Meira um lundann (að gefnu tilefni)

22.Júní'09 | 08:35

Georg Arnarson

Var að horfa upp í Heimaklett núna áðan með sjónaukanum, mikið lundaflug austast í klettinum og fyrir ofan efri göngustíg, en lítið á Kleifunum. Kannski gott dæmi um þær breytingar sem orðið hafa síðustu ár, því að eftir að Eiðis svæðið fór að byggjast upp og umferðin þar að aukast með tilheyrandi hávaða og látum, þá hefur lundinn greinilega hopað undan ofar og austar í klettinum, en eins og nýlegar myndir hér á bloggsíðunni hjá mér úr suðurfjöllunum sýna, þá er engin breyting þar.

Mér finnst svolítið furðulegt að horfa á þessi vinnubrögð náttúrufræðistofu suðurlands í þessum svokölluðu lunda rannsóknum. Það er verið að vakta örfáar holur til að fylgjast með því hvort að lundinn verpi og sjá síðan hvernig pysjunni reiðir af, sem er í sjálfu sér ágætt, en fyrir mig er vandamálið alveg augljóst. Fæðuskortur er stærsta vandamál fuglastofnana hér í eyjum, en því miður virðast þessir fuglafræðingar hvorki hafa tíma né áhuga á að beina rannsóknum sínum í þá áttina, en svona til upprifjunar, þá er staðan svona að mínu mati: Sílið hrygnir á tímabilinu nóv-jan, grefur hrognin og sig sjálft ofaní sandinn og þar þurfa hrognin að liggja í friði í 4 mánuði. Vandamálið undanfarin 3 sumur er að mínu mati það, að makríllinn sem núna flæðir eftir suðurlandi, sem og síldin að einhverju leiti, éta þessi hrogn og smáseiðin að einhverju leiti, en stærsta vandamálið er að mínu mati opnun fjörunnar fyrir snurvoð. Snurvoðin er dregin eftir sandinum og rótar honum upp, losar þar með um hrognin, sem þar með farast. Ef við setjum þetta í samhengi við síðustu 3 ár, þá sjáum við það að 2006 er fyrsta árið þar sem verulega bar á pysjudauða og að lundinn og pysjan átti erfitt uppdráttar. 2007 hinsvegar virtist ástandið vera mun skárra, en mér sýnist að afleiðingarnar af 2006 hafi orðið til þess að mikið af lundanum ákvað að verpa ekki 2007, en það litla sem að þó var komst ágætlega á legg og var pysjan mjög vel gerð 2007. Í okt. 2007 ákveður þáverandi sjávarútvegsráðherra að opna alla fjöruna norður úr eyjum fyrir snurvoð með þeim afleiðingum, að sumarið 2008 þegar upp undir 70 % af lundanum verpir og pysjan skríður úr eggi í júlí og lundinn fer að reyna að ná í svokallað 0 síli, þá er það einfaldlega ekki til staðar enda búið að drepa það með snurvoð. Þetta verður að sjálfsögðu til þess, að meirihlutinn af pysjunni sl. sumar drepst úr hungri. Tek það fram að þetta eru að sjálfsögðu mínar skoðanir á þessu máli. Framhaldið er óskrifað blað, en það er ljóst að enn er fjaran opin fyrir snurvoð og ætti því útlitið í samræmi við það ekki að vera gott, en að sjálfsögðu hefur nýliðun í lundastofninum og pysjan ekkert með lundaveiðar að gera.

