Upptökumannvirki Vestmannaeyjahafnar

Elliði svarar spurningu frá Brynjari Kristjánssyni

25.Maí'10 | 15:24

Elliði

Spurning frá Brynjari sem birist hér á eyjar.net má skoða hér.
 
En er beðið eftir svari má skoða hér.
 
Svar Elliða má lesa hér að neðan.
 
 
Endurbyggingu lýkur um næstu áramót
 
Sæll Brynjar og þakkir fyrir að vekja máls á áríðandi málefni.
 
Allt frá því að upptökumannvirki –skipalyfta- Vestmannaeyjahafnar varð fyrir miklu tjóni í október 2006 hefur rík áhersla verið lögð á endurbyggingu þeirra. Alþingi samþykkti vorið 2007 að heimila Hafnabótasjóði að bæta tjónið með 200 millj. kr. framlagi á fjárlögum ríkisins 2008. Innlendir samkeppnisaðilar voru mjög óánægðir með þessa ráðstöfun og var málið sent til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel. Á meðan var beðið með að hefja endurbætur en jafnframt kannaðir aðrir kostir svo sem stærri og afkastameiri skipalyfta eða slippur. Þeir kostir reyndust allt of kostnaðarsamir, enda hafði gengi krónunnar lækkað mikið samhliða bankahruninu í október 2008. Í desember 2008 tilkynntu fulltrúar samgönguráðuneytis hafnaryfirvöldum að ESA hefði með áliti sínu bannað íslenska ríkinu að greiða tjónabætur og breytti engu þó þær yrðu eingöngu notaðar til þess að koma mannvirkjunum í fyrra horf.
 
 
 
Í framhaldi af þessum úrskurði var hafinn undirbúningur að því að endurbyggja núverandi upptökumannvirki og var fundað með hagsmunaaðilum innanbæjar árið 2009 og kannað hvort vilji væri til þess hjá þeim að stofna hlutafélag um upptökumannvirkin og kanna um leið hagkvæmni þess að þau gætu tekið upp enn stærri skip. Þessir aðilar sögðust styðja endurbygginguna og koma að málum sem viðskiptamenn en voru ekki tilbúnir til að að koma að stofnun hlutafélagsins.
 
Á fyrrihluta síðasta árs var samið við John Berry sérfræðing í Sincrolift – Rolls Royce um að hann gerðist ráðgjafi hjá Vestmannaeyjahöfn. Tekin var ákvörðun um endurbyggingu lyftunnar haustið 2009 og er gert ráð fyrir að heildarkostnaður verði um 370 milljónir króna. Inni í þeirri fjárhæð er endurnýjun á stjórnbúnaði og jafnframt verða allir hlutar upptökumannvirkjanna vandlega yfirfarnir og endurnýjaðir eftir þörfum. Stærstu skipin sem nýi búnaðurinn getur þjónað eru fiskiskip af sömu stærð og Gullberg VE og Bergur VE. Sérstök verkefnisstjórn vinnur að framgangi málsins og er Friðrik Björgvinsson verkefnisstjóri. Heildarskuldir og skuldbindingar Vestmannaeyjahafnar voru um 430 milljónir króna í árslok 2009 og gekk rekstur hafnarinnar vel á síðasta ári.
 
Varðandi viðskipti við Eyjaflotann og skip frá öðrum stöðum á landinu þá var reiknað með að slipptökur Eyjaskipa gætu orðið um tuttugu á ári, en auk þess væru góðir möguleikar að þjóna skipum annarstaðar af landinu. Endurnýjun togskipa á Hornafirði og í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum hefur verið með svipuðum hætti og í Eyjum síðustu ár. Endurnýjun lyftunnar gerir ráð fyrir upptöku á þessari stærð fiskiskipa, en þau eru í senn stutt og þung.
 
Hvað varðar heildarviðskipti við enduryggingu upptökumannvirkjanna þá erum við bjartsýn á að ná góðri markaðshlutdeild og munu bættar samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar með tilkomu Landeyjahafnar hjálpa þar mikið. Við tökum því undir með þér hvað varðar mikilvægi þess að sinna sem mestu viðhaldi á skipum hér í Vestmannaeyjum. Þá megum við ekki gleyma því að í Vestmannaeyjum eru hverskonar þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn í fremstu röð á landsvísu. Stærsti hlutinn í veltuaukningu mun skila sér til þjónustufyrirtækajanna og aukinni atvinnu sem mun skila sér í bæjarfélagið. Vestmannaeyjahöfn mun fá tekjur af notkun mannvirkjanna og jákvæð áhrif þeirra geta leitt til enn öflugri útgerðar og þjónustu við skipaflotann. Útilokað er að segja til um heildaráhrifin á veltu þjónustufyrirtækja og hafnarinnar en þau geta orðið umtalsverð. Þá eru enn ótaldir þeir möguleikar sem við eigum í frekari sérhæfingu svo sem í sérmenntun iðnaðarmanna, þróun tæknilausna og fleira.
 
Í Vestmannaeyjum hafa verið starfsræktir slippar allt frá 1920 og tilkoma skipalyftunnar 1982 var stórt skref fram á við. Endurbygging lyftunnar hefur tekið allt of langan tíma en þar er ekki við okkur heimamenn að sakast, en það er um leið áminning um það vald sem býr í Brussel og sumir stjórnmálaflokkar vilja gera veg þess enn meiri.
 
Gangi endurbygging samkvæmt áætlun ætti að vera hægt að taka upptökumannvirkin í notkun á nýjan leik um eða eftir næstu áramót. Meðal annars þannig vill Vestmannaeyjabær stuðla að því að sem mest þjónusta við fiskiskipaflotann sé veitt í Vesmannaeyjum.
 
Fyrir hönd framboði Sjálfstæðismanna
 
Elliði Vignisson
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.