Í þeim aðstæðum sem nú ríkja í samfélaginu er nauðsynlegt að reyna eftir fremsta megni að efla velferð einstaklinga

1.Febrúar'10 | 15:44

eyverjar boggi

Eyverjar félag ungra sjálfstæðismanna hélt aðalfund sinn síðastliðinn laugardag og var Borgþór Ásgeirsson kosinn formaður. Hér að neðan birtum við stjórnmálaályktun fundarins ásamt lista yfir nýja stjórnarmenn Eyverja.
Borgþór sat sem varaformaður síðasta árið en hann tekur við af Sindra Ólafssyni. Leifur Jóhannesson var kjörinn varaformaður og sem meðstjórnendur voru þau kjörin: Margrét Rós Ingólfsdóttir, Helena Björk Þorsteinsdóttir, Gígja Óskarsdóttir, Hjalti Pálsson, Daði Ólafsson, Elín Sólborg Eyjólfsdóttir, Anna María Halldórsdóttir, Bragi Magnússon og Kristín Rannveig Jónsdóttir.

Stjórnmálaályktun:
Eyverjar, félag ungra sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, ætla sér nú sem fyrr að standa vörð um athafnafrelsi einstaklingsins í samstarfi við önnur aðildarfélög á landinu. Fólk á sig sjálft, hefur eigin hvata og skoðanir og er ekki til fyrir sveitarfélög eða ríkið. Í þeim aðstæðum sem nú ríkja í samfélaginu er nauðsynlegt að reyna eftir fremsta megni að efla velferð einstaklinga, stilla skattheimtu í hóf og efla atvinnustarfsemi. Forsenda þess að Ísland vinni sig út úr þeim alþjóðavanda sem nú að stafar, er að gætt sé að þessum atriðum sem nefnd eru hér að framan. Eyverjar telja að ríkisstjórn Íslands, undir forystu Steingríms Jóhanns Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur, hafi síðastliðna mánuði ekki lagt áherslu á þessi atriði og eru afleiðingarnar gríðarlega alvarlegar. Hundruð, ef ekki þúsundir fjölskyldna eru að sligast undan þungri greiðslubyrgði og síhækkandi skattheimtu stjórnvalda. Það ætti að vera verkefni hverrar ríkisstjórnar að finna til úrræði fyrir þennan hóp, en ekki leggja æþyngri lóð á herðar þeirra sem eiga hvað erfiðast með að bera þau. Það sem við vitum er að ef ekkert er gert í stöðunni, líkt og undanfarna mánuði mun ungt fólk, ungt menntað fólk flytjast búferlum erlendis og mun það kosta samfélagið mikla fjármuni, svo ekki sé talað um mannauðinn sem þar tapast úr landi. Hlutirnir leysast ekki með því að tala um þá, aðgerða er þörf.


Eyverjar, félag ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, ítreka andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fullveldi Íslands ætti aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, að vera til sölu. Það skal bent á að ekkert úrsagnarákvæði er í núverandi sáttmála Evrópusambandsins, þannig að ekki er hægt að segja sig úr sambandinu. Það er því ekki hægt að segja sig úr sambandinu þegar núverandi ríkisstjórn áttar sig á því að litla 300 þúsund manna þjóðin er einungis peð á taflborði stórvelda sem öllu stjórna. Til að gæta sanngirnis þá er það tekið fram að til stendur að setja inn úrsagnarákvæði í Lissabon sáttmálann, en það ríki sem segir sig úr sambandinu er vitaskuld búið að afsala sér öllum milliríkjasamningum og gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahags- og atvinnulíf þeirra ríkja sem það gera. Eyverjar telja að ríkisstjórn Íslands ætti umsvifalaust að endurskoða afstöðu sína til inngöngu í Evrópusambandið, enda er fullveldi Íslands í húfi.

Eyverjar, félag ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, skora á ríkisstjórn Íslands að aflétta óþarfa leynd yfir skjölum og gögnum er varða hagsmuni þjóðarinnar og er þá sama hvort um er að ræða gögn varðandi Icesave, Evrópusambandið eða skilanefndir bankanna. Almenningur á rétt á því að sjá þessi gögn og móta sér vel upplýstar skoðanir út frá öllum gögnum er fyrir liggja.

Vestmannaeyjar og aðrar sjávarbyggðir eru nú að berjast við nýja ógn sem stafar af ógnarstjórn vinstri flokka sem vilja fyrna kvótann og koma honum í hendur ríkisins með skelfilegum afleiðingum. Skýrsla endurskoðandafyrirtækisins Deloitte frá 2009 sýnir bersýnilega að fjöldagjaldþrot verður í atvinnugreininni komi til þess að fyrningarleið ríkisstjórnarinnar verði farin. Áhrif slíks á Vestmannaeyjar og samfélagið verða svo umfangsmikil að eðlilegt er að óttast afleiðingarnar. Það er hlutverk núverandi ríkisstjórnar og Jóns Bjarnasonar sjávar -og landbúnaðarráðherra að tryggja það að þessi atvinnugrein, sem svo margir eiga allt sitt undir, hafi framtíðarsýn sem flestir geti verið sáttir við. Sú sýn og sátt verður ekki fengin með fyrningarleiðinni og hafna Eyverjar alfarið öllum þeim hugmyndum sem fram eru komnar um fyrirhugaða fyrningarleið.

Eftir nokkra mánuði ganga landsmenn til sveitarstjórnakosninga. Eyverjar telja að sú þjónusta sem sveitarfélagið Vestmannaeyjar sinnir sé í langflestum tilvikum til fyrirmyndar, en ávallt má gera betur. Ljóst er að mörg þeirra verkefna sem nú eru í höndum sveitarfélaga yrðu álíka vel, eða betur leyst af einkaaðilum. Að því ber að stefna á næsta kjörtímabili. Í dag er sveitarfélagið stærsti atvinnurekandinn í Vestmannaeyjum og sumir telja að það sé skylda fyrir bæinn að veita góða atvinnumöguleika, en Eyverjar telja mun skynsamlegri kost að einkaaðilar fái meira vægi og að bærinn eigi að veita fyrirtækjum og aðilum hér í bæ svigrúm til að taka við rekstri bæjarins þar sem það á við. Það skal ekki gleymast að í krafti einkaframtaksins hefur samfélagið í Vestmannaeyjum blómstrað.

Eyverjar, félag ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, leggja áherslu á að meirihluti bæjarstjórnar haldi áfram að vinna Vestmannaeyjum heilt líkt og á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Jafnframt leggja Eyverjar áherslu á að frá deginum í dag og fram að 29. maí nk. muni kraftur Sjálfstæðismanna fara í að bæta vindi í seglin og halda áfram í sókn.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.