Sveitarfélög gríðarlega skuldsett

25.Ágúst'09 | 15:15

vestmannaeyja Vestmannaeyjabær Heimaklettur

Skuldsetning sveitarfélaga hefur verið gríðarleg á síðustu árum og eru þau mörg hver orðin svo skuldsett að þau geta ekki ráðist í lágmarks framkvæmdir. Á þenslutímum létu sveitarstjórnarmenn það eftir sér að keppa við atvinnulífið um fjármagn og starfsfólk.  Lán voru tekin í erlendri mynt til að ráðast í góðærisverkefni svo sem listasöfn, knattspyrnuhús og sundlaugagarða.  Þegar kreppan skall svo á var ekkert borð fyrir báru í rekstri margra sveitarfélaga. 
Vextir af lánum voru þá orðnir stór útgjaldaliður og í sumum tilfellum er útlit fyrir tap af rekstri næstu árin að óbreyttu. Mörg sveitarfélög eru því tilneydd til að halda algerlega að sér höndum og fresta framkvæmdum og auka þar með við atvinnuleysi og dýpka kreppuna. Þá er víða þegar farið að bera á samdrætti í þjónustu.

Nú er svo komið að sveitarfélögin í landinu skulda yfir 130 milljarða króna. Þá eru ótaldar lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar utan efnahags sem gætu numið allt að 100 milljörðum króna. Erfiðust er staða sveitarfélaga á þeim svæðum þar sem þenslan var mest. Þannig er til dæmis Reykjavíkurborg einungis með framlegð upp á 2,5 milljarða króna sem er 4,1% af tekjum. Höfuðborgarsvæðið án Reykjavíkur er með neikvæða framlegð upp á 1,5 milljarð króna eða -3,9% af tekjum.

Eyjar.net leitaði til Vestmannaeyjabæjar eftir upplýsingum um skuldastöðu Vestmannaeyjabæjar. Heildarskuldir Vestmannaeyjabæjar án lífeyrisskuldbindinga eru 1.7 milljarður. Þar eru meðtaldar skuldir Vestmannaeyjahafnar upp á 383 milljónir og félagslega íbúðakerfisins upp á 523 milljónir. Skuldirnar skiptast þannig að einungis 6,24% lána bera hærri vexti en 5,5%. Það merkir að 93,77% af skuldum Vestmannaeyjabæjar bera lægri vexti en 5,5%. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að Vestmannaeyjabær hafi allt þetta kjörtímabil lagt höfuð áherslu á að greiða niður lán. Það sem af er kjörtímabils hefur Vestmannaeyjabær greitt niður skuldir fyrir 1,1 milljarð án þess að til lántöku hafi komið. "Við lögðum höfuðáherslu á að kaupa upp lánasöfn með háa vexti sem og erlend lán. Í dag skuldar Vestmannaeyjabær einungis í íslenskum krónum."

Elliði segir að staða Vestmannaeyjabæjar sé nokkuð góð núna hvað skuldastöðu varðar og stjórnist það fyrst og fremst af því að í góðærinu var hagrætt í eignasafni bæjarfélagsins. "Verðmætar eignir voru seldar á góðu verði og í stað þess að ráðast í framkvæmdir í samkeppni við atvinnulífið voru skuldir greiddar niður. Þá hefur einnig árað vel í atvinnulífinu hér í Eyjum seinustu ár og þegar vel fiskast njótum við öll góðs af. Þetta gerir okkur nú kleift að framkvæma svo fremi sem við aukum ekki rekstrarkostnað mikið." Elliði segir þó að glansmyndin sé því miður ekki fullkomin því lífeyrisskuldbindingar bæjarins sem safnast hafi upp á tugum ára séu miklar og samningurinn við Fasteign hf. frá því á seinasta kjörtímabili bindi Vestmannaeyinga á þungan klafa sem ekki verði mætt nema með aðhaldi í rekstri.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.