Rúmlega 100 ára gömul uppskrift að hátíðarmat

14.Desember'09 | 08:26

Ási

Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði sagðist í samtali við blaðamann vel geta tekið undir orð frænda síns um að það besta sem Guð hefði skapað væri konur og feitt kjöt. Hvort tveggja væri honum að skapi. Framundan eru miklar matarveislur hjá Ásmundi, sem oft stendur við eldavélina.
Skötuveislurnar verða að minnsta kosti þrjár þennan desembermánuð og hátíðarmaturinn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verður í ár eldaður af Ásmundi. Uppskriftin er frá langömmu og langafa Ásmundar, Elínu Þorsteinsdóttur og Friðrik Svipmundssyni frá Löndum í Vestmannaeyjum og er rúmlega 100 ára gömul. Blaðamaður hitti Ásmund í lúkarnum á Hólmsteini GK 20 en fyrir dyrunum stóð skötuveisla Hólmara, þeirra sem byggðu upp hólmann í Útskálasíki. Hann féllst á að deila fjölskylduuppskriftinni með lesendum Morgunblaðsins.

Vígja lúkarinn með skötu
Mikill uppbygging hefur verið í Sveitarfélaginu Garði og mörg skemmtileg verkefni á döfinni undir stjórn Ásmundar. Skólinn hefur verið stækkaður og innan hans verður almenningsbókasafn opnað samhliða nýju skólabókasafni. Leiksvæðið utan við skólann hefur verið endurnýjað, sem og sundlaug sveitarfélagsins. Nágrannavörslu hefur verið komið á í öllu sveitarfélaginu og fyrir dyrum standa skemmtileg verkefni sem miða að því að búa til fleiri ferðamannaperlur við Garðskagavita, annars vegar að grafa upp skotgrafir Breta síðan í síðari heimstyrjöldinni og hins vegar að gera endurbætur á vélbátnum Hólmsteini GK 20 sem nýlega var afhentur Byggðasafninu í Garði en hann var gerður út af Hólmsteini hf. í Garði frá árinu 1958 til 2006. „Skötuveislan í dag er vígsla lúkarsins en hér verða í framtíðinni reglulegar veislur. Báturinn á að verða aðgengilegur og snyrtilegur fyrir alla," sagði Ásmundur og setti yfir hamsatólgina.

Skata, vestfirskur hnoðmör og íslenskt brennivín
Skötusaga Ásmundar nær aftur til ársins 1976, en þá kom hann á skötuveislum Hrekkjalómafélagsins í Vestmannaeyjum. „Við byrjuðum á því að hafa veislurnar heima hjá mér en þurftum að færa okkur í sal vegna mikillar aðsóknar. Við vorum orðin 150," sagði Ásmundur sem var blaðurfulltrúi Hrekkjalómafélagsins. Eftir að Ásmundur flutti til Reykjanesbæjar tók hann upp þann góða sið að efna til skötuveislu á Þorláksmessu að sumri, 20. júní. Nú eru þær veislur haldnar í Garði og fyrir dyrum stendur árleg skötuveisla knattspyrnufélagsins Víðis í Samkomuhúsinu. Þriðja veisla Ásmundar þennan desembermánuð er árleg Þorláksmessuskötuveisla með Þorsteini Erlingssyni útgerðarmanni í húsakynnum útgerðarinnar, Saltveri, ásamt mökum, börnum og öðrum góðum gestum. „Ég er sérstaklega mikill skötumaður og best að hafa með hamsatólg, vestfirskan hnoðmör og íslenskt brennivín. Þó er í öllu þessu fjöri aldrei fyllerí eins og margir halda. Það er það góða við þetta."

Ást Ásmundar á skötu varð til þess að hann stofnaði í Reykjanesbæ félagskapinn Hamsarana. „Þetta er félagsskapur 15 karla sem hittast reglulega og borða saman mat eins og siginn fisk, steikt síldarflök og alls kyns innmat, skötu og sviðahausa og sviðalappir sem við svíðum sjálfir. Við tókum þennan góða sið frá Vatnsnesi, þar sem boðið er upp á sviðaveislur reglulega. Við Hamsarar höfum farið í nokkrar ferðir þangað og dveljum þá í 2 daga við veisluhöld."

Þegar skötuveislunum sleppir hefur Ásmundur undirbúning jólamáltíðarinnar, sem í ár verður með óvenjulegu sniði. „Þannig er að þegar konan mín, Sigríður Magnúsdóttir, gerðist yfirkokkur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja var hún eitthvað að vandræðast með matinn á gamlárskvöld. Ég bauðst til þess að koma og elda Beinalausa fugla, rétt sem hefur verið hátíðarréttur á jólum í minni fjölskyldu frá því um aldamótin 1900. Sigríður þáði það, en í ár verður hún á vakt á aðfangadag og því mun ég standa yfir pottunum þann daginn á Sjúkrahúsinu. Læknarnir eru kannski ekkert voðalega hrifnir af þessum rétti fyrir sjúklingana en hann er einstaklega góður. Heima undirbý ég réttinn að kvöldi Þorláksmessu en á Sjúkrahúsið mæti ég kl. 06.30 að morgni aðfangadags og hefst handa. Rétturinn verður síðan borinn á borð um kl. 16:00.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.