Valsmenn unnu Eyjamenn 2-0 í bragðdaufum leik

23.Júní'09 | 08:27
Valur hafði betur gegn ÍBV, 2-0, í áttundum umferð Pepsi-deildar karla á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda í kvöld.  Pétur Georg Markan skoraði fyrra mark Vals eftir átta sekúndna leik og Ólafur Páll Snorrason bætti við öðru marki rúmum sjö mínútum síðar.
Eftir frísklegar upphafsmínútur róaðist talsvert yfir leiknum, Valsmenn réðu ferðinni meira og minna í fyrri hálfleik en tóku afskaplega litla áhættu í leik sínum, en Eyjaliðið var frískara í síðari hálfleik og hefði með smá heppni uppskorið mark eða mörk.


Leikur Vals og ÍBV fór fjörlega af stað og líklega hafa áhorfendur á Vodafone-vellinum orðið þess heiðurs aðnjótandi að horfa á Pétur Georg Markan setja met; hann skoraði eftir aðeins átta sekúndna leik og óstaðfestar heimildir herma að enginn hafi verið fljótari að skora mark í efstu deild karla á Íslandi. Pétur, sem var í byrjunarliði Vals í fyrsta sinn á leiktíðinni, nýtti sér aulaskap í vörn ÍBV, vann boltann af varnarmanni við vítateiginn og komst inn á teiginn vinstra megin og skoraði með góðu skoti framhjá Alberti Sævarssyni í Eyjamarkinu. Þessi frábæra byrjun hafði góð áhrif á Valsliðið, sem lék glimrandi vel fyrstu tíu mínútur leiksins og þeir bættu við marki á níundu mínútu þegar Ólafur Páll Snorrason skoraði gott skallamark eftir sendingu Helga Sigurðssonar. 2-0 á níundu mínútu og mikið fjör, en eftir þetta annað mark Valsmanna róaðist mjög yfir leiknum.

 

Valsmenn réðu ferðinni lengstum í fyrri hálfleik, en eftir mörkin tvö gerðust þeir varkárir í leik sínum og voru heldur ólíklegir til að bæta við mörkum. Eyjamönnum sóttist það illa að búa sér til marktækifæri og það var því nokkur léttir þegar Þorvaldur Árnason dómari flautaði til leikhlés.

 

Eyjamenn voru mun frískari í síðari hálfleik og sú ákvörðun Heimis Hallgrímssonar að setja Tonny Mawejje inná fyrir Andrew Mwesigwa frískaði talsvert upp á leik liðsins. Eyjamenn léku á köflum ágætlega sín á milli á meðan Valsmenn virtust leggja á það ofuráherslu að halda fengnum hlut. Gestunum gekk reyndar illa að skapa sér færi og í raunninni gafst aðeins ástæða til að stinga niður penna einu sinni í síðari hálfleik, en þá átti fyrirliðinn Andri Ólafsson skot yfir úr ágætu færi.

 

 

Með sigrinum í kvöld færðust Valsmenn upp í þriðja sæti Pepsi-deildar karla, þeir hafa nú 16 stig eftir 8 leiki, jafnmörg stig og Stjarnan. Valsmenn hafa verið að sanka að sér stigum með varfærnum leik í síðustu umferðum, þeir léku að vísu glimrandi vel fyrstu tíu mínúturnar eða svo og sýndu þá hvers þeir eru megnugir.

Eyjamenn sitja sem fyrr í 10.sæti Pepsi-deildarinnar með 6 stig, einu meira en Þróttur og tveimur meira en Fjölnir. Eyjamenn voru taktlausir í fyrri hálfleik, mark Péturs Markan virtist slá þá algjörlega út af laginu, en þeir bitu hins vegar í skjaldarrendur og sýndu oft á tíðum ágæt tilþrif í síðari hálfleik.

 

 

----------

 

Lið Vals í kvöld var þannig skipað að Haraldur Björnsson stóð í markinu og aðrir leikmenn voru Reynir Leósson, Atli Sveinn Þórarinsson, Pétur Georg Markan, Baldur Bett, Helgi Sigurðsson, Ian Jeffs, Bjarni Ólafur Eiríksson, Ólafur Páll Snorrason og Marel Baldvinsson.

Varamenn Vals voru Kjartan Sturluson, Steinþór Gíslason, Hafþór Ægir Vilhjálmsson, Einar Marteinsson, Baldur Aðalsteinsson (kom inná fyrir Pétur Georg Markan á 79.mín.), Guðmundur Steinn Hafsteinsson og Viktor Unnar Illugason.

 

Lið ÍBV var þannig skipað að Albert Sævarsson stóð á milli stanganna og aðrir leikmenn voru Christopher Clements, Matt Garner, Þórarinn Ingi Valdimarsson, Andri Ólafsson, Yngvi Magnús Borgþórsson, Andrew Mwesigwa, Bjarni Rúnar Einarsson, Arnór Eyvar Ólafsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson og Ajay Leitch-Smith.

Varamenn ÍBV voru Pétur Runólfsson (kom inná fyrir Arnór Eyvar Ólafsson á 32.mín.), Viðar Örn Kjartansson (kom inná fyrir Bjarna Rúnar Einarsson á 74.mín.), Tonny Mawejje (kom inná fyrir Andrew Mwesigwa á 45.mín.), Augustine Nsumba, Gauti Þorvarðarson, Ingi Rafn Ingibergsson og Elías Fannar Stefnisson.

sport.is

 

 

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Lumar þú á grein?

11.Janúar'19

Endilega sendu okkur hana á eyjar@eyjar.net. Eyjar.net - fyrir alla. 

Eyjar.net mælir með Skálakoti

19.Júní'20

Skammt austur af Seljalandsfossi leynist frábær hótelgisting og margvísleg afþreying. Sjón er sögu ríkari. Skálakot - þegar gera á vel við sig.