Tek við af Árna Johnsen

15.Ágúst'09 | 09:16

Hemmi Hreiðars Hermann Hreiðarsson

Hermanni Hreiðarssyni líður vel í Bretlandi og segir ekki koma til greina að spila fótbolta annars staðar í heiminum úr því sem komið er. Eyjapeyjanum frækna fannst freistandi að fara að berjast um titla í Skotlandi þegar toppliðin þar sýndu honum áhuga í sumar. Hann er þó ánægður að hafa valið Portsmouth á ný. Í viðtali við Kristján Hrafn Guðmundsson, sem birtist í helgarblaði DV 7. ágúst, segir Hermann frá fótboltalífinu, dálæti sínu á íslenskum sundlaugum og hvaða hlutverk hann vill fá þegar hann getur loksins mætt aftur á Þjóðhátíð.

Tennisleikarinn frægi John McEnroe lítur út eins og maður sem lét sig lítið varða um hvort hann ynni eða tapaði leikjunum sem hann spilaði þegar hann er borinn saman við knattspyrnumanninn Hermann Hreiðarsson. Þessi þrjátíu og fimm ára gamli Eyjamaður hefur svo sem ekki verið sá sigursælasti á knattspyrnuvellinum í gegnum tíðina, en þegar hann gengur inn á knattspyrnuvöll er enginn af hinum leikmönnunum tuttugu og einum sem er reiðubúinn að leggja meira á sig til að vinna leikinn en Hermann.

Hápunkturinn á ferli Hermanns hingað til var vafalaust bikarmeistaratitillinn sem hann vann með Portsmouth í fyrravor, auk frábærs árangurs í deildinni, þar sem kappinn var einn af lykilmönnum liðsins. Gengið á síðasta tímabili var hins vegar ekki nærrum því jafn gott og var Portsmouth ekki fjarri því að falla úr úrvalsdeildinni eftir afleitt gengi framan af vetri. Hermann þurfti þá að sætta sig við að verma bekkinn í flestum leikjum, nokkuð sem landsliðsfyrirliðinn hefur ekki átt að venjast á sínum ferli, en það breyttist líkt og gengi liðsins eftir að knattspyrnustjórinn Tony Adams fékk reisupassann.

Skotland kitlaði
Samningur Hermanns við Portsmouth rann út í sumar en hann framlengdi hann nýverið um eitt ár. Áður höfðu nokkur lið sýnt vararmanninum sterka áhuga, meðal annars Celtic og Rangers sem hafa einokað Skotlandsmeistaratitilinn síðasta aldarfjórðunginn, og segir Hermann alveg hafa verið inni í myndinni hjá sér að skipta um lið.

„Já já, en það kom í rauninni aldrei formlegt tilboð. Þetta voru viðræður sem fóru aldrei almennilega af stað. Það var verið að bíða eftir möguleikum á sölu á öðrum leikmönnum og fleira og því fóru viðræðurnar aldrei lengra en það," segir Hermann þar sem hann er staddur á æfingasvæði Portsmouth þegar blaðamaður ræðir við hann símleiðis síðastliðinn fimmtudag. Vegna meiðsla sem hann hlaut nýverið á læri hefur Hermann ekki æft með liðinu síðustu daga en hleypur þess í stað sjálfur.

„En það voru líka klúbbar í deildinni fyrir neðan sem voru með tilboð upp á tveggja ára samning," heldur Hermann áfram eftir smá þögn. „Ég ákvað samt að vera áfram hjá Portsmouth, enda búinn að eiga góðan tíma hérna. Fyrra árið var stórkostlegt og eftir áramót á síðasta tímabili frábært. Ég byrjaði einhverja tuttugu leiki og var þátttakandi í tuttugu og þremur leikjum þannig að maður spilaði svo sem helling á síðasta „seasoni".

Vildi ekki fara út í óvissuna
Hermann segir að nokkur lið utan Bretlands hafi einnig borið víurnar í sig. „Já já, en það kom aldrei til greina að fara frá Bretlandi. Maður er búinn að vera hérna það lengi að maður vill ekki fara að rífa upp alla fjölskylduna og fara út í óvissuna annars staðar."

