Fórum á gulldeplu en fylltum af síld

6.Janúar'10 | 09:05

Tobbi

Mannskapurinn mætti til skips sunnudaginn 3. janúar og var í plönunum að fara á gulldepluveiðar. Byrjað var strax á að græja skipið á trollið, hífa hlera um borð og taka snurpuvírinn af spilunum o.fl. Þessi vinnan kláraðist á mánudagskvöldið og var farið á sjó upp úr sjö um kvöldið og stefnan tekin á miðin. En hvaða mið..... Ekki var mikill árangur hjá skipunum á gulldeplunni og nokkur hundruð tonn af síld var enn þá til hjá fyrirtækinu sem átti að taka þegar aðeins leið á mánuðinn. En ákvörðun var tekin um að veiða þessi tonn núna því ástandið var ekki spennandi á gulldeplunni. Við græjuðum því skipið á nótaveiðar á nýjan leik strax um kvöldið sem farið var út.

Um ellefu í morgun var svo komið inn á sundin við Stykkishólm. Jóna Eðvalds SF var einnig hér í dag og var hún aðeins á undan okkur og voru þeir búnir að kasta þegar við mættum. Það er skemmst frá því að segja að þeir fengu í skipið í einu kasti, en hversu mörg tonn það voru veit ég ekki.

Mikið var um síld inn á sundunum og voru lóðningarnar virkilega þéttar. Mikið fuglalíf var allt í kringum skipið á meðan við vorum að snúast á síldinni inn á milli skerjanna. Um hádegi var svo nótinni kastað og gekk það vel þrátt fyrir að nótin væri hálf frosin í kassanum eftir frostið undanfarið.

Við sáum strax og byrjað var að draga nótina að við værum að uppskera gott kast og um miðjan drátt var farið að krauma í henni. Þetta kom brosinu á menn enda ekki búið að vera mikið um að vera undanfarna mánuði og ekki spennandi tímar fram undan í uppsjávarveiðum. En gott kast fengum við og fengum skammtinn okkar, um 650 tonn.

Eftir að dælingu var lokið var sett á ferð út sundin en þá gerðist það óhapp að skipið tók niðri. Þeir sem stundað hafa síldveiðar hér vita hversu slæmt svæði þetta er til síldveiða og ekki er botnin á sundunum allur kortlagður. Þar sem skipið tók niðri voru plottför á siglingartölvunni sitthvoru megin við þann stað þar sem þessi standur var svo að búið var að sigla fram hjá honum oftar en einu sinni. Svo vildi til í þetta skiptið að það var hitt á hann. Afleiðingarnar af þessum árekstri eru ekki góðar en líklegast er asdicið hjá okkur illa skemmt. Við náum staurnum ekki upp og það flæðir inn með asdicinu og kemur það líklegast í gegnum göndulinn sjálfann svo að hausinn á því er lílegast brotinn. Ekki er mikil hætta á ferðum því lensur hafa vel undan því sem inn kemur og búið er að græja vara lensur ef eitthvað skildi gerast.
Við erum á leiðinn heim til Eyja og er áætlaður komu tími þangað á milli sjö og átta í fyrramálið.

http://123.is/tobbivilla

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is