Reynt að semja um tilraunarekstur

13.Janúar'10 | 20:49

Landeyjahöfn bakkafjara bakki

Vegagerðin vonast til að fyrirkomulag siglinga til Vestmannaeyja, eftir að Landeyjahöfn verður tekin í gagnið 1. júlí næstkomandi, skýrist í þessum mánuði. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum segir erfitt að selja ferðafólki ferðir til Vestmannaeyja í sumar þegar ekki er vitað um ferðaáætlun og gjaldskrá.

Ekki hægt að bóka fyrir sumarið

Hjá Eimskip fengust þær upplýsingar að aðeins væri hægt að bóka í ferðir út júní. Guðmundur Pedersen rekstrarstjóri segir óvíst hvort Eimskip komi að rekstrinum eftir þann tíma og ekki hægt að lofa upp í ermina á þeim sem þá taka hugsanlega við.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að ferðafólk sýni Vestmannaeyjum vaxandi áhuga. Menn séu að búa sig undir að taka við 16 þúsund manns á þjóðhátíð. Þá sé goslokahátíð í byrjun júlí. Aukin flutningsgeta með siglingum til Landeyjahafnar muni ýta undir ferðaþjónustuna.

Hann segir því bagalegt að geta ekki svarað fyrirspurnum erlendra ferðaskrifstofa um ferðaáætlun skipsins, tíðni ferða og hvað farið eigi að kosta.

Þá segir Elliði erfitt að fá ekki upplýsingar um stöðu mála. Það tefji vinnu sem hefur verið í gangi í Vestmannaeyjum við að undirbúa samfélagið og greina ný tækifæri.

Flóknara en gert var ráð fyrir

Við útboð ríkisins á nýju skipi sem síðan var hætt við að láta smíða var gert ráð fyrir fimm ferðum að meðaltali á dag. Áætlað var að hafa sjö ferðir á dag á sumrin, fimm á haustin og vorin og fjórar á veturna. Þá var miðað við að farið myndi kosta 500 krónur fyrir fullorðna og þúsund krónur fyrir hvern bíl.

Kristján Möller samgönguráðherra segir málið flókið og erfiðara úrlausnar en gert hafi verið ráð fyrir. „Við höfum verið að vinna að þessu töluvert lengi en hefðum viljað vera komin lengra."

Segir Kristján að fyrstu tölur bendi til þess að kostnaður við siglingar milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja verði mun meiri en við núverandi samning. Ýmsir þættir hafi áhrif á það, til dæmis fjölgun ferða, mönnun skipsins, minni farþegatekjur og jafnvel eldsneytisnotkun.

„Það er unnið að málinu af fullum krafti. Í næstu viku verður fundur í ráðuneytinu þar sem farið verður yfir forsendur. Þá munum við gera okkur betur grein fyrir því," segir Kristján.

„Aðalatriðið er að þetta verður mikil samgöngubót. Þeir hnökrar sem verið hafa á málinu eru hluti af erfiðleikunum í samfélaginu," segir Kristján.

Hann reiknar með að rekstur Herjólfs verði boðinn út á haustmánuðum, nema þá verði búið að ná hagstæðum samningi fram á næsta ár.

Vantar skilning

„Við höfum fullan skilning á stöðu ríkisins," segir Elliði, en leggur um leið áherslu á að ekki megi gleymast hvað samgöngurnar séu mikilvægar fyrir Eyjamenn. „Vestmannaeyjar eru næst stærsti þéttbýliskjarni landsins, fyrir utan suðvesturhornið. Það gleymist oft hvað hér býr margt fólk og öflugt atvinnulíf. Það kallar á samgöngur. Okkur hefur fundist vanta skilning á stöðu okkar," segir Elliði Vignisson.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is