Við Vestmannaeyjar sást talsvert minna af síli en við Vík

14.Júlí'09 | 08:31

Vestmannaeyjahöfn

SANDSÍLALEIÐANGUR Hafrannsóknastofnunar er hálfnaður þetta sumarið. Búið er að safna gögnum við Ingólfshöfða og frá Vestmannaeyjum að Vík. Í dag verður rannsakað á Faxaflóa og síðan haldið í Breiðafjörð. Leiðangrinum lýkur á föstudaginn kemur. Þá tekur við úrvinnsla gagna. Reiknað er með grófum niðurstöðum í næstu viku og nákvæmri niðurstöðu síðar.
Þetta er fjórða sumarið sem Hafrannsóknastofnun rannsakar sandsíli við landið sunnan- og vestanvert. Stofn sandsílis hefur verið að veikjast allt frá síðustu aldamótum. Líklega er afrán helsta ástæða þess og við það bætist að árgangar 2005 og 2006 voru mjög lélegir.

Valur Bogason, útibússtjóri Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum sem stýrir rannsókninni, sagði að sér sýndist í fljótu bragði að 2007 árgangurinn væri uppistaðan í því sem fékkst við Vestmannaeyjar-Vík og Ingólfshöfða. Eftir er að aldursgreina sýnin svo að um áætlun er að ræða.

„Við fengum talsvert af síli frá Pétursey að Vík, það mesta sem við höfum fengið til þessa," sagði Valur. Heldur minna fannst við Ingólfshöfða en á Víkinni.

Við Vestmannaeyjar sást talsvert minna af síli en við Vík. Valur sagði það jákvætt að nú sáust þar fleiri árgangar en í fyrra og eitthvað fannst við Eyjar af seiðum frá í vor. Valur sagði þeim sýnast að uppistaðan þar væri 2007-árgangurinn líkt og við Vík og líklegt að sílin frá í vor væru afkvæmi þess árgangs að mestu. Útlit er fyrir að nýliðun hjá sandsílinu á þessum slóðum í fyrra hafi ekki verið jafn mikil og 2007.

Elsta síli sem Valur hefur séð var átta ára gamalt. Sandsílið byrjar hrygningu eins árs. Verulega dregur úr fjölda í árgangi sandsíla eftir að þau ná fjögurra ára aldri því árgangarnir étast fljótt upp.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.