Engin svör frá Kristjáni Möller eftir þrjár tilraunir

7.Desember'09 | 12:58

Kristján Möller Samgönguráðherra

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að þrátt fyrir þrjár tilraunir hafi hann engin svör fengið frá samgönguráðuneytinu vegna hugmynda um fækkun ferða Herjólfs milli lands og Eyja.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem Elliði hefur sent Kristjáni Möller samgönguráðherra. Þar vekur hann athygli á því að hann hafi ekki fengið svar við tölvupósti frá 3. desember síðastliðinn. Þetta sé í þriðja skipti á þessu ári sem hann sendi fyrirspurn til ráðuneytisins án þess að fá svör:

„Ég vek athygli á því að í tölvupóstinum er fundið að samskiptaleysi Vegagerðarinnar og furða ég mig á því að viðkvæðið við þeim ábendingum sé samskiptaleysi af hálfu ráðuneytisins.

Ég vek enn fremur athygli ráðherra á því að um leið og tekin er ákvörðun um að hætta með tvær ferðir Herjólfs á dag alla daga vikunnar mega Eyjamenn horfa upp á að líkur eru fyrir því að flug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur leggist fljótlega af, dregið hefur úr Bakkaflugi, hætt var við nýsmíði á ferju sem sigla átti í Land-Eyjahöfn og alger óvissa ríkir um þjónustustig Land-Eyjahafnar þar sem engar upplýsingar fást um gjaldskrá og áætlun Herjólfs á þeirri siglingaleið. Þegar við bættist hrópandi þögn ráðuneytisins við formlegum fyrirspurnum verður ástandið óþolandi.

Málið er brýnt fyrir Vestmannaeyjabæ og Eyjamenn alla. Því óska ég hér með eindregið eftir svörum og viðbrögðum við neðangreindum tölvupósti."

Ofangreindur tölvupóstur var sendur í dag, 7. desember en tölvupósturinn frá 3. þessa mánaðar hljóðar svo og er einnig til Kristjáns Möller:

„Svo ótrúlega hagar nú til að Eimskip hefur að beiðni Vegagerðarinnar óskað eftir afstöðu Vestmanneyjabæjar til þess hvort fella eigi niður ferðir alla miðvikudaga og alla laugardaga frá 1. janúar 2010 til 1. maí 2010. Þetta erindi kemur algerlega flatt upp á okkur enda engin slík erindi borist til okkar frá samgönguyfirvöldum. Enn fremur kemur skýrt fram í bréfi Eimskipa að þetta sé álit þeirra ef tillaga Vegagerðarinnar um fækkun ferða nær fram að ganga. Vestmannaeyjabær vill trúa því að slík tillaga geti ekki náð fram að ganga og málið allt hljóti að hafa verið undirbúið án vitundar kjörinna fulltrúa og samgönguráðuneytisins.

Grunnáætlun Herjólfs hefur í langan tíma miðað við 2 ferðir á dag. Ákvörðun um að hverfa frá því er meiriháttar gengisfelling á þjónustustigi samfélagsins. Slíka ákvörðun geta yfirvöld vart tekið án samvinnu við heimamenn. Samgönguyfirvöld geta ekki leyft sér að taka ákvörðun sem þessa án þess að eiga formleg samskipti við bæjaryfirvöld. Hafi verið tekin slík ákvörðun án formlegra samskipta við sveitarstjórn hlýtur í öllum tilvikum að berast einhverskonar opinbert erindi þar að lútandi, áður en hægt er að ætlast til þess að Vestmannaeyjabær fari að vinna með rekstraraðila að útfærslu á slíku. Vönduð stjórnsýsla á ekki síður við á niðurskurðartímum en í góðæri. Bæjarráð getur því ekki né tekið afstöðu til erindis Eimskipa fyrr en Samgönguyfirvöld hafa tilkynnt ákvörðun sína.

Sé það algerlega óhjákvæmilegt að fella niður einhverjar ferðir í grunnáætlun Herjólfs þá gengur aldrei að fella niður ferð á laugardögum. Sannarlega eru þær ferðir minna notaðar en flestar aðrar. Hjá því verður þó ekki litið að þessar ferðir eru undirstöðu ferðir fyrir íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum. Laugardagar eru helstu keppnisdagar íþróttahreyfingarinnar í landinu. Um hverja helgi fara tugir og oft hundruð barna frá Vestmannaeyjum til keppnishalds á fastalandinu. Þau hafa hingað til getað komist heiman og heim á laugardögum og hefur íþróttahreyfingin lagt sig eftir því að hliðra til þannig að svo geti orðið. Kostnaður foreldra og íþróttahreyfingarinnar yrði gríðarlegur ef þessi tillaga vegagerðarinnar yrði að veruleika. Þá þarf heldur ekki að fara mögum orðum um álagið og óþægindin fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.

Ég óska því eftir upplýsingum um það hvort þessi tillaga Vegagerðarinnar sé unnin með vitund og vilja ráðherra og hvort hún hafi verið kynnt fyrir þingmönnum suðurlands. Ég lýsi mig einnig viljugan til að vinna með samgönguyfirvöldum að skynsamlegri lausn á þessum vanda, þannig að saman fari fjárhagslegur sparnaður og hagsmunir samfélagsins í Vestmannaeyjum.

Í ljósi þess hversu brýnt erindið er og þeirrar staðreyndar að einungis 28 dagar eru þar til hin vafasama tillaga Vegagerðarinnar á að koma til framkvæmdar óska ég eftir viðbrögðum frá þér eða fulltrúa þínum eins fljót og verða má."

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.