Þjóðhátíðin, lundinn og smá Icesave

13.Ágúst'09 | 08:14

Goggi gella

Ég ætla að byrja á að óska ÍBV og Þjóðhátíðarnefnd til hamingju með vel heppnaða Þjóðhátíð. Mér þótti snúningurinn á sviðinu sem og uppsetning sjónvarpskjána einstaklega vel heppnað og ljóst að mikið var lagt í að gera hátíðina og svæðið sem best út garði í ár og ber að þakka það.
Lundaveiðitímabilinu í ár lauk í síðustu viku og er orðið nokkuð ljóst að ekki verður tekið undir óskir mínar og annarra veiðimanna um að lengja tímabilið. Í sjálfu sér fór þetta nákvæmlega eins og ég hafði spáð, þ.e.a.s. að með því að úthluta aðeins 5 veiðidögum og festa þá í almanakinu, þá var aðeins veiði í tvo daga af þessum fimm og hefði þurft, miðað við mína reynslu, amk. 10 daga til að geta hugsanlega veitt í 5.

Ég sagði frá í minni síðustu grein, furðulegum skoðunum sumra og m.a. frá manni, sem sagðist geta séð það með því að horfa yfir brekkurnar, þá sæi hann að þetta væri allt saman gamall lundi og ætti þess vegna ekki að leyfa veiðar. Ég hitti þennan sama mann á föstudagskvöldið og hafði hann á orði við mig, að miðað við það gríðarlega lundaflug sem var þá um kvöldið í dalnum, þá ætti einfaldlega að leyfa mönnum að veiða út tímann, frá og með þeim tíma. Merkilegt hvað sumir eru fljótir að skipta um skoðun. Reyndar var gríðarlegt lundaflug frá seint á miðvikudagskvöldi í síðustu viku, alveg fram á aðfaranótt sunnudags, en þá hvarf lundinn og hefur ekki sést síðan, en ætti að koma upp í kvöld.

Jói Ben á Portlandinu (eina snurvoðabátnum í Eyjum) kom að máli við mig um helgina og var ekkert yfir sig hrifinn af þeirri hugmynd minni að banna snurvoðaveiðar og vildi fá að vita, hvaða sannanir ég hefði fyrir því að snurvoðin væri að drepa sílin. Í sjálfu sér hef ég að sjálfsögðu engar sannanir, enda hefur þetta ekki verið rannsakað, eftir því sem ég veit best. Smábátasjómenn hinsvegar, þekkja það af reynslunni að svæðið þar sem snurvoð hefur verið dregin yfir eru undantekningarlaust algjörlega lífvana í langan tíma á eftir og þar fæst enginn fiskur í jafnvel nokkrar vikur á eftir. Hinsvegar langar mig að benda á það, að fjaran á móti eyjunum var opnuð fyrir snurvoð 2007 vegna þess að útgerðarmenn snurvoðabáta sögðust ekki eiga möguleika á að ná sínum ýsukvótum annar staðar. Núna hinsvegar, liggur fyrir ákvörðun sjávarútvegsráðherra um niðurskurð á ýsukvótum um 40% og finnst mér þá ekki spurning um það að auðvitað á þá um leið að loka þessu svæði sem var opnað 2007, eða amk. svæðinu frá sandagrunni í vestri og amk. að sandahrauni í austri og gefa þannig fuglalífinu hugsanlega meiri séns á að bjarga sér, því að eins og ég hef skrifað áður, mér er sagt að síli hrygni í sandinum og þegar snurvoðin er dregin eftir sandinum, þá losni um hrognin og þau farist. Eigum við ekki að láta fuglalífið í Eyjum að njóta vafans?

Hitt vandamál lundans, að mínu mati, er allur þessi makríll við eyjar og er alveg með ólíkindum að horfa á torfurnar í höfninni og að það sé bannað að veiða makrílinn. Ég er alveg sannfærður um að makríllinn sé mikill skaðvaldur fyrir fuglalífið í Eyjum og var ég m.a. að skoða athyglisverðar myndir og upplýsingar inni á vef www.hbgrandi.is, sem komu fram á Eyjafréttum í síðustu viku, þar sem m.a. eru tekin sýni úr makríl, þar sem m.a. fundust loðna og vottur af bæði síli og síld. Þarna held ég að sé komin sönnunin fyrir því, hver ástæðan er ef pysjan verður lítil eða léleg í ár. Allur þessi makríll er einfaldlega búinn að éta allt ætið frá fuglinum og alveg ljóst, að ef hér væru fuglarannsóknarmenn með eitthvað vit í kollinum, þá myndu þeir að sjálfsögðu koma þessum upplýsingum til sjávarútvegsráðherra og styðja þar með við kröfu Eyjamanna um að fá að veiða makrílinn sem er hér um allan sjó.

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með allri þessari umræðu um Icesave og ESB, en ég get þó orðað það eins og ég hef gert áður að ég er á móti inngöngu í ESB, enda tel ég möguleika okkar á að halda sérstöðu okkar varðandi sjávarútvegs og landbúnaðarmál nánast vonlausa. Varðandi Icesave hinsvegar, þá er ég á móti því að borga skuldir útrásarvíkingana, en ég get þó ekki neitað því, að mér finnst ennþá vanta töluvert upp á af upplýsingum, hversu miklar heildar skuldirnar eru, hversu miklar eignir eru þar á móti og ekki hvað síðast og síst, hverjar afleiðingarnar yrðu ef við neituðum að borga?

Meira seinna.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.