Niðurskurður um 422.758.354 krónur á fjárlögum til Vestmannaeyja

16.Nóvember'09 | 14:42

Í dag ritaði Elliði Vignisson bæjarstjóri bréf til þingmanna Suðurkjördæmis og bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjum vegna niðurskurðar á fjárlögum ríkissins til Vestmannaeyja. Bréf Elliða er hægt að lesa hér fyrir neðan: 

 

Opið bréf til þingmanna Suðurkjördæmis

 

Ágætu þingmenn suðurkjördæmis

 

Hjálagt sendi ég ykkur yfirlit yfir þá liði í fjárlögum 2008, 2009 og 2010 þar sem Vestmannaeyjar koma fyrir. Bið ykkur um að athuga að vera kann að eitthvað af liðum sem tengjast Vestmannaeyjum séu ekki sérstaklega merktir þannig inn í fjárlög og komi því ekki fram í þessu yfirliti.

 

Eins og þið sjáið af meðfylgjandi yfirliti eru verulega blikur á lofti og ljóst að sársaukafullar aðgerðir verða boðaðar á næstu mánuðum ef þetta verður niðurstaðan. Yfirlitið sýnir að árið 2008 runnu 2.577.096.391 krónur til þessara liða í Vestmannaeyjum. Ráðgert er að árið 2010 renni 2.154.338.037 krónur til sömu liða. Sem sagt niðurskurður um 422.758.354 krónur. Á þessum sama tíma hækkar vísitala neysluverðs um 18,14% á árinu 2008 og hefur hækkað um 6,2% árinu 2009. Ef fjárlög 2008 hefðu fylgt vísitölu hefðu þau numið 3.233.345.740 en ekki 2.154.338.037. Raun niðurskurður er því vart undir 1.079.007.703, eða 33%. Sem sagt rúmlega þúsund milljónir á tveimur árum.

 

Allir hafa skilning á erfiðleikum þjóðarbúsins og gera sér grein fyrir að niðurskurður verður ekki umflúinn. Við niðurskurð þarf hinsvegar að gæta jafnvægis milli landshluta og draga mest úr þar sem þenslan var mest. Góðærið náði á sínum tíma ekki til Vestmannaeyja heldur mættum við víða niðurskurði í ríkiþjónustu á þeim tíma sem ríkisútgjöld jukust um 43% (2003 til 2008). Það þarf því vart að taka það fram að við Eyjamenn teljum þessa niðurstöðu algerlega óásættanlega og hljótum að spyrja hvort þið þingmenn okkar teljið þetta ásættanlegt. Hvort að þið teljið bök Eyjamanna endalaust hafa breidd til að taka á sig niðurskurð og auknar álögur, bæði í kreppu og góðæri. Hvort þið teljið ykkur vera að gæta hagsmuna okkar ef þið samþykkið þessi vinnubrögð og greiðið þessum fjárlögum atkvæði ykkar.

 

Dæmi um þennan niðurskurð

*Boðuð hefur verið breyting á embætti sýslumanns. Þess vegna geri ég ráð fyrir að hann verði í raun lægri en fram kemur í fjárlögum sem nemur stöðu eins stjórnanda. Þar með verður réttaröryggi íbúa í Vestmannaeyjum skert um leið og sjálfsákvörðunarvald og þekking er flutt á höfuðborgarsvæðið.

*Boðuð hefur verið breyting á embætti skattstjóra. Eins og hvað varðar sýslumannsembættið geri ég því ráð fyrir að liðurinn verði í raun lægri en fram kemur í fjárlögum sem nemur stöðu eins stjórnanda. Enn og aftur er sjálfsákvörðunarvald og þekking flutt á höfuðborgarsvæðið.

*Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja skorin niður um 46 milljónir. Merkir lokun á skurðstofu og gríðarlega skerðingu á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

*Ríkisstyrkur á flugi felldur niður. Merkir að flug til Eyja leggst af. Stórkostleg skerðing á þjónustu, áfall í ferðaþjónustu og 25 manns sem vinna beint við flug missa vinnuna

*Náttúrustofa Suðurlands (í Vestmannaeyjum) skorin niður um 7,1 milljón sem gerði það að verkum að segja þarf upp eina vísindamanninum í landinu öllu sem rannsakar sérstaklega lunda. Þetta er á sama tíma og sjófuglastofnar við Ísland hrynja.