Hefði það verið mikið átak? „Það hefði svo sem ekki verið eitthvað vandamál en það var alltaf fyrsti kostur að vera áfram. Eins og ég segi hef ég átt hér góðar stundir, Portsmouth er skemmtilegur klúbbur og ég er í fínu formi og vil því helst vera áfram í bestu deild í heiminum. Mér finnst ég hafa getu í það og því vill maður vera í þessari deild eins lengi og maður getur. Þótt tilboð frá klúbbum í neðri deildum hafi verið betri þá lét maður viljann fyrir því að vera í efstu deild ráða för."

Hermann hefði getað farið til annars liðs frítt þar sem samningur hans við Portsmouth var útrunninn. Spurður hvort hann hafi tekið á sig launalækkun við undirritun nýja samningsins segist Hermann ekki vilja ræða sín launamál. „En ég var mjög sáttur við samninginn. Ef maður hefði ekki verið það hefði maður bara farið eitthvað annað."

Er engin kreppa í fótboltanum? „Ja, það virðist alla vega ekki mikil kreppa hjá Real Madrid og Manchester City," segir Hermann. Blaðamanni virðist ljóst að hann fái ekki meira upp úr honum um þessi mál og lætur því þar við sitja.

Í kolvitlausu boxi
Meiðslin sem Hermann glímir nú við eru ekki stórvægileg. Tognun aftan í læri sem hann nældi sér í í æfingaleik við smáliðið Eastleigh.

„Þetta er mjög lítið þannig séð. Fyrsta gráða bara. Ég er byrjaður að jogga og ætti að geta verið farinn að æfa af krafti með liðinu seinni partinn í næstu viku. Ég ætla að sjá til hvernig ég verð á sunnudaginn áður en ég útiloka eitthvað með landsleikinn," segir Hermann og vísar þar til vináttulandsleiks Íslands og Slóvakíu næsta miðvikudag. Þremur dögum seinna er svo á dagskrá fyrsti leikur Portsmouth í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu sem framundan er. Liðið mætir þá Fulham og er einnig óvíst hvort Hermann verði orðinn klár fyrir hann.

„Þetta er svona „fiftí-fiftí" með báða leiki. Þetta eru svolítið lúmsk meiðsli, þér líður kannski ágætlega en svo finnurðu fyrir þessu þegar þú ferð í snarpa snúninga og eitthvað. Annars held ég að ég hafi aldrei tognað áður þannig að ég þekki þetta ekki nógu vel."

Þrátt fyrir að reiða sigurviljann í þverpokum hefur Hermann húmor fyrir sjálfum sér þegar honum verður á inni á vellinum. Hann segir meiðslin hafa gert vart við sig þegar hann var að reyna eitthvað sem hann á kannski að láta vera, inni í vítateig mótherjanna.

„Já, ég var í kolvitlausu boxi og þá fer náttúrlega allt í vitleysu," segir Hermann og hlær. „Ég var að setja boltann fyrir hægri fótinn, þóttist ætla að skjóta en þá kemur hafsentinn og rennir sér og ég kippi löppunni upp úr tæklingunni. Þá fann ég aðeins til í lærinu. Svo kemur hinn hafsentinn og ég hoppa upp úr þeirri tæklingu líka. Og þá fann ég aðeins meira."

Kaup milljarðamærings ganga hægt
Hermann segir að ef Portsmouth, sem misst hefur nokkra öfluga leikmenn í sumar, bæti ekki við sig tveimur til þremur sterkum leikmönnum á næstunni gæti tímabilið orðið afskaplega erfitt. „Ég veit bara jafn mikið og þú hvort eitthvað sé að gerast í þeim málum. Staðan er svolítið óljós því kaupin hafa ekki endanlega gengið í gegn hjá nýja eigandanum. Á meðan svo er er ekki hægt að kaupa menn, bara hægt að fá lánaða eða á „free transfer"."

Þessi nýi eigandi Portsmouth heitir Sulaiman Al Fahim, milljarðamæringur frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en hann keypti liðið af öðrum ríkisbubba, Rússanum Alexandre Gaydamak. Al Fahim, sem er einungis þrjátíu og tveggja ára gamall, var áður í eigendahópi Manchester City og ku auðæfi hans veruleg. Því ættu leikmannakaup ekki að stranda á of léttri pyngju. Hermann segir að eitthvað verði hins vegar að fara að gerast því tíminn sé orðinn knappur.

