264 milljón krónu hagnaður af aðalsjóði Vestmannaeyjabæjar eftir fyrstu níu mánuði ársins

24.Nóvember'09 | 10:02

vestmannaeyja Vestmannaeyjabær Heimaklettur

Ástandið í þjóðfélaginu er þannig að nú halda allir að sér höndum, ríkið sker niður og mörg sveitafélög standa illa vegna skulda vegna framkvæmda síðustu ára.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir eftirfarandi um stöðuna eins og hún er í dag:

"Rekstur Vestmannaeyjabæjar hefur gengið vel það sem af er árs. Samkvæmt níu mánaða yfirliti er hagnaður af aðalsjóði í lok september rúmar 264 milljónir. Þarna vantar að vísu inn í breytingar á lífeyrisskuldbingingum, en á móti kemur að einungis er búið að bóka hluta af vaxtatekjum bæjarins. Í lok september hefur Vestmannaeyjabær fengið 83,3% af þeim skatttekjum sem við áætluðum fyrir árið. Ef við skiptum áætluðum tekjum jafnt niður á mánuði þá höfum við í lok september fengið rúmum 11% meira af skatttekjum en áætlað var.


Vandinn í okkar rekstri er hinsvegar sá gríðarlegi niðurskurður sem við erum að verða fyrir hvað varðar framlög ríkisins. Til dæmis er ljóst að við munum fá 10,31% minna frá Jöfnunarsjóði á árinu en ráð var fyrir gert, samt var í áætlunum ársins gert ráð fyrir tæplega 40% skerðingu á úthlutun Jöfnunarjóðs. Það er því ljóst að útsvarstekjurnar eru að skila mun meira en ráð var fyrir gert en aðrar tekjur dragast saman. Ef rekstraryfirlitið er borið saman við yfirlit frá sama tíma í fyrra kemur í ljós að útsvarstekjurnar nú eru tæpum 10% hærri en á sama tíma í fyrra. Framlag Jöfnunarjóðs er hinsvegar 32% lægra en á sama tíma í fyrra.


Útgjaldaliðirnir eru sömu leiðis í góðu jafnvægi enda hefur Vestmannaeyjabær verið í niðurskurði og aðhaldsaðgerðum seinustu 18 árin. Flest af þeim aðgerðum sem gömlu þenslusveitarfélögin eru nú að grípa til eru löngu komin til í Vestmannaeyjum. Við erum löngu búin að minnka yfirvinnu, lækka laun stjórnenda, fækka starfsmönnum, og fleira. Þess vegna gengur rekstur okkar vel. Mestu skiptir þar þær aðgerðir sem við réðumst í fyrir kreppu. Aðhald í rekstri, hagræðing í eignasafni og niðurgreiðsla skulda. Verðmætar eignir voru seldar og söluhagnaður notaður til að greiða niður lán. Í góðærinu hélt Vestmannaeyjabær að sér höndum og getur því framkvæmt núna til að halda uppi atvinnustiginu í kreppunni. Sveitarfélagið greiddi allar erlendar skuldir upp árið 2007 og þar við bætast háar tekjur sjávarútvegsins vegna lágs gengis krónunar. Þá hafa útgerðir í Vestmannaeyjum verið óhræddar við að sækja í nýjar tegundir og þannig skapað þjóðarbúinu og bæjarfélaginu gríðarlegar tekjur. Í því samhengi dugar að nefna gulldeplu og makríl.

 

Ef ríkistjórninni ber gæfa til að skerða ekki tækifæri sjávarútvegs þá er bjart framundan í rekstri bæjarfélagsins og ljóst að við verðum áfram aflögufær og getum áfram lagt ríkulega til hins sameignilega ríkisreksturs.

Eyjamenn sjálfir eru að afla meira en áður og ríkið að draga saman framlög til reksturs í Vestmannaeyjum. Svona höfum við þekkt ástandið í gegnum tíðina; Eyjamenn greiða sjálfir fyrir rekstur Vestmannaeyja og leggja svo þar að auki drjúgt til samneyslunnar á fastalandinu. Síðan leyfir fólk sér að tala eins og við séum ölmusuþegar vegna þess að við lifum á hinni sameiginlegu auðlynd þjóðarinnar. Auðlynd sem við höfum nýtt af ábyrgð seinustu 1200 árin." segir Elliði Vignisson bæjarstjóri

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.