Nýdönsk hjálpar ÍBV

20.Júlí'09 | 08:34

fótbolti

Þannig er mál með vexti að markvörðurinn Elías Fannar Stefnisson hefur tekið upp á því að leika á gítar í búningsklefanum við góðar undirtektir samherjanna. Elías segir raunar að félagar hans hafi átt hugmyndina að uppátækinu en Elías treður reglulega upp sem trúbador á skemmtistaðnum Volcano-kaffi.

Þessa upphitun hafa Eyjamenn stuðst við í síðustu tveimur leikjum, gegn FH í bikarkeppninni og Keflavík í Pepsídeildinni og er það mál manna að liðið hafi einmitt sýnt sparihliðarnar í báðum leikjum. Morgunblaðinu lék forvitni á að vita meira um þetta sniðuga uppátæki:

,,Þetta var bara fyrir slysni. Við vorum að fá okkur kaffi fyrir leikinn gegn FH og sáum gítar sem einhver hafði skilið eftir í Týsheimilinu. Strákarnir ýttu á mig að koma með gítarinn niður í búningsklefa og spila. Ég var nú ekkert hrifinn af því og hreyfði ekki við gítarnum en svo komu þessir vitleysingar með gítarinn inn í klefa og létu mig spila. Þeir voru hrifnir af þessu og þetta myndaði létta stemningu," sagði Elías þegar Morgunblaðið ræddi við hann um málið að loknum leiknum gegn Keflavík.

Hjálpaðu mér upp
Spurður hvort hann spili Eyjalögin rómuðu þá segist Elías taka við óskalögum: ,,Jú við tökum einhver Eyjalög en annars eru þetta alls kyns lög. Til dæmis ,,Hjálpaðu mér upp" og „Fram á nótt" með Nýdönsk," sagði Elías. Blaðamaður veltir því fyrir sér hvort hljómborðsleikarinn í Nýdönsk, Jón Ólafsson, átti sig á því að hann sé að hjálpa ÍBV í fallbaráttunni. Jón er ástríðufullur Þróttari sem kunnugt er og eru þeir í sömu baráttu og Eyjamenn.

Fyrirliðinn vill fá Bjartmar
Elías segir fyrirliðann Andra Ólafsson vilja heyra Bjartmar Guðlaugsson: ,,Áðan spilaði ég ,,Týnda kynslóðin" fyrir Andra fyrirliða. Hann er rosalega hrifinn af því en strákarnir biðja bara um einhver lög sem þeir eru hrifnir af og við spilum þangað til við erum kallaðir út í leik. Gerum þetta einnig í hálfleik þegar Heimir er búinn að tala við okkur," sagði Elías og á þar að sjálfsögðu við þjálfarann Heimi Hallgrímsson en Elías segir Heimi ekki hafa sett sig upp á móti spilamennskunni:

,,Hann hvatti mig nú bara til þess að mæta með gítarinn. Hann er hrifinn af þessu. Það er náttúrlega óvenjulegt að vera með gítar inni í klefa en þetta myndar stemningu því menn klappa með og syngja. Kannski er þetta eitthvað sem virkar fyrir okkur," sagði Elías og frammistaða liðsins í síðustu tveimur leikjum bendir einmitt til þess.

Skilja ekkert í íslensku lögunum
,,Ég held að við förum ekki að bakka út úr þessu núna. Við höldum alla vega áfram með þetta á heimavelli. Ég veit nú ekki hvort ég fari að ferðast með gítarinn til Reykjavíkur en kannski reddar maður sér gítar þar." Sex erlendir leikmenn eru í liði ÍBV á þessari leiktíð. Þrír Bretar og þrír frá Úganda. Hvernig hafa þeir tekið þessu? ,,Þeir skilja ekkert í þessu því við tökum íslensk lög en þeir klappa með og brosa. Kannski prófa ég að taka Oasis fyrir Englendingana," bætti Elías við en hann hefur tekið þátt í söngkeppni framhaldskólanna fyrir Framhaldskólann í Vestmannaeyjum.

Hent 15 ára út í djúpu laugina
Elías hefur leyst Albert Sævarsson af í marki ÍBV í síðustu tveimur leikjum. Þó Elías sé einungis 18 ára gamall þá er hann ekki beinlínis blautur á bak við eyrun þegar kemur að efstu deild. Einhverjir knattspyrnuáhugamenn muna kannski eftir því að honum var hent út í djúpu laugina í 17. umferð árið 2006 aðeins 15 ára gömlum. Eyjamenn áttu þá í höggi við ÍA á Akranesi í miklum fallslag: ,,Ég hef alltaf haft bullandi áhuga á boltanum en þegar maður fær svona tækifæri 15 ára gamall þá kveikir það auðvitað enn frekar í manni. Ég hef nú ekki spilað marga leiki með meistaraflokki en hef verið í þessu í þrjú ár og því ekkert mál fyrir mig að koma inn í liðið. Ég þakka Heimi bara fyrir að hafa gefið mér tækifæri og vona að framhald verði á," sagði hinn geðþekki markvörður og trúbador Eyjamanna, Elías Fannar Stefnisson.

ÍBV tekur á móti Fram í 12. umferð úrvalsdeildarinnar á morgun og þarf svo sannarlega á stigum að halda í erfiðri fallbaráttunni en Eyjamenn eru næstneðstir í deildinni.

Í hnotskurn
» Elías Fannar Stefnisson er 18 ára markvörður hjá ÍBV og hefur varið mark liðsins í undanförnum tveimur leikjum.
» Eyjamenn taka á móti Fram á morgun og þurfa á stigum að halda en þeir eru næstneðstir í úrvalsdeildinni.

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is