„Mönnum finnst þetta taka svolítið langan tíma. Við erum með ágætis hóp en ekki nógu breiðan. Þetta eru allt hörkulið í þessari deild þannig að þú þarft bæði sterkan og breiðan hóp. Mótið er handan við hornið og eigandinn þarf því að fara að sýna og sanna að hann hafi eitthvað bakland."

Harry Redknapp var framkvæmdastjóri Portmouth þegar liðið vann FA-bikarinn vorið 2008 sem var einungis í annað sinn sem það hefur tekist. Fyrra skiptið var árið 1939. Liðið endaði jafnframt í áttunda sæti í deildinni sem er besti árangur þess frá upphafi. Redknapp hafði þá byggt upp gríðarlega gott lið, enda fengið töluvert fjármagn til þess, en nokkrum mánuðum seinna var hann farinn frá félaginu. Tottenham bauð Redknapp stjórastöðuna á White Hart Lane í október sem hann þáði.

„Þetta var of gott tækifæri fyrir hann til að sleppa því," segir Hermann sem kunni afar vel við Redknapp. „Kannski fann hann að það væru farnir að minnka peningarnir í klúbbnum og fannst meira spennandi að taka starfið hjá Tottenham. Þar var nóg af peningum og hann gat möndlað sitt eigið lið og fengið leikmenn sem hann vildi fá. Í fyrrasumar var hann að lenda í því að þurfa að selja nokkra leikmennn frá Portsmouth og ekki fá að klára það sem hann byrjaði á. Þetta var því kannski skiljanlegt á vissan hátt."

Missti af leik gegn AC Milan
Tony Adams, fyrrverandi fyrirliði Arsenal og enska landsliðsins, var í framhaldinu ráðinn framkvæmdastjóri Portsmouth en hann hafði verið aðstoðarmaður Redknapps. Hermann fékk lítið sem ekkert að spila undir stjórn Adams og er á honum að heyra að enski varnarjaxlinn fyrrverandi hafi alls ekki verið tebolli að sínu skapi.

„Menn hafa misjafnar skoðanir á hlutunum eins og gengur. Það var náttúrlega búið að kaupa tvo vinstri bakverði sem voru búnir að vera að spila eitthvað þegar hann tók við. [Nadir] Belhadj er frábær leikmaður en bara allt öðruvísi en ég. Það sem maður var kannski svekktastur með var að fá ekki sénsinn einu sinni þegar spilað var á móti liðum sem spila meiri kraftabolta, eins og Stoke og fleiri lið. Ég þarf ekki að spila alla leiki en að spila engan leik er ég auðvitað hundfúll með. Ég fékk ekki einu sinni tækifæri til að spila mig út úr liðinu. Árið áður hélt vörnin hreinu í tuttugu og fjóra leiki og við slógum með því met með nánast sömu vörninnni allt árið. Mér fannst þetta því ósanngjarnt en hann var auðvitað að reyna að stilla upp besta liðinu að hans mati."

Portsmouth spilaði gegn AC Milan í Evrópukeppninni á meðan Hermann var utan við liðið. Spurður hvort það sé svekkelsi sem eigi eftir að plaga hann út ævina, að fá ekki tækifæri til að leika gegn því sögufræga liði, segir Hermann svo ekki vera.

„Ég er búinn að vera í atvinnumennsku nokkuð lengi og í rauninni aldrei verið á bekknum, og eins og ég hef sagt áður þá er bekkjarsetan ekki eitthvað sem maður hefur gaman. En maður verður auðvitað bara að halda haus og halda áfram að æfa af krafti og vera klár þegar kallið kemur. En ég hef svo sem spilað á móti Inter Milan bæði á heimavelli og San Siro þannig að ...," segir Hermann og hlær.

„I´m saying really good things about you."
Portsmouth náði sér aldrei á strik undir stjórn Adams sem varð til þess að hann var rekinn í febrúar síðastliðnum. Þá tók við liðinu Paul nokkur Hart, sem stjórnaði Notthingham Forest 2001 til 2004 og Chesterfield í þrjú ár undir lok níunda áratugarins, en hefur þess utan ekki mikla reynslu af þjálfun. Honum tókst þó ætlunarverkið: að bjarga Portsmouth frá falli í vor. Liðið endaði í fjórtánda sæti í úrvalsdeildinni en útlitið var mjög svart þegar Hart tók við af Adams.

