Ímynd Vestmannaeyja

Páley Borgþórsdótir skrifar

17.Maí'10 | 13:28
Þegar ég lauk háskólanámi veltum við því fyrir okkur hjónin hvert við ættum að flytja. Við vorum ákveðin í því að búa ekki áfram á höfuðborgarsvæðinu. Á þessum tíma kom varla út blað í Eyjum eða fréttir frá Vestmannaeyjum í landsmiðlunum öðruvísi en að um neikvæða umfjöllun væri að ræða.
Pólitískar deilur voru áberandi, erfiður rekstur bæjarins, alvarleg skuldastaða og þjónustuskerðingar. Vestmannaeyjar voru efstar á óskalistanum en vegna þessara slæmu strauma þorðum við ekki að veðja á Eyjarnar til langframa. Þetta var á þeim tíma þegar menn töluðu um Eyjarnar sem sumarhúsabyggð og að setja þyrfti rofa á bryggjuna við Herjólf svo síðasti íbúinn gæti slökkt ljósið áður en hann færi. Óralangt virðist síðan þá. Við leigðum okkur húsnæði og reiknuðum með að búa hér tímabundið í fáein ár. Þegar til Eyja var komið og við fundum á eigin skinni alla þá kosti sem mannlíf í Eyjum hefur og tækifæri í atvinnulífinu gjörbreyttist afstaða okkar. Við ákváðum að leggja okkar af mörkum til þess að lagfæra ímyndunarvanda Vestmannaeyja og láta þann draum rætast, að búa í Eyjum. Á innan við hálfu ári höfðum við keypt okkur hús og ákveðið að búa hér til framtíðar.
 
 
 
Tækifærin eru í Eyjum
Í dag eru Vestmannaeyjar best rekna sveitarfélagið á landinu og getur því staðið undir góðri þjónustu við íbúana. Vestmannaeyingum fór að fjölga aftur fyrir þremur árum eftir stanslausa íbúafækkun í 17 ár og hefur samfélagið öðlast sjálfstraust á ný. Aðalatvinnuvegur okkar stendur sterkum fótum sem hefur orðið til þess að þjónustugeirinn, bæði sá sem þjónustar útveginn beint og óbeint, blómstrar. Við eigum fjölmörg tækifæri í atvinnulífinu. Á síðustu árum hefur háskólastarf og hvers konar rannsóknarstarf eflst til muna með stofnun Þekkingarseturs og eflingu tenginga við háskólastarf. Rannsóknir í sjávarútvegi skipa þar stóran sess með það að markmiði að auka verðmæti auðlindar okkar, okkur öllum til hagsbóta. Vegalengdir eru að styttast með tilkomu Land-Eyjahafnar sem mun verða til þess að atvinnusvæði okkar og hagkerfi stækka um helming. Ferðaþjónustan á mikið inni og mun taka stakkaskiptum á næstu árum með fjölgun ferðamanna. Verslun og þjónusta í Eyjum horfir nú fram á ómæld tækfæri, sama má segja um tæknigeirann og í raun flest allar atvinnugreinar.
 

Allt er hægt
Má í raun vísa til enska orðatiltækisins og segja ,,only the sky is the limit“ sem mætti þýða ,,allt er hægt". Tæknin er slík í dag að verkefnum er hægt að sinna langt frá uppruna þeirra og fjölmargar atvinnugreinar nýta sér það. Það sem við unga fólkið þurfum að gera er að trúa á okkur sjálf, trúa á Vestmannaeyjar og láta drauminn rætast. Við frambjóðendur á lista sjálfstæðismanna höfum öll veðjað á Vestmannaeyjar til framtíðar og munum standa vörð um þær, sem nú stafar helst ógn af aðgerðum ríkisstjórnar.
 
Páley Borgþórsdóttir
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.