Lunda árið 2009 og draugurinn í Miðkletti

25.September'09 | 08:30

Georg Arnarson

Lundaballið er um helgina og markar það lok lundatímabilsins í ár,  síðustu pysjurnar eru að öllum líkindum komnar í bæinn og virðist fjöldinn vera svipaður og í fyrra eða um 500 pysjur .

Þegar árið er skoðað þá kom lundinn seinna en í venjulegu ári, varpið hófst líka seinna en í venjulegu ári en tók mikinn kipp um miðjan júní, enda gaus upp mikið af síli um það leytið við eyjar, en því miður kom gríðarlegt magn af makríl rétt á eftir sílinu sem varð til þess að meirihluti lundans afrækti pysjuna og í sumum tilvikum jafnvel eggin.

Það vakti athygli mína að sumum fannst töluvert vera af pysju núna í september, en nú þegar er ljóst að bæjarpysjan varð aðeins um 500 pysjur. Einnig vakti athygli hversu óvenju mikið var af skrofu í bænum, en að mínu mati skýrist þetta fyrst og fremst vegna ríkjandi suðlægra átta og er t.d. suðvestan áttin mjög góð vindátt fyrir skrofuna og pysjuna úr Ystakletti til að ná til bæjarins. Vegna þessa hef ég ákveðið að breyta reikistuðlinum í ár úr hálfum í heilan, sem þýðir að 500 pysjur sem eitt prósent af lundapysju úr öllum Vestmannaeyjaholunum þýðir að heildar pysjufjöldinn í ár hafi verið ca. 50 þúsund pysjur. Sumum þykir þetta kannski ekki svo slæmt, en það skal tekið fram að þetta er innan við 5% í venjulegu ári. Góðu fréttirnar eru þó þær að þar sem mér sýnist að heildar lundaveiðin í eyjum hafi aðeins verið um 4000 lundar, þá er þetta enn eitt árið sem lundaveiðar í eyjum eru sjálfbærar og í raun og veru veit ég ekki til þess, að nokkurn tímann hafi verið veitt meira heldur en pysjufjöldinn eða nýliðunin, samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir.

En hvað með framhaldið? Það er nú þegar ljóst, að þeir aðilar sem stunda rannsóknir á lundanum hér í eyjum og hafa frá upphafi þeirra starfa verið á móti öllum lundaveiðum, munu aldrei samþykkja neinar lundaveiðar, en svona sé ég þetta: Í Fréttablaðinu í gær er fjallað um rjúpnastofninn á Íslandi sem er talinn vera um 800 þúsund fuglar, þar er verið að fjölga veiðidögum, en á síðasta ári voru veiddir þar tæplega 60 þúsund fuglar. Í Færeyjum eru enn stundaðar lundaveiðar þrátt fyrir að lundastofninn þar í dag er sennilega ekki nema sambærilegur og í Heimakletti. Þar er einfaldlega farið á hverju ári í tvær litlar eyjar og stundum veiðist eitthvað, stundum veiðist ekki neitt en þar er einfaldlega hefðin látin ráða. Lundastofninn í Vestmannaeyjum er enn þann daginn í dag a.m.k. 5 milljónir og á Íslandi öllu nokkrir tugir milljóna, svo ef við gefum okkur það að leyft yrði að veiða í kannski tvær vikur kringum Þjóðhátíð næstu 10 árin, þá má reikna með að miðað við núverandi ástand og núverandi nýliðun, að veið yrði ca. 5-10 þúsund fuglar, sem gerir þá á 10 árum ca. 50-100 þúsund fuglar, eða töluvert minna heldur en veitt var í einu venjulegu ári hér á árum áður og ég verð að viðurkenna alveg eins og er, að ég hef hreinlega enga trú á því að slíkar veiðar myndu skaða stofninn.

Í ár eru 30 ár síðan ég fór í fyrsta skipti út í Miðklett og mér þykir það mjög dapurleg staðreynd að ég komst ekki í Miðklettinn í sumar. Þegar ég lít í kringum mig á þessa karla sem enn hafa gaman að þessari lundaveiði, þá er nokkuð ljóst að eftir 10 ár verður eitthvað farið að kvarnast úr hópnum og mér segir svo hugur, að ég muni sjálfur ekki labba með kippu á bakinu úr einhverju fjallinu, þó svo að það væri leyfilegt. Ég held að ráðamenn bæjarins ættu að hafa það í huga.

Eins og áður kom fram þá er lundaballið um helgina og við í veiðifélaginu Heimaey höfum látið taka frá borð fyrir okkur. Ég veit reyndar ekki hvort að ég kemst, enda vinna alla helgina. Einnig hefur gengið illa að finna helgi fyrir lundaball okkar á heimalandinu, en það er enn á dagskrá, en ég ætla að enda þetta lundauppgjör mitt á þessu ári með lítilli sögu frá þeim tíma, þegar ég lá í tjaldi úti í Miðkletti yfir veiðitímann.

Draugurinn í Miðkletti

Ég hef verið rétt um tvítugt og sagan gerðist í fyrstu viku ágústmánaðar. Ég hafði verið við veiði um daginn, en það var komið myrkur, ég var að fara í tjaldið til að sofa og rétt nýbúinn að slökkva ljósið í tjaldinu, þegar skyndilega heyrist einhver óhugnanlegasti hósti sem ég hef nokkurn tímann á ævinni heyrt. Ég stirðnaði upp, hlustaði af alefli og aftur eftir smá stund, þessi sami óhugnanlegi hósti og einhver aumingjaleg hálf hvíslandi rödd sagði: "Halló, er einhver þarna?" ekkert svar nema þessi óhugnanlegi, djúpi hósti. Ég skreið út úr tjaldinu skjálfandi á beinunum, sveiflaði ljósinu í kringum mig sem að lýsti akkúrat ekki neitt og aftur þessi aumingjalega rödd: "Halló, er einhver þarna?" Ekkert svar, en ég heyrði þó að hóstinn hafði sem betur fer fjarlægst. Mér datt helst í hug að einhver hefði verið að gera at í mér, en ýtti því strax frá mér, enda ekkert grín að þvælast lengst úti í fjalli í svarta myrkri. Ég skreið því aftur inn í tjaldið og náði loksins að sofna. Eftir að hafa vaknað um morguninn og borðað morgunmat sá ég að það var komið ágætis flug í einn af mínum uppáhalds veiðistöðum. Fór ég þangað og byrjaði að veiða. Skyndilega þar sem ég sat í veiðistaðnum kom þessi óhugnanlegi hósti rétt fyrir aftan mig. Grænn í framan snéri ég mér við og horfðist í augu í fyrsta skipti við drauginn í Miðkletti, sem sagði hátt og snjall: "Meeeeeeee"

Góða skemmtun allir á lundaballinu.

Meira seinna.

http://georg.blog.is

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is