Hermann ber nýja stjóranum vel söguna. „Það er almenn ánægja með hann hérna. Hann gerði líka vel eftir að hann tók við liðinu. Klúbburinn er ennþá í efstu deild og það var það sem skipti mestu máli úr því sem komið var."

Að því sögðu heyrist rödd á bak við Hermann og hann biður blaðamann að bíða augnablik. Í ljós kemur að sá sem vill ná tali af Eyjamanninum er umræddur Hart. Hermann segir að hann sé í viðtali við dagblað. „Icelandic newspaper?" heyrist spurt um hæl. Þegar Hermann jánkar því spyr Hart hvort hann sé ekki jákvæður í sinn garð í viðtalinu. „I´m saying really good things about you." Í kjölfarið gefur stjórinn grænt ljós á að Hermann haldi spjallinu áfram.

„Þú verður að skrifa mjög fallega um stjórinn svo hann sekti mig ekki," segir Hermann og getur varla varist smá hlátri. Eru mjög harðar reglur hjá félaginu? „Já, maður er sektaður fyrir allan andskotann hérna," segir Hermann og hlær. „En það er bara flott mál. Það er gott að hafa aga á hlutunum."

Hinn íslenski Ryan Giggs
Það stendur ekki á svari þegar blaðamaður spyr hinn hálffertuga landsliðsfyrirliða hvort hann sé enn að bæta sig sem fótboltamaður. „Engin spurning. Þú ert alltaf að bæta við þig reynslu og þú lærir eitthvað örlítið nýtt nánast á hverjum degi, hvort sem er í varnarleik eða sóknarleik."

En hver ætli sé galdurinn við að vera í svona góðu formi ennþá, hlaupandi kolbrjálaður út um allan völl eins og átján ára unglingur að kafna úr metnaði fyrir að sanna sig?

„Líklega bara að halda hungrinu. Þegar ég mæti á æfingasvæðið vil ég vinna hvern einasta leik, hvort sem það er ungir á móti gömlum, Englendingar á móti útlendingum eða hvað sem er. Maður hendir út úr sér snuðinu og fer að grenja ef maður tapar. Svo um leið og maður stígur yfir hvítu línuna á laugardegi klukkan þrjú og flautan gellur - það er ... það er alltaf mikið adrenalínkikk," segir Hermann og lætur hugann augljóslega reika á meðan hann segir frá. „Með fullan völl og níutíu mínútur til að vera í slagsmálum við frábæra leikmenn. Það er bara frábært. Og þetta eru náttúrlega þvílík forréttindi að vinna við að mæta á æfingu, hlaupa eins og fífl og sparka í fótbolta. Ég held að þessi ánægja sem maður fær út úr því fari aldrei úr mönnum með gott keppnisskap."

Má segja að þú sért hinn íslenski Paulo Maldini?
„Ég ætla nú ekki alveg að setja mig í þann „bracket"," segir Hermann hlæjandi. „Ég ætla ekki að dirfast til þess. En ég er í fínu standi alla vega ennþá. Ég er samt bara þrjátíu og fimm ára þannig að ég á aðeins í land með hann. Ég myndi kannski frekar segja að ég sé hinn íslenski Ryan Giggs. Við erum svipað teknískir," segir Hermann og skellir aftur upp úr. Bætir svo við skömmu seinna í alvarlegri tón. „Nei nei, maður þakkar bara fyrir að vera ennþá í fínu standi og reynir að vinna í því að halda sér í góðu formi."

Langþráður stöðugleiki hjá landsliðinu
Við snúum spjallinu að landsliðinu. Í undanriðlinum fyrir HM á næsta ári hefur liðið spilað sjö leiki og fengið úr þeim fjögur stig. Skiljanlega er Hermann ekki sáttur við þá uppskeru.

„Við erum náttúrlega hundfúlir með hana. Það sem við getum þó kannski horft á er að við náðum loksins stöðugleika. Við vorum inni í öllum þessum leikjum. Fyrri hálfleikurinn á móti Hollandi heima var reyndar slakur en við spýttum alla vega í lófana og sýndum okkar rétta andlit í seinni hálfleik. Og í leikjunum fimm þar á undan skildi oft lítið á milli," segir Hermann og bætir við að honum hafi fundist jákvætt að menn í hverri einustu stöðu vissu nákvæmlega hverju þeir ættu að skila í hverjum leik. „Svo finnst mér við byrjaðir að halda boltanum tölvuvert betur en við höfum gert áður. En það vantaði gjarnan herslumuninn."

