Fegurðin í fjallinu sem þú stendur á

Fimmtudagsþruman frá Tryggva Hjaltasyni

2.Júní'10 | 23:02
Upplyftingarpistill fyrir fagran fimmtudag
 
Ég er þeirra lukku njótandi þessa daganna að búa á Perlunni Fögru, Paradísareyjunni í Suðri, Vestmannaeyjum. Ég er nýfluttur heim frá Bandaríkjunum þar sem ég lauk háskólanámi og upplifði þar í fyrsta sinn langtíma fjarveru frá æskuslóðum mínum í Eyjum. Það kenndi mér margt, t.d. það að Vestmannaeyjar eru sannarlega einstakur staður. Ég hef ferðast til 19 landa og til margra staða sem eru almennt álitnir vera einstakar náttúruperlur eins og Havaí, hina ýmsu þjóðgarða, eyjur í Kyrrahafinu, strendur í Kaliforníu og svona mætti áfram telja.
 
 
Í þessari fjarveru minni frá Vestmannaeyjum og á ferðalagi um framandi staði áttaði ég mig á þessu, að Vestmannaeyjar eru ekki bara einstakur staður með góðu bæjarsamfélagi heldur algjör náttúruperla á heimsmælikvarða.
 
Það að segja útlendingum frá heimavellinum hjálpar manni að átta sig á því hvað maður hefur í höndunum. Ég átti stóran vinahóp í Bandaríkjunum en hvort sem þau voru háskólanemar, hermenn, fótboltamenn, prófessorar, eldflaugasérfræðingar eða annað þá fannst þeim öllum jafn merkilegt að heyra mig lýsa Vestmannaeyjum. Að hér væri fagurgræn eyja samansett úr eldfjöllum, staðsett í miðri sprungu, þar sem væri bæði einn mesti vindhraði í heimi og þægilegt og milt sumarveður, þar sem fuglar fljúga beint inn í bæinn og það þarf að bjarga þeim í kassa, þar sem við höfum þrettán jólasveina og á þrettándanum dönsum við í kringum eld með tröllum og álfum (þessi frásögn var uppáhalds og hljómar einhvernvegin svona á ensku: „on the thirteenth all the towns people gather around a fire and dance with trolls and 13 santa clauses and their parents who are evil and eat babies“), þar sem við sjáum hvali synda í kringum eyjurnar og höfum margar litlar eyjar í kringum okkur, þar sem við sveiflum okkur á kaðli í klettunum, þar sem nær allir þekkja alla og þar sem um fjögur hundruð hús eru grafin á víð og dreif um eyjuna. Já þetta er ekki nema brot af því sem ég sagði Bandaríkjamönnum frá eyjunni minni og við hverja frásögn áttaði ég mig betur á því hvað ég bý á virkilega einstökum stað og þjóðerniskenndin í mér óx og dafnaði. Það mætti jafnvel segja að ég hafi orðið að hálfgerðum Vestmannaeyjafaut, en það sakaði ekki vegna þess að fjöldin allur af Bandaríkjamönnum hafa boðað komu sína hingað eftir að hafa heyrt um þennan fjársjóð.
 
Núna starfa ég m.a. við það að vera leiðsögumaður um eyjuna mína og sýni ég túristum eða „túrhestum“ hvað eyjan hefur upp á að bjóða. Þetta starf er góð áminning um hvað Heimaey og eyjarnar í kring eru hrikalega merkilegar. Alltaf finnst mér jafn gaman þegar ég fer með ferðamenn upp á eldfell og þau fá ekki nóg af því að skoða mölina, velta steinunum fyrir sér og gapa yfir fegurðinni í útsýninu. Lúpínan er skoðuð og hestarnir og kindurnar eru svo skemmtileg, svo nálæg. Fuglalífið skemmir ekki og flestir slefa við þá tilhugsun að hér sé hægt að velja sér flottar náttúrugönguferðir upp á fjölda af mismunandi fjöllum, klettum og fellum, allt í minna en 10 mínútna fjarlægð.
 
Ég lýg því ekki þegar ég segi að ég er ótrúlega spenntur yfir því sem ég á eftir að gera, og mun gera þar til ég verð grár og fúinn í Vestmannaeyjum: fara í allar úteyjarnar og skerin, klifra öll fjöllin á mettíma, finna nýjar gönguleiðir, stökkva yfir kindur, sigla í kringum eyjuna, moka holu í klaufinni, fara í alla hellana, veiða fugla, ná í egg, taka á móti lömbum, veiða fisk, klettastökk í sjóinn, klettaklifur, ná hærra í spröngunni, búa til rólu í klettunum fyrir ofan skýlið, hlaupa eins hratt og ég get niður sandinn í klifinu, fara í Tennisgolf á Stakkóinu, leggjast á hjólabretti (af því ég kann ekki að standa) og ná methraða niður allar brekkurnar, frelsa lundapysju með sveifluskoti, hlaupa eins hratt og ég get milli garða, bjarga fílsunga án þess að hann æli á mann, klifra upp í fiskhella, finna leynigöngin frá Helgafelli niður í Herjólfsdal, sjá ÍBV vinna KR margsinnis, sjá KFS sigra 3. deild, sjá Vestmannaeyjar verða sjálfstæðar (með fyrirvara), renna mér á tuðru niður Helgafellið í snjó, kafa, síga, fara í koddaslaginn á Sjómannadaginn, gella, sjá dauðan hval í fiskmarkaðnum, sjá kolkrabba á Fiskasafninu og svona mætti áfram telja.
 
Já í Vestmannaeyjum er gnægð gleði.
 
Kappakveðja
 
Tryggvi
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.