Gleðilega hátíð ljóss og friðar!

25.Desember'09 | 10:24

Landakirkja

Hugleiðingar um jólin hafa breyst mjög mikið í gegnum tíðina. Þetta sést mjög vel þegar bornar eru saman hugvekjur sem heyrast í dag og þær sem finna má í handritum og bókum frá fyrri tíð. Ég rakst á eina slíka jólahugvekju frá 1868 þegar góður vinur hér í Eyjum rétti mér nýlega innbundið handrit með þessu ártali. Þarna var að finna "Andlegar hugvekjur á jólum og nýári ásamt nokkrum versum", skrifað á Giljum af S. Sigurðssyni. Bókin getur varpar ljósi á það hvers vegna við tölum svona mikið um hátíð ljóss og friðar.

Guð gerðist maður með fæðingunni

   Þarna er ekki að finna sama sykursæta og huggulega spjallið og við heyrum oftast í hugvekjum nútímans. Hér er greinilega verið að fjalla um innihald atburða jólanna. Og varla er hægt að segja að vart verði þeirrar umgjarðar sem við erum orðin vön 140 árum síðar. Höfundur þessi, sem sennilega er á Giljum í Goðdalasókn í Skagafirði, skrifar um merkingu þess að Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Það er kallað holdtekjan eða holdtekningin. Hún átti sér stað með fæðingunni. Með þeirri nálgun er ljóst að strax við fæðingu Jesú byrjar að byggjast upp spenna sem leiðir til uppgjörs við heiminn. Hún er líkust þöndum streng sem ekki slaknar á fyrr en með fórn Jesú Krists á krossinum. Með fæðingunni losnar úr læðingi sú frelsun sem vonir manna voru bundnar við kynslóð eftir kynslóð. Loksins rættist hún með þessu ótrúlega inngripi Guðs í sögu mannkyns.

   Presturinn yrði fljótlega púaður niður á jólafundi ef hann færi að tala á þessum nótum núna yfir hlaðborðum og sætum kaffiboðum á aðventunni. Samt er þetta innihaldið. Það er einmitt þess vegna sem við tölum um Frelsarann og Lífgjafann eða Lausnara mannkyns. Langar mig að nefna eitt lítið dæmi um hvað hefur breyst í áherslum okkar hér á landi síðustu öld, en það er úr einu litlu atviki frásagnarinnar af fæðingu Frelsarans. Reyndar er það viðbót við frásögn Matteusarguðspjalls af komu vitringanna, sem er að öðru leiti áþekk frásögn og hjá Lúkasi og við þekkjum svo vel sem jólaguðspjall.

Myrran í heilgisögunni

   Við sjáum þetta fyrir okkur í öllum helgileikjum á aðventunni og í kvikmyndum og leikritum sem sett eru upp af atburðum jólanna. Þegar vitringarnir þrír leggja fram gjafirnar sínar er gjarnan talað um gull, reykelsi og myrru. Í helgisögunni leggur fyrsti vitringurinn fram gullið með þeim orðum að það sé fyrir konung konunganna. Annar vitringurinn leggur síðan fram reykelsið með þeim orðum að það sé fyrir prest prestanna, æðstaprest allrar boðunar. Þá er komið að myrrunni, en það er þar sem mestu tilbrigðin koma fram. Í seinni tíð er gjarnan talað um myrruna sem ilmsmyrsl og henni fylgja orð vitringsins um að myrran sé fyrir lækni læknanna. Jesús læknaði og hann gerði það heilt sem var brotið. Það merkir öðru fremur hið brákaða samband manns og Guðs. Í kvikmynd einni af fæðingu Jesú leggur þriðji vitringurinn fram myrruna með orðunum: "Myrra fyrir fórn yðar." Fórn Maríu var mikil en friðþægingarfórn Jesú er sennilega það sem mestu veldur um þennan skilning. Hér er ekki jólahugvekja frá miðri 19. öld. Þetta er í nýlegri kvikmynd sem er vönduð að allri gerð. Í fórninni er dýpri merking myrrunnar.

Í honum var líf

   Samkvæmt þessari skoðun byggir hin djúpa og fagra gleði jólanna á þeim skilningi að samband manns og Guðs er orðið heilt. Það er ekki bara vel gróið heldur er það orðið alheilt. Enginn gat lýst upp tilveru mannsins á betri hátt en Guð gerði með atburði jólanna. "Orðið varð hold og hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika." Þannig byrjar jólaguðspjall Jóhannesar. Og þar kemur fljótt í ljós sú spenna sem ég nefndi áðan. "Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því."

   Það er því mest um vert að skynja gleði og frið jólanna á þannig að þau hafi lýst upp tilveru okkar með ólýsanlegri birtu náðar og blessunar. Nú er náðartíð og friður Guðs skal ríkja í öllum heimi á jólum. Eftir sigur Jesú Krists með upprisunni á páskum er alveg ljóst að við eigum ekki að þurfa að ganga í myrkri, heldur ganga við ljós lífsins á öllum okkar vegum. Á hátíð ljóss og friðar skulum við horfa til þessarar gleði og njóta þess friðar sem jólin gefa. Njótum gleðinnar yfir komu Drottins.

Guð gefi þér gleðileg jól!

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla.