Góð samskipti og líðan barna. Helga Margrét Guðmundsdóttir skrifar.

16.Mars'10 | 16:24
Í átaksviku Rauða krossins er athylginni beint að samskiptum á erfiðum tímum og fólk hvatt til að vanda samskipti og hlúa að eigin líðan. Í því sambandi er mikilvægt að foreldrar og þeir sem vinna með börnum hugi sérstaklega að samskiptum sínumog viðmóti gagnvart börnum og láta sig varða um líðan þeirra. Samstarf heimila og skóla er samstarf um uppeldi og menntun og snýst um velferð og öryggi barna. Samstarf þessara aðila hefur sennilega aldrei verið jafn mikilvægt og nú.
Börn þurfa að hafa aðgang að fullorðnu fólki sem þau geta treyst bæði í skólanum, frístundum og í foreldrum sínum. Þau þurfa líka að hafa vissu fyrir því að ef þau treysta fullorðnu fólki fyrir vanlíðan sinni sé brugðist við því og farið með það á varfærin hátt.
 
Á undanförnum árum hefur skóladagurinn lengst verulega og ýmsir þættir, eins og t.d. skóladagvist og tómstundastarf tengjast nú í auknum mæli starfsemi skólanna. Uppeldishlutverk skólanna hefur þar með fengið meira vægi. Með góðum samskiptum heimila og skóla eykst skilningur og þekking á báða bóga. Þannig er hægt að stuðla að velferð barna í hverju hverfi fyrir sig. Einn liður í því er að huga vel að aðstæðum foreldra og líðan starfsfólksins í skólanum. Hvetja þarf sérstaklega til þess að samskipti við nemendur séu jákvæð og uppbyggileg. Foreldrar þurfa að geta treyst því að börnin séu í góðum höndum og að fylgst sé með líðan barna og öryggi þeirra á löngum skóladegi.
 
Virkir foreldrar eru mikilvæg forvörn og gera skólann betri sem hefur áhrif á líðan barna við hvern skóla. Áhrifa góðs foreldrasamstarfs gætir ekki einungis hjá þeim börnum sem eiga virka foreldra heldur hjá öllum börnum í skólanum, hefur áhrif á skólabrag og þar með bæjarbrag hvers sveitarfélags. Sagt er að sá mannauður sem býr í foreldrunum sé vannýtt auðlind í skólastarfi. Í því felst hvatning til skólastjórnenda að líta enn frekar til foreldrasamfélagsins og mikilvægt að frumkvæðið að auknu samstarfi komi frá þeim.
 
Í nýjum menntalögum er hvatt til aukinna tengsla við nærsamfélagið með skólaráðum sem nú starfa við hvern grunnskóla. Í skólaráðum hafa foreldrar aðkomu að stjórnun skólans og geta lagt sitt af mörkum á þeim vettvangi til að bæta skólabrag og líðan barna í skólum. Stjórnir foreldrafélaga og bekkjarfulltrúar eru bakland fulltrúa foreldra í skólaráðum og koma til þeirra ábendingar um það sem betur má fara. Þá er í lögunum (13. grein)hlutverk umsjónarkennara skilgreint á eftirfarandi hátt: „Hver nemandi skal hafa umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.” Við þurfum öll að láta málið til okkar taka með góðum samskiptum og samvinnu.
 
                        Helga Margrét Guðmundsdóttir, verkefnastjóri
                        hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra
 
 

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%