Nýir starfshættir í bæjarstjórn

Gulli Grettis skrifar

21.Maí'10 | 17:31
Einn mesti ljóður á vinnu í bæjarstjórnum á Íslandi er samskiptaleysi og samráðsleysi milli meirihluta og minnihluta. Meirihlutinn ræður eðlilega en alltof oft gerir hann það einn og sér og minnihlutinn er settur út í horn þar sem hann þarf að híma næstu fjögur árin. Allar tillögur meirihlutans ganga í gegn í krafti meirihluta atkvæða í bæjarstjórnum og minnihlutinn er á móti þó oft sé um að ræða góð mál, bæjarfélaginu til heilla. Og að sama skapi eru flestar tillögur minnihlutans slegnar út af borðinu sama hversu góðar sem þær kunna að vera. Ástæðan er helst sú að þær koma frá röngum aðila eða flokki.
 
Í samstarfi meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja sl. fjögur ár hefur kveðið við nýjan tón. Bæjarfulltrúar hafa sameinast um mörg góð mál, átt í uppbyggilegum rökræðum og lagt fram niðurstöðu sem allir, amk flestir, hafa getað fellt sig við. Þetta á einkum við um stóru málin s.s. samgöngumál og stærri framkvæmdir á vegum bæjarins. Þessi háttur var m.a. hafður á þegar tekin var sú gríðarstóra og mikilvæga ákvörðun að selja hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja um mitt ár 2007. Í því tilfelli hefði klárlega verið hægt að taka langar umræður í bæjarstjórn en sem betur fer fyrir samfélagið okkar varð það ekki niðurstaðan heldur sameinuðust bæjarfulltrúar um að klára söluna og framhaldið þekkjum við öll. Það má þó ekki skilja orð mín svo að svo stórt mál og t.d. sala á HS bréfum var hafi ekki hlotið góða umræðu því það var gert en niðurstaðan var samþykkt af öllum bæjarfulltrúunum sjö.
 
Í tilfelli bæjarstjórnar Vestmannaeyja gerðist þetta ekki óvart þ.e. þessi góða samvinna bæjarstjórnarfólks. Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins tók þá meðvituðu ákvörðun strax og búið var að setja saman framboðslista í ársbyrjum 2006 að þannig skyldi reynt að vinna á komandi kjörtímabili þ.e. ef flokkurinn fengi umboð bæjarbúa til að leiða starfið í bæjarstjórn. En það eitt og sér var auðvitað ekki nóg heldur varð minnihlutinn að vera tilbúinn í samstarf. Það tókst blessunarlega fljótlega á kjörtímabilinu. Við Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum fórum fram undir kjörorðinu „Einn flokk til ábyrgðar“ og fengum góða kosningu. Eðlilega liggur endanleg ábyrgð hjá meirihlutanum en við mátum það svo að þetta væri svipað hjá okkur og því vera í stjórn fyrirtækis. Þar væri enginn að tala um að „nýta“ aðeins rúman helming stjórnarmanna því allir eru þeir hagsmunaaðilar og vilja vinna félaginu og í okkar tilfelli bænum sínum gagn.
 
Við sem skipum framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum heitum því að viðhafa sömu vinnubrögð á næsta kjörtímabili fáum við til þess endurýjað umboð bæjarbúa. Það von okkar og trú að almennt séu bæjarbúar ánægðir með þessi nýju vinnubrögð. Allt karp, oft um keisarans skegg, hefur verið lagt til hliðar og allir bæjarfulltrúar sameinast um það sem skiptir máli, það sem við vorum og vonandi verðum kosin til að gera þ.e. vinna samfélaginu okkar hér í Eyjum til heilla. Til þess að tryggja að þetta verklag verður viðhaft á næsta kjörtímabilið þurfum við á þínum stuðningi að halda og þannig haldið áfram á sömu braut.
 
Gunnlaugur Grettisson
Skipar 4 sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum.
 
 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.