Norðan og sunnan Strandvegs

Guðlaugur Friðþórsson skrifar

28.Maí'10 | 12:47
Mikið af ævi minni hef ég alið manninn norðan Strandvegs og er ég svo sem ekki sá eini hér í eyjum sem það hefur gert. Maður byrjaði á bryggjunum að veiða, þvældist niður í Völund til pabba og kíkti á kallana, stal eins og svo margir aðrir peyjar slippbátnum og réri út í löngu. Fór á taugum ef Lóðsinn sem var nokkurskonar fljótandi löggubíll hreyfði sig. Skilaði að lokum bátnum og fékk í leiðinni efni í boga, eða krækti jafnvel í karbítbút sem sendi lok af matarsódabauk upp fyrir hæstu húsþök.
 
Varla búinn með barnið þegar maður fór að snapa vinnu í stöðvunum, fór svo í Völund að vinna með köllunum og loks á sjóinn sautján ára. Þar tók við mér öðlingurinn Jón Bergvinsson og kenndi mér mannganginn í netabætingum og það var einmitt hann sem sagði mér að alltaf ætti að smyrja jólaköku með smjöri.
Sunnan strandvegs fór fram fræðslan, ekki alltaf eins heillandi og bryggjulífið. En hún þurfti líka að vera með og þar stóðu sig með sóma Gummi Jens, Siggi Jóns, Jónas Sig, og þegar skyldunni sleppti Lýður Brynjólfs, Friðrik Ásm, Óli Hæ og margir fleiri. Allir gerðu sitt besta til að mennta kvikindið, en svona er lífið, það er ekki á allt kosið.
Í dag eins og ávallt er mitt aðalstarf norðan Strandvegs, en ég tók að mér fyrir nokkrum árum hlutastarf fyrir bæjarbúa sem að mestu fer fram fyrir sunnan strandveg. Þetta er starf bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Vestmannaeyja.
Það er hollt fyrir mann sem hefur að mestu alið starfsmanninn norðan strandvegs að kynna sér og þekkja starf þeirra sem hinu megin vinna. Ætla ég nú að útlista hvernig þetta kemur mér fyrir sjónir eftir setuna í bæjarstjórn.
Byrjum á leikskólunum. Á leikskólum er verið að vinna gríðarlega gott starf, sett hefur verið upp fimmáradeild við Hamarsskóla sem var nú kannski í upphafi ill nauðsyn þar sem Rauðagerði var lokað án þess að úrræði væru til staðar til að hýsa öll þau börn sem á leikskólaaldri voru þá.
Grunnskólinn hefur verið sameinaður undir eina stjórn og aldursskipt, það hefði ekki verið hægt nema með aðkomu fólks sem þekkti vel til verka. Árangurinn er ótvíræður og á eftir að koma betur í ljós á næstu árum. Frístundaver í Þórsheimili er hluti af grunnskólanum.
Félagsmiðstöð allra aldurshópa er rekin á Rauðagerði. Þykir þar hafa tekist nokkuð vel til eftir tugmilljóna andvana fædda hugmynd um ungmennahús í Vosbúð, en annars magnað nafn á verkefninu.
Hamar er hæfingamiðstöð rekin í tengslum við Kertaverksmiðjuna Heimaey með góðum árangri.
Hraunbúðir og málefni aldraðra fá góða einkunn en þar þarf að vinna töluverða vinnu til að koma megi til móts við fjölgun eldri borgara á næstu árum.
Sambýlið, þar er unnið mikið og gott starf sem þarf að hlúa vel að. Einnig þarf að gefa þeim sem ekki eru eins og fjöldinn tækifæri til að búa á eigin forsendum eftir aðstæðum hverju sinni.
Sunnanmegin höfum við líka söfnin, en þar þarf að marka skýra stefnu og raunhæfa sem hægt er að vinna eftir, leggjum til hliðar óraunhæfa Draumheima, sníðum okkur stakk eftir vexti. Við höfum Íþróttamiðstöð með nýju útisvæði, og fjölnota íþróttahúsi í byggingu. Þjónustumiðstöð sem hefur á sinni könnu malbikunarstöð sem reyndar er orðin ansi lúin. Sorpeyðingastöð, mengunarvarnabúnað þarf að fara yfir og á Slökkvistöð þarf að fara vel yfir aðstöðu fyrir mannskap og tæki því hún er óviðunandi. Við höfum Stjórnsýslu og fjármálasvið. Eftir að hafa kynnst rekstri þessara stofnana þá áttar maður sig á hversu gríðarlega gott og mikið starf er unnið þar, unnið af fagfólki sem leggur metnað sinn allan í verkið allir sem einn. Það er einmitt þetta fólk, fagfólkið sem á að vera leiðbeinandi fyrir okkur sem hina endanlegu ákvörðun þurfum að taka, það gerir það að verkum að hlutirnir verða betur gerðir. Sá sem allt þykist vita veit oftast ekki neitt.
Nú norðan megin höfum við Umhverfis- og framkvæmdasvið, sem sér um skipulagsmál bæjarins. Skipulagsmál eru oft viðkvæm eins og nýlegt tjaldsvæðamál sannar, þau þarf að vanda vel og vinna í samráði við íbúa. Framkvæmdasviðið hefur haft í nógu að snúast á undanförnum árum, mikil uppbygging eins og áður er nefnd. Loksins er hafin enduruppbygging skipalyftunnar, upptökumannvirkis í eigu Vestmannaeyjahafnar.
Norðan strandvegs vinnur líka fagfólk sem leggur sig fram af heilum hug í störfum sínum fyrir samfélagið.
Að sjálfsögðu er höfnin okkar norðan strandvegs, en hún er lífæð okkar eins og oft er sagt.
Sjávarútvegur og fiskvinnsla ber uppi byggðalagið okkar. Þaðan koma tekjurnar sem skapa grunninn að samfélagi okkar, en allir þættir, þjónusta menntun og félagslegt umhverfi þurfa að tvinnast saman svo úr verði gæðasamfélag sem gott er að búa í.
Nú hef ég ákveðið að sækjast eftir þessu hlutastarfi sem ég nefndi hér áðan þ.e. ég bíð mig fram til setu í bæjarstjórn Vestmannaeyja næstu fjögur árin. Með því vonast ég til að geta áfram starfað með því hæfa og frábæra fólki sem að rekstri bæjarins kemur og fyrir það góða fólk sem þetta bæjarfélag byggir. Já og svo að lokum þá liggur bara assgoti vel á mér.
 
Bestu kveðjur Laugi.
 
 

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-