Smádýralíf blómlegt í Surtsey

18.Júlí'09 | 18:09

Surtsey

Hægt hefur á landnámi nýrra plöntutegunda í Surtsey en smádýralíf hefur hins vegar eflst og fundust nokkrar nýjar tegundir. Smádýralífið hefur aukist ár frá ári með vaxandi gróðri, samkvæmt frétt á vef Náttúrufræðistofnunar.

Líffræðingar fóru í sinn árlega leiðangur til Surtseyjar dagana 13.-16. júlí 2009. Að þessu sinni voru þrír menn frá Náttúrufræðistofnun Íslands í leiðangrinum, auk þátttakenda frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrustofu Suðurlands, Hafrannsóknastofnuninni og Matís.

Í leiðangrinum var gróður og fuglalíf eyjarinnar kannað, skordýrum safnað, öndun og ljóstillífun í gróðri mæld, útbreiðsla þörunga og dýra í fjörum könnuð og sýnum safnað af örverum sem lifa við óvenjulegar aðstæður í Surtsey.

Leiðangurinn var farinn í samvinnu við Surtseyjarfélagið og Umhverfisstofnun.

Mikið safnaðist af smádýrum í gildrur og háf en sýnin þarfnast frekari greiningar. Ljóst er þó að nokkrar nýjar tegundir hafa borist til eyjarinnar. Þeirra á meðal er frætíta (af ættbálki skortítna) sem er ófleygt skordýr. Ertuygla, á lirfustigi, fannst einnig í fyrsta skipti og var hún á haugarfa. Einnig fannst hnoðakönguló í fyrsta sinn. Allmörg þistilfirðildi sáust í ferðinni en þau hafa borist til landsins frá suðlægari slóðum.

Fuglalíf í eynni virtist í svipuðu horfi og síðustu ár. Í máfavarpinu voru talin liðlega 200 pör af svartbak, sílamáf og silfurmáf en mest var af svartbak og sílamáf. Mikið var einnig af fýl, teistu og ritu í varpi. Af landfuglum hafa snjótittlingur, maríuerla og þúfutittlingur komið upp ungum. Hrafnsparið sem verpti í Surtsey annað árið í röð hafði komið upp einum af fimm ungum sínum sem voru í hreiðrinu í vor.

Nokkrar aðrar tegundir fugla sáust í eynni, en af þeim vöktu 12 krossnefir mesta athygli. Þeir héldu sig á norðurtanganum þar sem þeir sóttu æti í fjöruarfabreiður.

Að þessu sinni fannst 61 tegund háplantna á lífi í eynni og hafði þeim fækkað um tvær frá síðasta ári. Engir nýir landnemar komu í leitirnar en gróður heldur þó stöðugt áfram að þéttast og færast út. Í máfavarpinu á suðurhluta eyjarinnar eru það einkum tegundirnar túnvingull, vallarsveifgras og baldursbrá sem eru í mestri sókn.

Á sendnu landi við jaðar varpsins og utan þess hafa tegundirnar holurt, melskriðnablóm og kattartunga aukist mikið. Mosar virðast einnig hafa aukist að þekju, einkum á hraunklöppum í máfavarpinu þar sem mikilla áburðaráhrifa gætir frá fuglunum. Ljóstillífun og jarðvegsöndun var mæld í föstum rannsóknareitum í misgrónu landi. Mikill munur var á virkni eftir þéttleika gróðurs.

 

Frétt Náttúrufræðistofnunar

Vefmyndavél í Surtsey

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Ég vil gerast félagsmaður í Krabbavörn

17.September'19

Hver félagsmaður skiptir félagið miklu máli. Ef þið hafið áhuga á að gerast félagsmenn þá endilega fyllið út eyðublaðið (smelltu hér). Krabbavörn er góðgerðarfélag sem styður við og styrkir þá félagsmenn sem greinast með krabbamein og eiga lögheimili í Vestmannaeyjum. Ár hvert leita u.þ.b. 10 nýir einstaklingar til félagsins eftir styrkjum og um 25 einstaklingar fá einhverskonar fjárstuðning frá félaginu á hverju ári. Árgjaldið er aðeins kr. 2500,-

Vilt þú ná til Eyjamanna?

17.Ágúst'19

Þá er Eyjar.net rétti staðurinn til þess. Sendu okkur línu á auglysingar@eyjar.net - og við aðstoðum þig að finna góða lausn fyrir þig og þitt fyrirtæki.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%