Olíufélög greiði Vestmannaeyjabæ bætur

6.Maí'10 | 17:17

höfn vestmannaeyjahöfn vestmannaeyjar vestmannaeyjabær

Hæstiréttur hefur dæmt þrjú olíufélög, Ker, Skeljung og Olíuverslun Íslands, til að greiða Vestmannaeyjabæ 14,4 milljónir króna í bætur vegna tjóns, sem bærinn varð fyrir vegna ólögmæts samráðs félaganna. Olíufélögin voru hins vegar sýknuð af bótakröfu útgerðarfélags í Vestmannaeyjum.
Vestmannaeyjabær taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna þriggja um verð, sem félögin buðu fyrir eldsneyti í útboði á árinu 1997. Sagði Vestmannaeyjabær, að markmið félaganna hefði verið að halda viðskiptum við bæinn um eldsneytiskaup óbreyttum með því að gera samkomulag um að bjóða honum einungis verð samkvæmt verðlista.
 
Hæstiréttur segir í dómi sínum, að bréf framkvæmdastjóra markaðssviðs stórviðskipta hjá Skeljungi frá 10. mars 1998 til Kers og Olís veitti eindregna vísbendingu um að félögin þrjú hefðu haft með sér samráð við gerð tilboða til Vestmannaeyjabæ og samið um skiptingu framlegðar.
 
Þá sagði Hæstiréttur, að minnisblað framkvæmdastjóra markaðssviðs stórnotenda hjá Olís styddi sömu niðurstöðu og einnig gögn, sem komu fram við rannsókn Samkeppnisstofnunar á ætluðum brotum olíufélaganna á þágildandi samkeppnislögum.
 
Segir Hæstiréttur, að ekkert hefði fram komið af hálfu olíufélaganna, sem mælti gegn því að tilgangur alls þessa hefði verið að halda viðskiptum hvers þeirra við Vestmannaeyjabæ óbreyttum gegn verði, sem ekki hefði staðist ef reglur samkeppnislaga hefðu verið virtar. Var talið, að nægar líkur hefðu verið leiddar að því að olíufélögin hefðu valdið Vestmannaeyjabæ bótaskyldu tjón.
 
Vestmannaeyjabær krafðist 16,6 milljóna króna í bætur en hluti kröfunnar var talinn fyrndur og voru bæturnar því ákveðnar 14,4 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta.
 
Sýknuð af kröfu Dala-Rafns
 
Hæstiréttur sýknaði hins vegar olíufélögin þrjú af bótakröfu útgerðarfélagsins Dala-Rafns í Vestmannaeyjum en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður fallist á kröfu félagsins um að olíufélögin greiddu því 2,3 milljónir króna í bætur vegna tjóns, sem ólöglegt samráð þeirra var talið hafa valdið.
 
Hæstiréttur segir, að þrátt fyrir umfangsmikla öflun gagna við málsmeðferð stjórnvalda á sviði samkeppnismála, sem Dala-Rafn hefði að nokkru fengið aðgang að, hefði félagið ekkert lagt fram, sem sýndi að olíufélögin hefðu sérstaklega haft samráð um viðskipti við það.
 
Þá hefði Dala-Rafn heldur ekki vísað til gagna eða rökstutt á annan hátt svo að viðhlítandi væri að olíufélögin hefðu gagngert haft samráð um verðlagningu gasolíu til útgerðarmanna, en hefði þess í stað að mestu látið við það sitja að draga almennar ályktanir af ákvörðun samkeppnisráðs.
 

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.