Loksins, loksins og loksins.

Gagnrýni Gunnars Þorra á leikritinu Fullkomið brúðkaup.

5.Apríl'10 | 16:51
FULLKOMIÐ BRÚÐKAUP
 
Höfundur: Robin Hawdon, þýðandi: Örn Árnason. Leikstjóri og leikmynd: Ari Matthíasson. Leikendur: Hjalti Enok Pálsson, Elín Sólborg Eyjólfsdóttir, Emma Bjarnadóttir, Ásta Jóna Jónsdóttir, Zindri Freyr Ragnarsson og Vilhjálmur Bergsteinsson. Frumsýning 19. mars 2010.
 
 
 
Hér í Vestmannaeyjum er Leikfélag Vestmannaeyja 100 ára gamalt og heldur upp á þau tímamót með þessari frábæru leiksýningu, með hæfileikafólki í öllum hlutverkum. Það eru ýmsar uppákomur í sýningunni sem koma áhorfendum á óvart og allir hlægja og upplifa ógleymanlega stund. Það er alltaf gaman hlægja sig máttlausan útaf hverfugleika og margræðri tilveru mannskepnunnar hér á jörð. Hláturinn lengir lífið og þroskar okkur öll, eins og Leikfélag Vestmannaeyja hefur gert í 100 ár.
 
   Þetta leikrit fjallar um það þegar brúðguminn vaknar á morgni brúðkaupsdagsins með dúndrandi timburmenn, eftir steggjapartý kvöldið áður. Hann er á hótelherbergi, rétt hjá brúðhjónasvítunni, og við hlið hans er nakin kona, en ekki rétta konan. Svaramaður brúðgumans og vinur kemur til hjálpar og bjargar brúðgumanum út úr klemmunni og fá þeir herbergisþernuna sér til liðsinnis. Úr þessu öllu verður þessi skemmtilega flækja sem vindur upp á sig þegar brúðurin mætir á svæðið og síðar enn frekar þegar frábær faðir hennar kemur inn á sviðið og allir skella upp úr, svo að þakið ætlar næstum af húsinu. En samkvæmt handriti og öðrum uppfærslum á þetta að vera móðir brúðarinnar, en það kryddar sýninguna betur að láta hann frekar birtast svona á sviðinu óvænt og öllum að óvörum. Það er rúsínan í pylsuendanum, sem gerir það að verkum að allir ganga brosandi úr leikhúsinu að leiksýningu lokinni.
    Sviðinu er skipt milli tveggja herbergja, nokkrar nauðsynlegar dyr, sem ýmist eru læstar eða opnar, gluggi fyrir leikara til að hverfa og birtast óvænt, og einn stigi sem gefur sýningunni góða vídd fyrir innkomur. Sýningin er hröð og þétt eins og farsinn krefst, tæmingar góðar og áreynslulaust skila brandararnir sér. Leikararnir hafa greinilega gaman af þessum leik og gera þetta allt saman mjög sannfærandi. Karakterar eru ólíkir og blómstra oft á tíðum mjög glæsilega með framkomu sinni og allri umgjörð og stuðningi, sem fæst frá jákvæðum áhorfendum.
   Mjög gaman er að sjá að svona æðri menning geti blómstrað á þessu stórafmæli Leikfélags Vestmannaeyja. Þetta leikrit fjallar líka um það hlutskipti mannsins að finna sér lífsförunaut, brúðkaup er lausnin í sýningunni og öllum er boðið í þau tímamót eins og boðskortið sýnir, sem fylgir hér með sem mynd. Það er ekkert eins mikilvægt fyrir alla og hvern og einn í lífinu að finna sér sinn/sína rétta/réttu í lífinu. Það er virkilega það eina erfiða sem til er hér á jörð, en það er um að gera að gefast aldrei upp, þrátt fyrir glappaskot og annað. Best að reyna að sjá björtu hliðarnar og gera gott úr öllu saman, eins og þetta leikrit gerir. Þetta leikrit hefur notið mikilla vinsælda víða. Leikfélag Akureyrar hefur sýnt það við góðar undirtektir, og framhaldsskólar í Reykjavík tóku sig saman og settu upp þetta leikrit í leikfélaginu Þrándur. Nokkrir nemar úr Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum standa sig rosalega vel í þessari sýningu hér í Eyjum, bæði á sviði og þeir sem vinna baksviðs. Persónurnar í leikritinu eru einmitt á svipuðum aldri og leikendurnir, (ef ekki þá er persónan dvergur (?)).
  Mikið mæðir á Hjalta í hlutverki brúðgumans og er honum gert að eyða brúkaupsdeginum á barmi taugaáfalls. Honum fórst það mjög vel úr hendi. Zindri er pottþéttur sem svaramaðurinn, og það sama má segja um Ástu í hlutverki brúðarinnar. Emma er verulega skemmtileg sem hjásvæfan og samleikur þeirra Hjalta, sérstaklega í seinni hlutanum var verulega góður. Elín Sólborg er frábær sem hin trega rödd skynseminnar, herbergisþernan og misskilur hlutina alltaf rétt. Vilhjálmur fer síðan létt með mikilvægt úrslitahlutverk föður brúðarinnar. Þá er ótalið söngatriðið, sem er mjög vel til fundið og passar mjög vel við þessa sýningu, en það er lagið Draumur um Nínu.
 
  Gaman hefði verið að sjá leikhúsið troðfullt á þessari sýningu, en vonandi á þessi sýning eftir að fara víða og slá allverulega í gegn, enda frábær leikhópur á ferð, sem á framtíðina fyrir sér. Vonandi sjá yfirvöld og stórfyrirtæki, í miðri kreppu sem einmitt er djúp og gróf núna, sér fært að hressa upp á andann, með því að styrkja Leikfélag Vestmanneyja ríflega og hróður þess með áframhaldandi sýningum, aukasýningum og fleiri sýningum . . . Loksins, loksins er menningarviðburður til staðar í Eyjum, ekki missa af honum!
 
Gunnar Þorri
 
 
 
 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.