Fullorðnir ráða - skólaheimsókn til Danmerkur

28.Maí'10 | 14:00

Jórunn

Á dögunum heimsótti ég grunnskóla í Árósum. Skólinn heitir Katrinebjergskolen og telur rúmlega 600 nemendur. Skólinn hefur ákveðna sérstöðu í sveitarfélaginu enda 10 sérdeildarbekkir í skólanum ásamt sérstakri stuðningsdeild, nokkurs konar námsveri. Mér lék sérstök forvitni á að fræðast meira um starf sérdeildarbekkjanna og hvernig eiginlega stæði á því að í 600 barna skóla væru 10 sérdeildarbekkir auk námsvers.
Sérdeildir
Kurt Kristensen er skólastjóri Katrinebjergskólans og leiddi mig í allan sannleikann um stöðuna þar. Skipulag sérdeildanna er alls ekki á forræði skólanna. Málefni nemenda með sértæk vandamál eru send til úrvinnslu annars staðar og síðan er nemendum raðað niður í bekki og þau færð á milli skóla til að mæta sem best þörfum hvers og eins. Katrinebjergskólinn sérhæfir sig t.a.m. í sérdeildarbekkjum fyrir börn með almenna námsörðugleika og talörðugleika hvers konar. Þá hefur fjölgað til muna nemendum með hegðunarvanda sem greindur hefur verið sérstaklega. Í þessu samhengi benti Kurt á að undanfarin ár hefur það mikið færst í vöxt að foreldrar í Danmörku krefjist greiningar fyrir börnin sín. Með þessu má áætla að um 25% barna í árgangi njóti þjónustu sérúrræða. Hann nefnir einnig að með aukinni kröfu um prófanir og mælingar, aukist ennfremur þrýstingurinn á kennara að sýna fram á að nemendur þeirra standist þær kröfur. Þetta kalli á minna þol gagnvart frávikum.
 
Eigum ekki að vorkenna þeim
Kurt Kristensen verður mjög einbeittur þegar talið berst að líðan barna í sérúrræðum. “ Við eigum ekki að vorkenna börnum sem þurfa önnur úrræði en þau sem kennslustofan býður upp á. Það dregur úr virðingu þeirra”
Hann nefnir í þessu samhengi mikilvægi þess að viðurkenna vandann og að rekstur og þróun skóla sé stöðug ögrun og við henni verði að bregðast hverju sinni.
 
Fullorðnir ráða
Ég stóðst ekki mátið og spurði Kurt um skólareglur. Hann brosti og sagðist ekki trúa á reglur. Ég bað hann vinsamlegast um að útskýra það frekar þar sem ég upplifði mjög afslappað andrúmsloft á göngum skólans. Ég mætti t.a.m. nemendum á hlaupahjólum skautandi eftir mjög löngum göngum skólans og líka á léttu skokki. Kurt sagðist reyndar trúa á eina reglu: “Fullorðna fólkið ræður”. Og hélt svo áfram:” Truflaði það þig að mæta þeim? Voru þau dónaleg? “ Ég gat ekki sagt það og hann hélt áfram:” Það er munur á þvi að hlaupa og hlaupa án tillits til allra annarra á ganginum” Hann leggur því höfuðáherslu á að það sé hverjum kennara í sjálfsvald sett hvaða reglur gilda í bekknum. Hér skal tekið fram að í Danmörku er sterkari hefð fyrir því að bekkjarkennari kenni fleiri en eina til tvær námsgreinar í sínum bekk á unglingastigi. Máli sínu til stuðnings vísar Kurt í að ein hugmynd getur ekki virkað alls staðar og að hann treysti sínu fólki til að finna bestu lausnina hverju sinni. Ennfremur telur Kurt að kennarinn standi sterkari þegar hann setur sín eigin mörk og eigin afleiðingar. Það sé einnig nemendum sjálfum til góða þar sem félagsfærni barna eykst til muna þegar þau læra að lesa í aðstæður. Þetta fannst mér mjög áhugavert og spurði því um viðhorf kennara til þessa. Hann sagði þetta fyrirkomulag henta langflestum kennurum en alls ekki öllum. Ég vildi vita meira og spurði kennarana. Þeir voru sammála því að það væri virkilega gott að finna að þeim væri treyst og voru ánægðir með fyrirkomulagið. Þeir gætu tekið málin svolítið í sínar hendur ef svo bæri undir. Fæstir ef nokkur hafði þó beitt því að neinu ráði. Til þess hafi ekki komið - ennþá. Kurt vildi þó að það kæmi fram að ofbeldi væri ekki liðið við skólann og nemendum væri vikið umsvifalaust úr skóla tímabundið við slíkar aðstæður, mest í viku. Ekki væri unnt að vísa nemenda alfarið úr skóla nema að úrræði væri til staðar annarsstaðar. Hann nefndi einnig að þegar til ofbeldis komi, ráðleggi hann foreldrum einfaldlega að kæra slíkt til lögreglu. Foreldrar myndu vafalaust gera slíkt ef atvikið ætti sér stað utan skólalóðar.
 
Einstaklingsmiðað nám
Þegar talið berst að einstaklingsmiðuðu námi verður Kurt hugsi og segir svo:” Nám er félagslegt ferli og forsenda þess að styrkjast sem einstaklingur”. Spyr mig svo hversu skemmtilegt það sé að lesa bók og geta ekki sagt neinum frá innhaldinu eða rætt það með gagnrýnni hugsun? Mig setti hljóða enda velt þessu hugtaki í kennslu fyrir mér endalaust.
 
Námsverið
Kurt telur að 30-40% alls þess fjár sem skólinn fær sé nýtt til stuðningsúrræða hvers konar þ.m.t. til námsvers sem stýrt er af Anette Christensen. Hún heldur utan um tímabundinn stuðning nemenda í stærðfræði og lestri, tvítyngda nemendur, faglega aðstoð í bekk og lestrarátök í 1. 2. og 3.bekk. Námsverið heldur alfarið utan um þetta sem og alla lestrarprófun og önnur almenn próf sem nemendur á ákveðnum aldursstigum þurfa að þreyta. Námsverið vinnur einnig náið með öðrum sérúrræðum þar sem nemendur sem ekki stunda hefðbundinn skóla af einhverjum ástæðum stunda nám undir öðrum formerkjum í nánu samstarfi við foreldra og félagsráðgjafa.
 
 
Heimsóknin var í alla staði vel heppnuð og móttökurnar frábærar. Það voru algjör forréttindi að fara ein og ræða við skólastjórann og aðra kennara um allt það sem mér lá á hjarta.
Kurt Kristensen er að hætta sem skólastjóri Katrinbjergskolen til að sinna stöðu ráðgjafa innan menntasviðs sveitarfélagsins. Ég hef það eftir starfsfólki skólans að það kvíði brottför hans úr starfi en hlakkar ennfremur til að hitta nýjan skólastjóra og takast á við ný markmið.
 
Bestu kveðjur
Jórunn Einarsdóttir
Grunnskólakennari og frambjóðandi V-listanss
 
 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Tilboð á gistingu á Brú Guesthouse

21.Ágúst'20

Brú Guesthouse býður tilboð á gistingu á til áramóta. Gisting í smáhýsi fyrir 2.  9.900,- kr. nóttin. 2.000 kr fyrir auka gest. Húsin rúma 4 gesti. 
Stærra hús 12.900 kr. nóttin og 2.000 fyrir auka gest. Upplýsingar á Info@bruguesthouse eða í síma 659-4005.