Þegar Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari tók við liðinu fyrir tæpum tveimur árum gerði hann Hermann að fyrirliða en Eiður Smári Guðjohnsen hafði þá borið fyrirliðabandið í nokkur ár. Spurður hvort hinn aukni stöðugleiki í leik liðsins hafi eitthvað með fyrirliðaskiptin að gera segist Hermann ekki geta dæmt sig um það.

„En það kom þarna ný þjálfari með breyttar áherslur. Óli kom gríðarlega sterkur inn í starfið og náði að koma til skila því sem hann ætlaði að sér. Ég held að það hafi haft mikið að segja. Hann hefur líka gefið ungum mönnum tækifæri og flestir eða allir hafa staðist þær væntingar og ábyrgð sem þeir hafa fengið."

Þú spilar á móti stórstjörnum eiginlega allt árið, hefur haft mjög færa menn sem þjálfara í Englandi og kemur svo í landsleiki þar sem er þjálfari sem enga reynslu hefur af alþjóðlegum fótbolta fyrir utan nokkra Evrópuleiki með FH. Einhverjir gætu ímyndað sér að það sé svolítið skrítið.

„Óli hefur verið í bransanum lengi og hefur sýnt og sannað að hann er toppþjálfari. Það sem hann hefur líka gert með landsliðið frá því hann tók við því sýnir að hann er mjög hæfur. Svo lengi sem það er á borðinu skiptir ekki máli hvað þú heitir eða hvar í heiminum þú ert búinn að skapa þér nafn."

Engin Þjóðhátíð í þrettán ár
Hermann kemur alltaf í heimsókn til Íslands þegar hann fær frí frá boltanum á sumrin. Þá segist hann fyrst og fremst nota tímann til að hlaða batteríin og njóta lífsins. „Það er alltaf frábær tími. Ég geri eins og margir Íslendingar á sumrin, fer upp í sumarbústað, fer í golf og hitti vinina og ættingjana. Og fer auðvitað til Eyja. Svo sýni ég krökkunum sundlaugarnar. Við förum í sund nánast á hverjum degi."

Spurður hann hafi svona gaman af því að fara í sund eða hvort það sé ungviðið sem ráði algjörlega ferðinni segir Hermann þetta vera sameiginlegan áhuga. „Bæði krakkarnir og ég höfum mjög gaman af því að fara í sund. Maður saknar þess pínulítið að kíkja í laugarnar þegar maður er úti. Það er ekki sama hefð fyrir þessu í Englandi og ekki nálægt því jafn flottar laugar," segir Hermann sem á tvær dætur með konu sinni, Rögnu Lóu Stefánsdóttur: Thelmu Lóu , níu ára, og Ídu Marín, sjö ára. Fyrir átti Ragna Lóa tvö börn, Stefán Kára Sveinbjörnsson, tuttugu og þriggja ára, og Elsu Hrund Bjartmarz, sextán ára.

Eyjamaðurinn hressi þarf eins og allir atvinnumenn í fótbolta að færa ýmsar fórnir. Ein af þeim er að sleppa Þjóðhátíð um hverja Verslunarmannahelgi því hún fer fram þegar mjög skammt er þangað til tímabilið hefst í enska boltanum. Hermann segir það bara eitthvað sem hann hafi lært að lifa við síðustu tólf ár.

„Þegar ég gekk til liðs við Crystal Palace 1997 fór ég út á fimmtudeginum fyrir Verslunarmannahelgina þannig að síðasta Þjóðhátíð sem ég upplifði var árið 1996. Auðvitað er meiriháttar að vera á Þjóðhátíð en þarna tók bara annað við í mínu lífi. En maður veit svo sem út á hvað þetta gengur og fær nóg af sögum frá fjölskyldunni. Það kemur bara aftur að hátíðinni seinna."

Verður þá ekki tekin einhver svaka bomba þegar þú getur byrjað að mæta aftur þegar ferlinum lýkur?
„Jú, þá tek ég við brekkusöngnum. Árni Johnsen verður bara að hætta," segir Hermann og hlær. „Ég á reyndar eftir að læra á gítar en þetta er allt að koma."

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.