Jákvæðir ársreikningar í kreppunni

…höfum enn staðið af okkur áföll kreppunnar segir Elliði bæjarstjóri Vestmannaeyja.

22.Apríl'10 | 02:32
Nú liggja ársreikningar fyrir árið 2009 fyrir. Eins og seinustu 3 ár kemur árið vel út hvað varðar sértekjur Vestmannaeyjabæjar (útsvar og fasteignagjöld). Heildartekjur bæjarsjóðs af skatttekjum námu um 1.590 milljónum kr. og jukust um 10,22% á milli ára. Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs er 397.9 milljónir í hagnað og hagnaður af samstæðu er 281,9 milljónir. Grunnrekstur bæjarfélagsins gengur afar vel og til marks um það er veltufé aðalsjóðs frá rekstri 554,8 milljónir og veltufé frá aðalsjóði hvorki meira né minna en 701,6 milljón.
Þessi jákvæða staða skýrist fyrst og fremst af því að afar vel gekk í sjávarútvegi árið 2009. Skatttekjur af sjávarútveginum halda því hjólum atvinnulífsins í Vestmannaeyjum enn sem fyrr gangandi. Hér í Vestmannaeyjum þekkir fólk og finnur á eigin skinni að þegar vel fiskast græða ekki bara sjómenn og útgerðarmenn heldur allt samfélagið. Ársreikningar Vestmannaeyjabæjar sýna því svo ekki verður umvillst að allt tal um að íslenska þjóðin njóti ekki arðs af sjávarauðlindinni er því í besta falli moðreykur til þess fallinn að magna upp pólitíska deilu um hugsjón, ekki um sanngirni. Sjómenn, landverkafólk og aðrir sem starfa við sjávarútveginn skila miklum tekjum í sameiginlega sjóði. Fyrir það getum við sem stýrum opinberum sjóðum, hvort sem er hjá sveitarfélögum eða ríki, verið þakklát.
 
Ólíkt þeim tekjum sem Vestmannaeyjabær hefur af eigin atvinnulífi þá dragast framlög jöfnunarsjóðs til Vestmannaeyja af tekjum ríkisins mikið saman eða um 43,25% milli árana 2008 og 2009 og fara úr 511 milljónum niður í 290.7 milljónir. Samdráttur í tekjum Vestmannaeyjabæjar vegna lægri framlaga frá ríkinu eru því hvorki meira né minni en 220,3 milljónir.
 
Búið að greiða niður erfiðustu lánin
Vestmannaeyjabær hefur allt þetta kjörtímabil verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búið að greiða niður skuldir fyrir u.þ.b. 2,2 milljarða á tveimur árum. Í upphafi kjörtímabils greiddi Vestmannaeyjabær upp allar erlendar skuldir og má sem dæmi nefna að við greiddum upp 90 milljóna dollaralán þegar dollarinn var í 59 krónum. Lán þetta stæði í rúmum 200 milljónum núna. Skuldir á hvern íbúa hafa því lækkað verulega á kjörtímabilinu. Þessi gríðarlega niðurgreiðsla á lánum léttir því mjög álaginu á rekstri okkar til lengri tíma. Heildarskuldir og skuldbindingar okkar nú eru um 5.160 milljónir og skiptir þar mestu að lífeyrisskuldbindingar eru 2401 milljónir. Þá skekkir það mjög myndina að gerir samanburð erfiðan að fjárfesting vegna hinnar nýju vatnslagnar til Vestmannaeyja kemur nú inn í ársreikninginn. Í því samhengi þarf að hafa hugfast að þrátt fyrir að lögnin bókfærist í ársreikninga Vestmannaeyjabæjar þá hefur fjárfestingin sem slík engin áhrif á framtíðar rekstur Vestmannaeyjabæjar. Lögnin er að fullu fjármögnuð af ríkinu og HS veitum. Rekstur er alfarið á ábyrgð HS veitna hf. Eingöngu eignarhaldið er hjá Vestmannaeyjabæ.
 
Heildar skuldir Vestmannaeyjabæjar við lánastofnanir í árslok 2009 voru 1265 milljónir og skiptast sem hér segir:
Aðalsjóður: 619 milljónir
Hafnasjóður: 233 milljónir
Félagslegaíbúðak.: 413 milljónir
Samtals: 1265 milljónir
 
Mikilli hagræðingu hefur verið náð
Í heildina lítur rekstur Vestmannaeyjabæjar ágætlega út. Tekjur hafa verið stöðugar og heldur upp á við. Umtalsverðri hagræðingu hefur veri náð með skipulagsbreytingum eins og aldursskiptingu grunnskóla, sameiningu leikskóla, breytinga á safnarekstri og fleira. Þá hefur mikið verið skorið niður í yfirstjórn Vestmannaeyjabæjar. Yfirstjórnendum var fækkað um 25%, staða íþrótta- og æskulýðsfulltrúa lögð niður og verkefni flutt á aðra starfsmenn, staða leiksólastjóra var lögð niður, staða deildarstjóra í málefnum fatlaðara var lögð niður, staða yfirstjórnenda í safnarhúsi var lögð niður, staða hafnarstjóra var sameinuð stöðu framkvæmdarstjóra, deildarstjórum hefur verið fækkað og áfram má telja. Á sama tíma og millistjórnendum hefur verið fækkað hefur Vestmannaeyjabær kappkostað að standa vörð um störf neðar í skipuritinu. Áhyggjur okkar núna eru þau að börnum á grunnskólaaldri er að fækka þegar stórir árgangar fara út og litlir koma inn. Það á eftir að valda okkur erfiðleikum í rekstri skólanna.
 
Miklar framkvæmdir framundan
Í góðæri áranna 2006 til 2008 nýti Vestmannaeyjabær sér tækifæri til að gera breytingar í eignasafni sínu. Verðmætum hlutabréfum í Hitaveitu Suðurnesja var snúið í peninga á þeim tíma sem góðærið náði hámarki. Þá strax, í miðju góðærinu, var höfuð áhersla lögð á að greiða niður skuldir sem voru að sliga sveitarfélagið. Öllum framkvæmdum var frestað enda atvinnustig almennt gott. Nú þegar harðnar á dalnum hefur Vestmannaeyjabær hinsvegar sett mikið af verkefnum af stað og ráðgert er að framkvæma fyrir 1700 milljónir á næstu þremur árum. Það gefur fyrirheit um sterkt atvinnustig í gegnum kreppuna. Allar framkvæmdir eru fjármagnaðar af eigin fé, engin lán verða tekin.
 
Fólkinu fjölgar í Eyjunum enn
Vestmannaeyjar sigla því inn í kreppuna sterkari en flest sveitarfélög. Með samstilltu átaki eigum við að geta staðið hana að mestu af okkur þótt auðvitað bíti hún hér eins og annarstaðar. Það jákvæðasta af öllu er svo að í fyrra fjölgaði búsettum Eyjamönnum úr 4090 í 4140. Vonir standa til að í lok árs verði þeir orðnir 4200. Þessi fjölgun er í samræmi við þau markmið sem núverandi bæjarstjórn setti sér í upphafi kjörtímabils. Sem sagt, "Fólkinu fjölgar í Eyjunum enn, og öllum ber saman um það, hér eigi það heima hér eigi það senn heimsins fegursta stað."
 
Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
 
 

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.