*Safnliðir skornir niður. Listvinafélagið, handritin heim, ferðamál, fiskasafn, sögusetur og fleira allt skorið niður og starfsemi verður hætt. Að auki er hætt við að starfsemi Sigurgeirs ljósmyndara og fleira heyri sögunni til.

*Framlög Vestmannaeyjabæjar úr Jöfnunarsjóði lækkar um 245 milljónir. Mestu munar þar um ákvörðun ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála um að breyta úthlutarreglum viðbótarframlags þannig að fjármagni verði í auknummáli beint inn á gömul þenslusvæðin. Eina leiðin til að mæta þessu er segja upp fólki og skera niður þjónustu.

*Framlög til Hraunbúða, dvalarheimils aldraðra lækka um tæpar 19 milljónir. Ætlast til að skorið verði niður hjá hópi sem þegar býr við kröpp kjör af hálfu ríkisins.

*Framlög til Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum skert þannig að hætt verður að veita afburða nemendum í grunnskóla þjónustu. Slíkt er brot á grunnskólalögum en það virðist ekki skipta máli.

...þetta eru einungis örfá dæmi um niðurskurð ríkisins í Vestmannaeyjum

 

Þegar þið vegið og metið þau fjárlög sem þið eruð ábyrg fyrir gangvart okkur kjósendum ykkar í Vestmannaeyjum bið ég ykkur um að skoða þennan niðurskurð, rúmlega 1000 milljónir á tveimur árum, og líta m.a. til eftirfarandi liða í fjárlögum:

 

Sinfóníuhljómsveit Íslands 652 milljónir

Bókakaupasefna í Frankfurt 25 milljónir

Heimssýning í Shangahi 70 milljónir

Þróunarsamvinnustofnun Íslands 1643 milljónir

Jarðhitaskóli SÞ 232 milljónir

Varnamálastofnun Íslands 1197 milljónir

Jafnréttisstofa 66 milljónir

Heiðurslaun listamanna 50 milljónir

Sendiráð Íslands 2496 milljónir

Íslensk friðagæsla 320 milljónir

Tónlistarhús í Reykjavík 4433 milljónir

....lengi má áfram telja hvað sambærilega liði varðar. Liði sem sannarlega eru mikilvægir. Þurfi ég hinsvegar að velja milli þess að komast á skurðstofu eða á Sinfóníuhljómleika (652 milljónir) í nýju tónlistarhúsi í RVK (4433 milljónir) og hlusta á listamenn á heiðurslaunum (50 milljónir) þá er val mitt auðvelt. Ég vil frekar komast á skurðstofu.

 

Tilfinning mín er sú að það bitni hart á okkur að þegar ríkisstjórn sest niður til að ræða sín mál þá á Suðurkjördæmi engan fulltrúa við borðið. Til að bæta gráu ofan á svart þá á Suðurkjördæmi einungis einn fulltrúa í fjárlaganefnd, NV á þrjá og NA fjóra.

 

Að lokum minni ég ykkur á að nú þegar fundað hefur verið með nánast öllum sveitarstjórnum í kjördæmi ykkar þá hefur enn ekki orðið af fundi ykkar, þingmanna Suðurlands, með okkur bæjarfulltrúum í Vestmannaeyjum. Venjan er sú að falli fundur niður vegna ófærðar þá er sem fyrst reynt að koma nýjum fundi á. Þá ekki síst þegar jafn mikið liggur við og hér hefur verið greint frá.

 

Ég óska að lokum eftir viðbrögðum ykkar við því sem fram kemur hér að ofan. Svör verða send á héraðsfréttamiðla og aðra sem eftir því óska.

kv
Elliði Vignisson
bæjarstjóri Vestmannaeyjum

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.