum settur í handjárn og leitað á honum, ég var spurður af hverju ég hefði verið að keyra á 80km/klst hraða á bílastæði, en þá höfðu þeir mælt bremsuförin. Einhvern vegin var sú útskýring tekin gild að á Íslandi væri ekki hámarkshraði á bílastæðum.
Einn af átta lögreglubílum sem mættu á svæðið
 
Seinna um kvöldið tapaði ég einu af fáum spretthlaupum sem ég hef tapað á ævinni á hótelaganginum, en slysabílstjórinn okkar veðjaði 20 dollurum að hann gæti unnið mig í spretthlaupi á hótelaganginum að lyftunni. Ég er enn með tvö stærstu ör sem ég hef fengið á sitthvorri ristinni eftir að ég rann eftir teppinu á ganginum, en ég var „rúbbítæklaður“, hann klifraði svo yfir mig, vann spretthlaupið og rukkaði mig um 20 dollara.
 
Ég var svo ekkert alltof sáttur daginn eftir þegar ég komst að því að megnið af hópnum hafði ákveðið að hjálpa mjög skuggalegum Mexíkana að fara með einhverskonar varning frá bílnum hans og hélt ég fyrirlestur um að þeir voru örugglega að taka þátt í hryðjuverkaaðgerð, enginn hlustaði.
 
Þjónustustúlkan tók á öðrum degi þá ákvörðun að hætta að þrífa herbergið okkar og vorum við eina herbergið sem fékk engin þrif, ekki skánaði ástandið enda átti einn úr hópnum það til að borða alltaf snakk í rúminu og vakna á næturnar og fá sér mat og skilja svo matinn eftir út um allt. Þá var öllum umbúðum hent miskunnarlaust á gólfið.
 
Ozzfest tónleikarnir voru heldur betur magnaðir, en þar fékk ég að upplifa eitthvað sem ég vona að verði vinsælla á tónleikum á Íslandi bráðlega, eða „crowdsurfing“ sem myndi útleggjast lýðbrun, en það virkar þannig að maður fer aftast í þvöguna og finnur einhverja stóra menn til að henda sér upp á þvöguna, maður brunar svo um á þvögunni. Hrikalega hressandi, nema það að einhver tók skóinn minn á meðan ég var að lýðbruna þegar Slipknot var að spila. Þá blasti við opið sár á ristinni eftir spretthlaupið. Því næst var „circle pit“ eða hringa pyttur á Hatesphere og þar fór ég inn í regnjakka með hettu og kom út bara með hettu, ég veit ekki enn hvað varð um sjálfan jakkan. Tveir úr hópnum týndust og fundust svo við bás þar sem ung stúlka með stórar mjólkurframleiðslur bauð upp á einhverskonar körfuboltaleik. Þar hefðu þeir eytt öllum gjaldeyrinum sínum ef við hefðum ekki neytt þá með okkur á næstu tónleika.
 
Til að koma bílnum aftur til New York varð að finna nýtt dekk, teipa bílinn svo hann héldist saman og ekki var hægt að nota farþegahurðina vinstra megin. Í 10 klst. akstri til New York urðum við auk 400kg af farangri að halda á varahlutum eins s.s. felgu. Það sem bjargaði okkur þó frá reikning upp á um hálfa milljón var að við höfðum á síðustu stundu tekið þá ákvörðun að bæta við auka 9 dollurum á dag í tryggingu sem tryggði bílin gegn öllu tjóni.
 
Á leiðinni heim í flugvélinni, hallar svo félagi minn sem hafði klesst bílinn sér að mér og hvíslar „þú ferð ekkert að taka heiðurinn af því að hafa keyrt á ljósastaurinn þegar við segjum þessa sögu heima!“
 
Þessi saga er þess vegna hluti af því að efna það loforð að taka ekki heiðurinn frá honum.
 
Boðskapur sögunnar: þú tryggir ekki eftir á (hringja í Sigga Braga) og ef einhver er tilbúinn að leggja pening undir í keppni við þig sem þú ættir auðveldlega að vinna, skaltu velta fyrir þér hvað liggur að baki.
 
Hér má sjá frekari myndir úr ferðinni, ég leyfi fólki að fylla í eyðurnar um hver gegndi hvaða hlutverki í ferðinni http://www.svartilistinn.com/myndir/thumbnails.php?album=3
 
 
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Þjóðhátíðartjald til sölu

16.Október'20

Er með til sölu þjóðhátíðartjald með innbúi. Þrír bekkir, kommóða og borð fylgir með, auk skrauts. Verð 300.000,- Nánari upplýsingar veitir Viktor í síma 845-0533.