Árni Johnsen lætur ekkert hefta sig að láta gamminn geysa í leikhúsinu við Austurvöll

21.Ágúst'09 | 09:42
Og ekki er frammistaða hans verri en þeirra sem vilja taka sig miklu alvarlegar. Ég ligg í hláturkasti að hlusta á mörg ummæli hans frá í kvöld, þessi þingfundur var kostulegur, en Árni var einn af toppunum, öldudalirnir hjá Ólínu og Sigmundi Erni. Fantastísk fyndni Árna vék hvergi jafnlangt frá umræðuefninu og fortíðarþrá þessara tveggja, sem gersamlega gleymdu því á stórum köflum, að umræðuefnið var ríkisábyrgð vinstri flokkanna á Icesave!

Já, svartur húmor Árna er þó skemmtuninni skárri en það lygimáls-leikrit, sem Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir hafa keyrt á þessum fjölum í allt sumar án þess að trekkja að áhorfendur. Hún reyndi þó örþrifaúrræði í dag, þegar það gerðist í fyrsta sinn í Íslandssögunni, að hún héldi ræðu um Icesave! Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á þessu seinna um kvöldið; hingað til hefði Jóhanna aldrei talað úr ræðustóli þingsins um þetta mál að eigin frumkvæði, einungis aðspurð í stuttum svörum við fyrirspurnum. - Ásbjörn fær annars ávítur mínar HÉR, en verðskulduð meðmæli að auki. Nú má hins vegar enginn bregðast þjóðinni, en það gerði hann því miður þetta fimmtudagskvöld. Kannski hann standi sig betur á föstudag ... til fjár!

Hetja dagsins var Vigdís Hauksdóttir, sem brilljeraði í einni ræðu sérstaklega; missið ekki af því. Hún er eina mannsekjan á þingi, sem ég veit til að sé 'clear-headed' í þessu máli, eins og þeir myndu orða það klókindarefirnir brezku, sem léku æru þeirra Svavars og Indriða svo grátt í samningastarfinu í sumar. Vigdís ein talar um okkar lagalega rétt, sakleysi þjóðar og ríkis, meðan flestir aðrir vaða villu og svíma. Þó fær Höskuldur Þórhallsson tiltölulega háa einkunn hjá mér fyrir allgóða viðleitni, þar sem vantar samt augljóslega herzlumuninn (hann kýs frekar Icesave + Brusselviðmiðin heldur en sakleysi landsins að lögum), og svipað á við um þungavigtarboltann Einar K. Guðfinnsson, sýnist mér.

En aftur að snillingnum óstýriláta, Árna Johnsen. Hér eru fáein ummæli hans þetta kvöld:

"Stórt vandamál er, að Samfylkingin er full af glimmeri Evrópubandalagsins. ... Þetta glimmerlið. ... Samfylkingin samanstendur af bögglauppboði úr ýmsum sjoppum."

"Okkur varðar ekkert um NATO lengur." (Þessu er ég gersamlega ósammála.)

"... Norðmenn sem eru svo nízkir að þeir trúa ekki einu sinni á líf fyrir dauðann!"

"Við ætlum ekki í rauðvínspartýið í Brussel."

Hann ofgerir stundum sannleikanum í áherzlum sínum: "Evrópubandalagið hefur sýnt að það er mesta kúgunar- og heimsvaldasamband í sögu heimsins ... Sovétríkin voru bara vasaútgáfa."

"Jafnvel reyndir sjómenn í Vinstri grænum [Björn Valur], þeir lúffa eins og kellingar [fyrir Samfylkingunni]".

Svo var hann ávítaður fyrir orðbragð sitt af Ástu Ragnheiði og svaraði: "Virðulegi forseti, allt sem ég hef sagt er í lágmarki!"

Þá sagði hann að það versta í þessu máli væri óvissan, "óvissa sem öll er Íslands megin ... endalaus óvissa, þar sem hundraða milljóna þjóðir eru að hossast á íslenzkri þjóð." - Ásta Ragnheiður sló í bjölluna, þegar hún heyrði þetta, bað Árna að gæta tungu sinnar, og hann svaraði: "Það er VÆGT til orða tekið, virðulegi forseti!"

"Við verðum að verjast til síðasta manns að hætti Oddaverja og Haukdæla!"

"Við, sem höfum fylgzt með, vitum það, að Jóhanna hefur alltaf þráð að fólk sé fátækt, af því að þá veit hún, að það kýs hana!"

"... og ekkert pjattmal, Sigmundur Ernir!"

Samt var mjög margt málefnalegt í ræðu og andsvörum þessa hressilega þingmanns, eins og Höskuldur Þórhallsson fann sig tilknúinn að taka fram - og einnig hún Vigdís.

Árni endaði þessa ræðu sína á mjög alvarlegri nótu, sem mætti hljóma sem lengst í höfðum þingmanna: "Það er grundvallaratriði, að við vitum, hvernig ÞEIR [Hollendingar og Bretar] túlka þessa fyrirvara." En um það er ekkert vitað, nema hvað því var sagt lekið út í fyrrakvöld á Eyjuna, að þeir ætli að samþykkja fyrirvarana. Lygisögn er það einber, það er ég 100% viss um. Og hvers vegna skyldu það vera, samkvæmt fréttum, enn einar "leynilegu upplýsingarnar" af hálfu stjórnvalda okkar, hvað Bretar og Hollendingar hafa sagt um "fyrirvarana"? Situr Össur á púðurtunnu?

Þvílíkt rugl, að nokkur maður trúi því, að þeir ætli sér að búa til slíkt fordæmi fyrir aðrar þjóðir (m.a. austurevrópskar), sem skulda þeim og eru í greiðsluvanda. Og til hvers börðust Bretar og Hollendingar þá svona harkalega, af fullkominni óbilgirni, fyrir öllum sínum ávinningi í Icesave-samningahópnum?! 

Einhver óvæntasti fulltrúi glópabjartsýninnar í greindu efni í þessari 2. umræðu um Icesave reyndist vera hagfræðingurinn Lilja Mósesdóttir. Sú fekk nú að finna til tevatnsins, þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir saumaði að henni og sýndi fram á, hvernig Bretar gætu bara uppskorið engar greiðslur ýmis árin og svo uppgjöf allra eftirstöðva árið 2024! - og hvað hefði Lilja fyrir sér, þegar hún héldi, að þessu tækju Bretar bara vel? Samt hélt sú síðarnefnda áfram að staglast á því, að "fyrirvarar sem tryggja, að við getum haldið áfram að borga, hljóta að vera Bretum og Hollendingum til góðs"!

Og þá spyr ég: Hvað þá um öll hin erlendu lánin okkar?! Þau eru ekki með neinum "fyrirvörum"! Bretar og Hollendingar geta þá sagt sér, að ef þeir samþykkja fyrirvarana, þá látum við bara HIN lánin ganga fyrir og getum svo ekki borgað þeim sjálfum! 

Allt þetta fyrirvaratal er einhver mesta steypa sem ég hef heyrt af á ævinni. Það trúir ekkert alvörufólk á svona ævintýri, alla vega ekki hann Steingrímur Joð. Ég veit ekki með Jóhönnu ...

http://jonvalurjensson.blog.is/

 

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Nýtt hlaðvarp/podcast fer í loftið á fimmtudaginn 4. mars nk. Nýr þáttur kemur út á hverjum fimmtudegi og verður hlaðvarpið aðgengilegt á Eyjar.net ásamt helstu veitum svo sem Spotify og Youtube. Fylgstu með...

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).