Sunnlensk sveitarfélög leggst gegn fyrningaleiðinni

22.Júlí'09 | 14:22

Elliði Vignisson

Andstæða við boðaða fyrningaleið ríkisstjórnar hefur verið sterk í sjávarbyggðum allt frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð.  Nú þegar hafa flestar sjávarbyggðir lagst gegn þessum hugmyndum og bæjarstjórn Vestmannaeyja kallaði leiðina einróma ”beina aðför að atvinnulífi í Vestmannaeyjum.”

Á seinasta fundi sínum fjallaði stjórn samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, SASS, sérstaklega um fyrningaleiðina.  Elliði Vignisson bæjarstjóri á sæti í stjórn SASS og sagði hann að fyrir stjórnarfundinn hafi verið fundur með þingmönnum Suðurlands þar sem fyrningaleiðin var meðal annars til umræðu.  "Það vakti þar -eins og reyndar í umræðunni almennt- athygli mína, hversu einangruð Samfylkingin virðist vera í þessu máli.  Svo einkennilega vill líka til að einn helsti málsvari þessarar leiðar í röðum Samfylkingarinnar er þingmaður Suðurlands, uppalin hér í Eyjum.  Ég hreinlega skil ekki hvernig það getur farið saman að þykjast vera að gæta hagsmuna Vestmannaeyja og ráðast í orðum og gjörðum gegn því sem allir kjörnir sveitarstjórnarmenn hér í Eyjum telja hagsmuni samfélagsins." 

Stjórn SASS fjallar um málið

Elliði segir að hann hafi lagt fram ályktun um málið á stjórnarfundi SASS að loknum fundi með þingmönnum.  "Það urðu góðar og málefnalegar umræður um þetta mál í stjórninni enda ná samtökin frá Þorlákshöfn og Hveragerði í vestri til Hornafjarðar í austri og því 15 sveitarfélög innan starfssvæðisins. Í stjórn eru fulltrúar allra flokka og hagsmunir samfélaga ólíkir enda spannar rófið allt frá hreinræktuðum landbúnaðarhéruðum yfir til sveitarfélaga sem lifa eingöngu á fiskveiðum og vinnslu eins og hér í Eyjum.  Eftir umræðu og smávægilegar breytingar var ályktun mín samþykkt" segir Elliði.

Þegar farið að skaða
Í ályktun SASS segir ma. "...byggðarlög hafa einnig bent á að stefna ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum séu nú þegar farin að valda skaða í sjávarbyggðum enda halda fyrirtækin að sér höndum í því óvissuástandi sem ríkir.  Boðuð stefna eykur atvinnuleysi og skaðar íbúa í sunnlenskum sveitarfélögum eins og víðar.  Því hvetur stjórn SASS ríkisstjórn til að gefa sem fyrst út yfirlýsingu þess efnis að horfið verði frá boðaðri fyrningarleið.  Einungis þannig er hægt að afstýra frekari skaða.".  Elliði segist taka heilshugar undir þetta enda hafi Eyjamenn þetta fyrir augunum.  "Stövarnar og útgerðir hafa frestað öllum framkvæmdum sem hægt er að fresta.  Það dettur eingum í hug að mála húsið sitt eða byggja við það ef ríkisstjórn hefur það að stefnu sinni að rífa það í pörtum." Aðspurður um gildi þess að samtök eins og SASS álykti gegn fyrningaleið segir Elliði að slíkt hljóti að hafa áhrif.  "Þetta eru sterk skilaboð til þingmanna okkar.  Með þessu eru heildar hagsmunasamtök allra sveitarfélaga á suðurlandi, með þátttöku allra stjórnmálaflokka búin að leggjast gegn þessari stefnu.  Ef það dugar ekki til að sína þingmönnum suðurlands fram á að þetta sé gegn hagmunum kjósenda þeirra þá er illa komið fyrir flokkum sem ganga fram í nafni sanngirnis og samræðustjórnmála."

Ályktun SASS er sem hér segir:

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga varar sterklega við svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi og telur hana skaðlega fyrir atvinnulíf sjávarbyggða.

Sveitarfélög á starfssvæði SASS byggja m.a. grundvöll sinn á sjávarútvegi og felst styrkur útgerðarinnar í fjölbreytileika veiða og vinnslu. Bein störf í sjávarútvegi á starfssvæði SASS eru ríflega 1600 og eru sjávarútvegsfyrirtæki kjölfesta sjávarbyggða.  Öllum má því vera ljóst að ef hriktir í stoðum sjávarútvegarins, þá hefur það róttæk áhrif á alla samfélagsgerð þar.  Kjölfesta atvinnulífs er skilyrði fyrir því að  þróun, nýsköpun og nýjar atvinnugreinar fái þrifist.

SASS vísar til umfjöllunar um  nýja úttekt Deloitte sem bendir á að verði fyrningaleiðin farin munu sjávarútvegsfyrirtæki verða gjaldþrota á fáum árum.  Enn fremur kemur þar fram að slíkt yrði til þess að miklar skuldir myndu við það lenda á ríkisbönkunum og óvíst yrði með framtíð þeirra.


Nú þegar hafa tugir sjávarbyggða varað mjög eindregið við boðaðri fyrningaleið ríkisstjórnar. Þessi sömu byggðarlög hafa einnig bent á að stefna ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum séu nú þegar farin að valda skaða í sjávarbyggðum enda halda fyrirtækin að sér höndum í því óvissuástandi sem ríkir.  Boðuð stefna eykur atvinnuleysi og skaðar íbúa í sunnlenskum sveitarfélögum eins og víðar.  Því hvetur stjórn SASS ríkisstjórn til að gefa sem fyrst út yfirlýsingu þess efnis að horfið verði frá boðaðri fyrningarleið.  Einungis þannig er hægt að afstýra frekari skaða.


Stjórn SASS hvetur ríkisstjórn Íslands til að vinna með hagsmunaaðilum og sveitarfélögum í landinu að því að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið þannig að sanngirni sé gætt. Sanngirnin er ekki fólgin í því að setja fyrirtæki og sveitarfélög í rekstrarvanda. Fiskveiðistjórnunarkerfið er mannanna verk og stjórn SASS telur mikilvægt að það sé sífellt til endurskoðunar en þó þannig að stöðugleika sé gætt, bæði fyrir fyrirtækin, starfsmennina og ekki síst íbúa sveitarfélaga sem eiga allt sitt undir. 

Vilji stjórnar SASS er sá hinn sami og kemur fram í ályktunum þeirra tuga sjávarbyggða sem ályktað hafa gegn fyrningarleið ríkisstjórnar.  Viljinn er að skapa vinnufrið um sjávarútveg þannig að horfa megi til lengri tíma. Hin sameiginlega sannfæring er að sjávarútvegurinn gegni lykilhlutverki í endurreisn hagkerfisins."

 

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.