Róðrar og lundinn, hver græðir mest?

21.Júlí'09 | 08:00

Goggi gella

Mikið búið að róa í þessari viku og mikið búið að fiska, eða upp undir 10 tonn svo fram undan er að fara aftur niður á fjórar fætur fyrir kvótaeigendum í von um að fá að veiða eitthvað meira.
Mikill lundi hefur verið við eyjar að undanförnu og nokkuð ljóst að veiðistofn lundans er mættur á svæðið. Í fréttum Bylgjunnar í fyrradag var talið að lundastofninn í eyjum hafi einu sinni verið talinn vera 5 milljónir og að ákveðið hefði verið að veiðidagar í ár verði 5 í staðinn fyrir 7 á síðasta ári. Þetta er að sjálfsögðu rangt (sé þetta líka inni á eyjar.net) veiðar voru leyfðar í 30 daga á síðasta ári og lundastofninn í Vestmannaeyjum hefir alltaf verið talinn vera a.m.k. 5-6 milljónir lunda og miðað við magnið sem hefur verið á ferð við eyjar að undanförnu, þá er þar engin breyting þar á, sama hvað fuglafræðingar segja. Þessi ákvörðun um að leyfa veiðar aðeins í 5 daga er afar dapurleg og í raun og veru hreinlega heimskuleg og ekki ósvipað rugl og þetta svokallaða strandveiðikerfi, þar sem fyrirfram er ákveðið hvaða daga má róa og ekkert tillit tekið til veðurfars og á sama hátt er nokkuð ljóst að það verður ekki lundaveiði alla þessa 5 daga og í versta falli jafnvel engan.

Það vakti athygli mína fréttir um það, að allur lundinn væri orpinn og það væri egg í hverri einustu holu. Merkilegt nokkuð, í byrjun júní fór Erpur Snær hamförum í öllum fjölmiðlum landsins og meira að segja erlendis, þar sem hann lýsti því yfir að útlit væri fyrir að lundavarpið hefði misfarist og yrði jafnvel lítið eða ekkert í ár. Núna hins vegar heyrist ekki bofs frá honum um þessar jákvæðu fréttir og mér þótti merkilegt að heyra það í vikunni að sjálfur yfir lundarannsóknarmaðurinn væri stunginn af í sumarfrí á þessum mikilvægasta tíma ársins varðandi lundarannsóknir.

Ég tók eftir því um daginn að andstæðingar lundaveiða tala gjarnan um lundaveiðimenn sem hagsmunaaðila þegar kemur að lundaveiði og er ég gjarnan stimplaður sem slíkur, en merkilegt nokkuð, ef ég skoða síðustu viku út frá mínu sjónarmiði miðað við þann lunda sem var í síðustu viku og vindáttir, þá hefði ég sennilega, miðað við mína þekkingu og reynslu af lundaveiðum) hugsanlega getað náð í 3-400 lunda í vikunni og fengið fyrir það kannski 50 þúsund krónur ca. en á sama tíma er ég búinn að fiska fyrir upp undir milljón, svo ekki held ég að hægt sé að segja að þetta snúist um aurinn að mínu mati, enda hafa lundaveiðar alltaf í mínum huga snúist um forréttindi og frí, hins vegar er mjög athyglisvert og kemur mér ekki á óvart að heyra það að þessir svokölluðu lundarannsóknarmenn séu afar vel borgaðir og það sumir hverjir á launum allan ársins hring við þessa vitleysu. En ég endurtek, það er ekkert ánægjulegra heldur en að geta gengið á fjöll í eyjum og veitt einhverja fugla, svo eðlilega er ég óhress með að það hafi verið slegið af í ár. Í sjálfu sér væri það í lagi ef ástæðurnar væru nægar, en ég tel svo ekki vera, enda er gríðarleg lundaveiði allstaðar annarstaðar á landinu. Ég skora því á bæjarstjórn Vestmannaeyja að leyfa veiðar eftir Þjóðhátíð ef útlitið með pysjuna verður gott um það leytið. Reyndar fer ég sjálfur í frí upp á land eftir Þjóðhátíð, en það er mikill fjöldi manna sem hefur mikla ánægju af þessari þjóðaríþrótt okkar eyjamanna, lundaveiðinni, og miðað við magnið sem sést hefur að undanförnu, þá tel ég að lundinn hafið fengið að njóta vafans.

Meira seinna.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%