Stefnan ein er skaðleg

28.September'09 | 08:40
Í ÞAU þúsund ár sem við Íslendingar höfum lifað á fiskveiðum og -vinnslu hefur aldrei ríkt eins mikil óvissa um framtíð atvinnulífs okkar. Aldrei hefur deilan um nýtingu sjávarauðlindarinnar og sjávarútveginn verið eins mikil og núna. Ógnir um eignaupptöku og hugsanlegt framsal nýtingarréttar til erlendra þjóða eru nú grár og helkaldur veruleiki.
Margir íbúar sjávarbyggða eru nú óttaslegnir og í þetta skipti ekki vegna náttúrulögmála heldur vegna mannaverka. Hin svokallaða fyrningarleið er ekki lengur pólitísk vangavelta heldur stefna ríkisstjórnar. Hún felur það í sér að 5% af aflaheimildum verða leystar til ríkisins og þeim deilt aftur út á „sanngjarnari máta". Hver sú sanngirni er veit ég ekki.

Ólík sýn á sjávarútveginn
Við sem lifum á fiskveiðum með einum eða öðrum hætti getum ekki litið hjá þeirri staðreynd að hluti þjóðarinnar er ósáttur við kvótakerfið. Meirihluti þjóðarinnar þekkir sjávarútveg einungis í gegnum fjölmiðla- og dægurmálaumræðu. Það þarf ekki að hlusta lengi eftir þeirri umræðu til að heyra sjálfskipaða sérfræðinga tala um kvótabrask, gjafakvóta, útgerðarmenn á vindsængum og arðræningja. Við íbúar sjávarbyggða höfum hins vegar allt annan veruleika fyrir augunum. Við sjáum harðduglega atvinnurekendur sem kappkosta að ráða til sín hæft starfsfólk í mikilvæg störf. Við sjáum unga menn velja sér sjómennsku að atvinnu, sækja sér menntun og leggja sig fram við að komast í góð pláss. Við sjáum skólakrakka komast í mikla vinnu í frystihúsunum. Við sjáum menn róa til fiskjar á öflugum bátum og nýtísku fjölveiðiskipum. Starfsmenn trúa sínum fyrirtækjum í tugi ára og jafnvel kynslóð eftir kynslóð. Iðnaðarmenn sérhæfa sig í þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki og já, við sjáum útgerðir sem handahafa kvótans taka virkan þátt í að byggja upp byggðarlög sem skara fram úr í þjónustu við bæjarbúa.

Kvótakerfið er ekki höfuðorsök byggðaröskunar seinustu ára
Hvernig má það vera að sveitarstjórnir í nánast öllum sjávarbyggðum hafi ályktað gegn sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarflokkanna? Mörg þeirra hafa jú glímt við neikvæða íbúaþróun og oft er því haldið fram að kvótakerfið sé uppspretta þeirrar búsetu röskunar sem orðið hefur seinustu tvo áratugi. Það hljómar þó óneitanlega hálf broslega í eyrum okkar Eyjamanna þegar því er haldið fram að kvótakerfið hafi valdið því að íbúum ýmissa sveitarfélaga hafi fækkað. Á seinustu 18 árum hefur búsettum Eyjamönnum fækkað um nærri 1.000 eða 20%. Á sama tíma hefur kvótastaða fyrirtækja í Vestmannaeyjum hins vegar stóraukist vegna veiðireynslu og kvótafjárfestinga. Nei, annað og meira þarf til að útskýra byggðaröskun seinustu ára.

Orka greinarinnar fer í að verjast áhlaupi stjórnvalda
Á seinustu árum höfum við á landsbyggðinni og þá ef til vill sérstaklega í sjávarbyggðunum verið að glíma við ímyndarvanda. Litið hefur verið á sjávarútveginn sem úrelta atvinnu forfeðranna og ungt fólk hefur frekar viljað höndla með verðbréf. Nú er tíðin önnur. Pótemkíntjöldin hafa fallið og áherslan færst á framleiðslugreinar. Tækifærin í greininni eru gríðarleg. Það væri því óskandi að við í sjávarbyggðunum gætum lagst á eitt við að byggja áfram upp framsækna atvinnugrein með jákvæða ímynd frekar en að verja allri orkunni í að verjast áhlaupi stjórnvalda að atvinnulífi okkar.

Landsbyggðin sogast inn í höfuðborgarkreppuna
Tilfinning okkar í sjávarbyggðunum er sú að sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar muni setja atvinnulíf okkar í útgerðarbæjunum í rekstrarvanda á örfáum árum og á skömmum tíma gera þau gjaldþrota. Ég veit hins vegar að stjórnmálamenn eru ábyrgir og vel gerðir. Þeir heyra raddir okkar í sjávarbyggðunum og sannast sagna þá trú ég því að þeir virði skoðanir okkar sem mann fram af manni höfum lifað í nábýli við sjávarútveginn. Vandinn er hins vegar sá að það er ekki bara framkvæmd fyrningaleiðarinnar sem veldur áhyggjum heldur er stefnan ein okkur skaðleg. Nú þegar erum við íbúar sjávarbyggða farnir finna skaðleg áhrif þessarar stefnu því útgerðir og vinnslur halda nú að sér höndum í öllum framkvæmdum og þróunarverkefnum vegna óvissunnar. Þannig sogast landsbyggðin af auknu afli inn í atvinnuleysi höfuðborgarkreppunnar. Kreppunnar sem við tókum ekki þátt í að skapa en sitjum nú uppi með afleiðingarnar af. Af hreinskilni og einlægni fullyrði ég að þessi stefna er þegar farin að valda okkur búsifjum. Við því verður þingheimur að bregðast.

Fylgt úr hlaði
Að lokum skal á það minnt og undir það tekið að fiskveiðistjórnunarkerfið er mannanna verk og mikilvægt að það sé sífellt til endurskoðunar en þó þannig að stöðugleika sé gætt, bæði fyrir fyrirtækin, starfsmennina og ekki síst íbúa sveitarfélaga sem eiga allt sitt undir. Vilji okkar í sjávarbyggðunum er að skapa vinnufrið um sjávarútveg, útgerð og fiskvinnslu þannig að horfa megi til lengri tíma. Hin sameiginlega sannfæring er að sjávarútvegurinn gegni lykilhlutverki í endurreisn hagkerfisins og það sé ólíðandi ábyrgðarleysi að ráðast að undirstöðum burðaráss íslensks atvinnulífs nú þegar þjóðin þarf á öllu sínu að halda.

Höfundur er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is