Ávallt skal leitast við að fá hæsta verð fyrir aflann

9.Nóvember'09 | 15:08
Hagsmunaaðilar í Vestmannaeyjum; Sjómannafélagið Jötunn, Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, Útvegsbændafélag Vestmannaeyja og Útvegsbændafélagið Heimaey, mótmæla harðlega fyrirhuguðum breytingum á reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu á sjávarafla.
Greinargerð:
Ofantalin hagsmunssamtök telja að með þessum breytingum sé verið að skerða stórlega og jafnvel leggja af útflutning á ferskum fiski í gámum og þar með atvinnuréttindi sjómanna. Íslenskir sjómenn og útgerðir hafa um áratuga skeið flutt ferskan fisk á markaði erlendis, aðallega til Bretlands og Þýskalands.

Margar útgerðir og sjómenn þeirra hafa um langt árabil varið miklum tíma og fjármunum í að þróa og byggja upp þessa markaði. Orðspor viðkomandi skipa og áhafna þeirra er þekkt ytra vegna góðs hráefnis og þetta kunna fiskkaupendur að meta. Markaðir erlendis beinlínis hrópa á ferskan fisk og neytendur eru tilbúnir að borga vel fyrir þá góðu vöru sem okkar ferski fiskur er.

Í drögum að reglugerð um vigtun sjávarafla er boðað að siglingar fiskiskipa með ferskann fisk á erlendan markað leggist alfarið af.

Hagsmunaaðilar í Vestmannaeyjum minna á að skjótt skipast veður í lofti og með mjög skömmum fyrirvara gæti íslenska þjóðin þurft að nýta sér flutningsgetu fiskiskipaflotans með fisk á erlenda markaði. Því er með öllu ótækt að banna siglingar íslenskra fiskiskipa með fisk á erlenda markaði.

Ef af fyrirhuguðum breytingum verður eru þessir markaðir okkar í stórhættu og þar með er teflt í tvísýnu launum sjómanna og tekjum útgerða víða á landinu.

Þrjár leiðir eru boðaðar í fyrirhugaðri reglugerð um vigtun sjávarafla:

1. Heilvigtun, allur afli nettóvigtaður.
Þessi aðferð er óframkvæmanleg ef flytja á afla út í gámum. Fiskurinn þolir ekki hnjaskið og geymsluþol hans skerðist stórlega auk mikils kostnaðar og verðfalls vegna gæðarýrnunar.

2. Úrtaksvigtun A.
Þessi aðferð er einnig óframkvæmanleg. Ef skip er með 30 ílát (1 gám) þá þarf að taka 12 ílát í úrtaksvigtun. Geymsluþol fisks í þessum 12 ílátum, skerðist mjög mikið og aðferðin er einnig mjög dýr, þannig að virðisauki og gæði vörunnar skerðist stórlega.

3. Úrtaksvigtun B.
Með þessari aðferð má taka um 5% afla til úrtaksvigtunar, með því skilyrði að hvert einasta ílát sé brúttóvigtað. Það segir sig sjálft að í stórri verstöð eins og Vestmannaeyjum er þetta nánast óframkvæmanlegt.

Setjum sem svo að nokkur skip séu að landa sama daginn og að magnið sé um 2000 ílát. Þá þarf að taka 100 kör í úrtaksvigtun og brúttóvigta 1900 kör. Algerlega fráleit hugmynd, vegna kostnaðar og tímans sem fer í framkvæmdina. Einnig er fyrirsjáanlegt að ekki er til húsnæði í Vestmannaeyjum til að hýsa starfsemi af þessari stærðargráðu. Enn og aftur rýrist virði hráefnisins.


Einnig er ákvæðið um heildarvigtun afla sem er geymdur í krapa svo arfavitlaust að engu tali tekur. Þessi aðferð er notuð til að auka geymsluþol og gæði hráefnis. Margir hafa lagt út í mikinn kostnað við búnað til framleiðslu á krapa, einmitt til þess að skapa meiri virðisauka í greininni.

Þennan virðisauka og þann sem sjómenn og útgerðir hafa hægt og bítandi byggt upp með útflutningi á ferskum fiski og uppbyggingu markaða, á nú að loka fyrir í einu vetfangi.

Reynsla á vigtun á afla erlendis hjá þeim sem hafa til þess leyfi, hefur ávallt verið góð og er yfir allan vafa hafin, og í raun má segja að þar sé nákvæm þyngd fisksins sem fer utan fengin.

Ef ráðamenn þjóðarinnar ætla að loka alfarið á útflutning á ferskum fiski er hreinlegra að segja það beint út en ekki með reglugerðaræfingum og lagaflækjum.

Sjómannafélagið Jötunn, Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, Útvegsbændafélag Vestmanaeyja og Útvegsbændafélagið Heimaey minna á að í kjarasamningi sjómanna og Samtaka atvinnulífsins er ákvæði sem segir að ávallt skuli leitast við að fá hæsta verð fyrir aflann. Við frábiðjum okkur fyrirhugaðar breytingar á reglugerð nr. 224/2006. Þær koma aðeins til með að skerða tekjur og atvinnufrelsi sjómanna og útgerða.


Valmundur Valmundsson.                        Bergur Páll Kristinsson.
Sjómannafélagið Jötunn.                          Skipstjóra og stýrimannafélagið Verðandi.

Þórður Rafn Sigurðsson.                             Magnús Kristinsson.
Útvegsbændafélag Vestmannaeyja.              Útvegsbændafélagið Heimaey.

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).