Aðeins meira um snurvoðina. Eins og kemur fram hér áður, þá opnaði þáverandi sjávarútvegsráðherra fyrir snurvoðaveiðar í fjörunni í okt. 2007 vegna þess, að útgerðarmenn þessara báta sögðust ekki geta náð sínum ýsukvótum öðruvísi en að þetta svæði yrði opnað og að þarna fengist eingöngu ýsa. Allir sjómenn vita að sjálfsögðu að þetta er rangt, enda þrífast margs konar fisktegundir á þessu svæði. Merkilegt nokkuð, við í smábátafélaginu Farsæll í Vestmannaeyjum mótmæltum þessari opnun harðlega og var mjög ánægjulegt að sjá bæjarstjórn Vestmannaeyja taka undir þessi mótmæli okkar, en ég held reyndar að bæjarstjórnin gæti gert meira ef hún vildi, en mér þótti þær fréttir nokkuð merkilegar að mér skilst að nokkrir útgerðarmenn snurvoðabáta frá öðrum sjávarþorpum hafi haft samband við fulltrúa bæjarstjórnarinnar, með hótunum um að hætta öllum viðskiptum hér í eyjum, en vonandi er það ekki rétt að bæjarfulltrúar láti kúga sig á þann hátt.

Nokkrir hafa komið að máli við mig og spurt mig að því, hvernig ég fæ það út að pysjufjöldinn, eða nýliðunin í lundastofninum á síðasta ári hafi verið yfir 100 þús. pysjur, en svona lítur dæmið út hjá mér: Við eyjamenn höfum alltaf verið með mælikvarðann á nýliðun lundastofnsins á því hversu margar pysjur finnast hér í bæ og hversu mikið af pysju sést í höfninni, og eftir að hafa rætt þetta við marga eldri og reyndari menn heldur en ég, þá hef ég miðað þá útreikningar við að bæjarpysjan sé 1/2 % í nýliðuninni, en flestir hafa viljað hafa þá tölu lægri, en svona lítur þá dæmið út: Bæjarpysjan 2008 var aðeins ca. 600 pysjur, 1% er þá 1200, 10% 12000 og 100% 120000 pysjur. Þetta er sem sé áætlaður fjöldi lundapysja frá öllum eyjum í Vestmannaeyjaklasanum sl. sumar, en miðað við að holufjöldinn sé í kringum 1300 þús, þá er þetta aðeins um 10% sem er að sjálfsögðu afar lélegt, miðað við eðlilegt árferði, en samt ágætt miðað við að aðeins voru veiddir 15000 lundar. Ef við skoðum líka 2007, þá var pysjufjöldinn ca. 2000 pysjur, sem gerir þá miðað við 1/2% regluna 400 þús. pysjur, sem að hljómar í sjálfu sér ágætlega en er samt ekki nema um 30% miðað við eðlilegt ár. Lokaorð mín eru því þessi: Lundinn er ekki að verða útdauður, nýliðunin er ekki góð, en ég skora á alla þá sem í aðstöðu eru til að beita sér í því eina sem vantar til að pysjunni fjölgi að mínu mati, loka fjörunni fyrir snurvoð.

Meira seinna.

http://georg.blog.is

 

Mannlíf og saga - hlaðvarp

2.Mars'21

Fylgstu með hlaðvarpinu Mannlíf og saga. Hlaðvarpsþættirnir eru aðgengilegir hér á Eyjar.net og einnig á helstu veitum, svo sem Spotify. Sjá nánar hér...

Má bjóða þér að auglýsa hér?

23.Júní'22

Hér má auglýsa allt milli himins og jarðar! Sendu línu á [email protected] og saman finnum við lausn sem hentar þér.

Fáðu nýjustu fréttirnar beint í æð

10.September'18

Með því að fylgja Eyjar.net færðu nýjustu fréttirnar frá Eyjum beint í æð. Smelltu hér til að fara á facebook-síðu Eyjar.net.

Smáauglýsingar

Hér getur þú með einföldum hætti auglýst það sem þú þarft að koma á framfæri allt frá einum sólarhring uppí einn mánuð. Einfaldur greiðslumáti Þú greiðir fyrir auglýsinguna með kreditkorti. Verð kr. 500,- per sólarhring. Um auglýsinguna Stutt fyrirsögn, hámark 35 tákn. Hnitmiðaður texti, hámark 130 tákn. Mynd á JPG sniði, verður sköluð í 130x100 díla (pixel).