Landsbyggðin þolir ekki frekari niðurskurð

6.Október'09 | 08:42
Rekstur ríkissjóðs er erfiður. Það skynja og skilja allir landsmenn. Seinustu ár hafa fjárlög ríkisins þanist út langt umfram það sem æskilegt hefur verið. Á milli áranna 2008 og 2009 varð 16% hækkun á fjárlögum og jukust þau úr 434 milljörðum í 507 milljarða, eða um 73 milljarða.
Mest varð aukningin í vaxtagjöldum ríkissjóðs, eða um tæp 60% og í utanríkisráðuneytinu, þar sem útgjöld jukust um 28%. Nú þegar ríkið stendur frammi fyrir samdrætti í tekjum er nauðugur sá kostur að draga saman í útgjöldum. Hjá því verður ekki komist. Stefna ríkisstjórnar er að skera niður um 63 milljarða í fjárlögum ársins 2010.

Erfitt verkefni
Enginn er öfundsverður af því að þurfa að taka ákvarðanir sem leiða til uppsagna starfsmanna og samdráttar í þjónustu. Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni þekkja þá raun og hafa fundið á eigin skinni. Á seinustu árum hafa mörg landsbyggðarsveitarfélög glímt við nákvæmlega þann vanda sem ríkið stendur nú frammi fyrir. Munurinn er þó sá að ríkið stendur frammi fyrir niðurskurði í kjölfar mesta þensluskeiðs Íslandssögunar. Niðurskurð á málaflokkum sem hækkað hafa um tugi prósenta seinustu ár í launaumhverfi sem leynt og ljóst keppti við vitleysu fjármálageirans. Sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni hafa hinsvegar mátt skera niður ár eftir ár. Samdráttur ofan í samdrátt án þess að hafa nokkurt fitulag til að skera af annað en lögbundna þjónustu.

Fitulagið liggur á höfuðborgarsvæðinu
Það er því mikið sanngirnisatriði að niðurskurðinum verði fyrst og fremst beitt á þær stofnanir og deildir þar sem aukningin hefur verið mest seinustu ár. Á það þarf vart að minna að rekstur ríkisstofnana á landsbyggðinni var víðast ekki aukinn í þenslunni. Þvert á móti. Á seinustu árum hefur ríkisstörfum í Vestmannaeyjum til dæmis fækkað verulega og þjónusta flutt nær höfuðborginni.

Dæmi um slíkt er loftskeytaþjónusta, vinnueftirlit, störf hjá Fiskistofu og ýmislegt fleira. Þenslan var á höfuðborgarsvæðinu og á meðan þingmenn og ráðherrar klipptu á borða við opnanir á nýju ríkishúsnæði, nýjum stofnunum og fögnuðu aukinni þjónustu á höfuðborgarsvæðinu, hertum við á landsbyggðinni sultarólina. Á meðan ríkisstörfum fjölgaði stórkostlega á suðvesturhorninu horfðum við landsbyggðarfólk á eftir opinberum störfum sem flutt voru í nýja steinsteypu í borginni, þar sem góðærið ríkti. Stjórnvöld kepptu við einkaaðila í byggingum fasteigna og fjölgun starfsmanna. Það er því verið að benda á hið augljósa þegar bent er á að nú þegar kreppir að þarf að draga mest saman á höfuðborgarsvæðinu, þar sem svigrúmið er mest, en ekki loka fámennum skrifstofum úti á landsbyggðinni sem verða vart opnaðar aftur þegar betur árar. Fitulagið liggur nánast allt á höfuðborgarsvæðinu og þar þarf að skera niður.

Fordæmd aðferðafræði
Ég vil leyfa mér að fordæma sérstaklega þá aðferðafræði semríkið grípur gjarnan til undir merkjum hagræðingar og felst í því að færa forræði hinna fáu opinberu stofnana sem eru á landsbyggðinni nær höfuðborginni. Allir sem að málinu koma vita að slíkt er fyrsta skrefið í að leggja niður þessar fáu stofnanir sem þó mynda þéttriðið þjónustunet í samfélagsgerð landsbyggðarinnar og stórauka lífsgæði íbúa. Þegar upp er staðið er heldur ekki um hagræðingu að ræða heldur eingöngu tilflutning á útgjöldum af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið.

Valdþjöppun
Landbyggðarþingmenn þurfa nú allir sem einn að taka þátt í því með sveitarstjórnarfólki og íbúum á landsbyggðinni að verjast þeirri ógn sem nú steðjar að. Ógn sem felst í því að embættismönnum í Reykjavík er falið að leggja niðurskurðartillögur fyrir ráðherra sína sem einnig eru meira og minna búsettir í Reykjavík. Landbyggðin á öll að leggjast eindregið gegn því að embætti skattstjóra og sýslumanna á landsbyggðinni verði lögð niður. Á sama hátt þarf að spyrna við fótum gegn þeirri valdþjöppun sem stefnt er að með hugmyndum um að einungis verði einn lögreglustjóri fyrir landið, einn héraðsdómstóll, einn tollstjóri o.fl. Það er ekki í anda valddreifingar og lýðræðis að völdin færist á fárra hendur.

Höfuðborgarkreppan
Íslendingar tóku ekki allir þátt í góðæri seinustu ára. Stór hluti landsmanna hagaði sínum málum á engan hátt öðruvísi í góðæri seinustu ára og ótrúlega margir horfðu á fasteignir sínar falla í verði. Á landsbyggðinni upplifðum við íbúafækkun ár eftir ár. Horfðum á eftir vinum og fjölskyldumeðlimum sogast til borgarinnar þar sem þeim buðust spennandi og vel launuð störf í þeirri hröðu uppbyggingu sem þar var. Þessi hluti íslensku þjóðarinnar sem undi sáttur við sitt í höfuðborgargóðærinu má nú sitja uppi með afleiðingar höfuðborgarkreppunnar svo sem þyngri greiðslur af lánum, hærra verð á nauðsynjavörum o.fl. Ríkið bítur hinsvegar höfuðið af skömminni með hugmyndum um tilflutning starfa, þjónustu og valds af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Niðurskurðarhnífnum þarf að beita þar sem þenslan var mest. Að beita landsbyggðina niðurskurði í ríkisrekstri er eins og að setja anorexíusjúkling í megrun

Höfundur er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.