Dramatík í Eyjum

19.Júní'09 | 08:50
Eyjapeyjar byrjuðu leikinn af krafti en eftir rétt um mínútu eftir að leikurinn var flautaður á átti Augustine Nsumba gott skot úr teig sem Víkingar björguðu á línu. Gestirnir úr Reykjavík stálheppnir að vera ekki undir strax í byrjun leiks.
Þeir svöruðu þó um hæl og luku fínni sókn með skoti að marki rétt utan við markteig. Þar var Lewis John Ehrlich sem átti það, en Matt Garner komst fyrir skotið í tæka tíð.

Víkingar sóttu ívið meira fyrsta korterið án þess þó að skapa sér neitt alvöru færi. Það voru þá heimamenn sem áttu næstu tilraun að marki. Gauti Þorvarðarson sendi boltann út á kantinn þar sem Arnór Eyvar Ólafsson var mættur og sendi boltann aftur inn á teig á Gauta sem skaut að marki. Skotið hjá Gauta var slakt en boltinn fór beint fyrir markið og á kollinn á Andra Ólafssyni, en þaðan fór boltinn rétt framhjá.
Örfáum mínútum síðar fékk Viðar Örn Kjartansson boltann inni í teig gestanna, sendi boltann út á Þórarinn Inga Valdimarsson sem skaut föstu skoti að marki en Magnús Þormar í markinu varði vel.

Fyrsta mark leiksins kom svo eftir um 25 mínútna leik. Arnór Eyvar átti þá frábæra sendingu á sínum eigin vallarhelmingi inn á Christopher Clements sem tók boltann niður og smellti á lofti framhjá Magnúsi Þormari. Glæsilegt mark hjá Englendingnum unga sem er í láni hjá Eyjamönnum frá Crewe.

Strax í næstu sókn fengu Víkingar gott færi, en þá fékk Lewis sendingu inn fyrir teig ÍBV og skaut að marki. Boltinn hafði viðkomu í Matt Garner og fór þaðan að marki en Albert Sævarsson gerði vel í að slá boltann í horn.

Heimamenn neyddust til að gera sína fyrstu skiptingu þegar um 5. mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Eiður Aron Sigurbjörnsson lagðist þá í jörðina eftir að hafa fengið högg á bringuna og gat ekki haldið áfram leik. Inn fyrir Eið kom Tonny Mawejje.
ÍBV vildu svo fá vítaspyrnu þegar það virtist sem það hefði verið brotið á Chris Clements inni í vítateig, en Valgeir Valgeirsson sagði að svo væri ekki og spjaldaði Chris fyrir leikaraskap. Mjög undarleg ákvörðun.

Hann flautaði þó þegar brotið var illa á Nsumba rétt fyrir utan teig, en ákvað ekki að spjalda Christopher Vorankamp fyrir brotið. Örlítið ósamræmi í dóm leiksins, en þarna hefði fyrrum leikmaður ÍBV átt að fá spjald. Chris Clements tók spyrnuna en hún beint á Magnús Þormar. Þetta reyndist það síðasta sem gerðist í fyrri hálfleik.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur en strax í byrjun seinni hálfleiks fengu þeir dauðafæri. Viðar Örn komst þá einn í gegn á móti markmanni en skot hans beint á Magnús. Tonny Mawejje átti svo skot úr aukaspyrnu strax á eftir en skotið sigldi framhjá markinu. Gauti átti einnig skot að marki en beint á Magnús. Mikill kraftur í ÍBV í byrjun hálfleikssins.

Eftir klukkutíma leik dró svo til tíðinda. Víkingar fengu þá aukaspyrnu úti á vinstri kanti og sendu fyrir markið en það vildi svo vel til fyrir gestina að boltinn hafði viðkomu í Yngva Magnúsi Borgþórssyni og fór þaðan framhjá varnarlausum Alberti í markinu.

Eyjamenn gerðu eftir þetta sína aðra skiptingu en þá kom Ingi Rafn Ingibergsson inn fyrir Augustine Nsumba.

Andri Ólafsson fékk svo fínt færi þegar um 20. mínútur voru eftir af leiknum. Chris Clements tók þá hornspyrnu frá hægri beint á hausinn á Andra en skalli hans ekki nægilega góður og beint á Magnús. Ingi Rafn fékk svo fínt færi þegar hann komst með boltann upp að endamörkum en skotið sigldi rétt framhjá fjærstönginni.

Víkingar voru svo nálægt því að komast yfir þegar misheppnað skot Daníels Hjaltasonar endaði næstum sem frábær stungusending en Grétar Ali Kahn var aðeins of seinn og náði ekki til knattarins.

Daníel var svo aftur á ferðinni þegar 10.mínútur voru eftir af leiknum. Hann fékk þá háa sendingu á fjærstöng utan af vinstri kanti og tók boltann í fyrsta af stuttu færi og skoraði framhjá Alberti í markinu. Frábært mark og Víkingar nú í bílstjórasætinu.

ÍBV gerðu þá sína þriðju og seinustu skiptingu þegar Ajay Leigh-Smith kom inn fyrir Yngva Borgþórs, en þarna kom sóknarmaður inn fyrir miðvörð. Víkingar gerðu einnig breytingu en útaf fór bakvörðurinn ungi, Sigurður Egill Lárusson og inn í hans stað kom Halldór Smári Sigurðsson.

Eyjamenn voru svo nálægt því að jafna leikinn þegar Chris Clements sendi boltann inn á teig þar sem Ingi Rafn var mættur en skalli hans beint á Magnús í markinu.

Ingi Rafn kom með mikinn kraft í sóknarleik ÍBV þegar hann kom inn, en þessi skipting átti eftir að skila sér en þegar 5.mínútur voru eftir fékk hann boltann inn á teig, aftur eftir sendingu frá Chris Clements og í þetta skipti kláraði hann færið með fínu skoti í hornið fjær. Staðan orðin jöfn og mjög lítið eftir af venjulegum leiktíma.

Bæði lið lögðu þá allt í sóknina til að reyna að stela sigrinum á lokamínútunum en án árangurs.

Þegar allt stefndi í framlengingu þá dró til tíðinda á 93. mínútu. Þá komst Viðar Örn einn inn fyrir vörn Víkinga með Chris Vorenkamp í bakinu og svo virtist sem Chris hefði brotið á Viðari. Valgeir dómari var fljótur að hugsa sig um og dæmdi vítaspyrnu og rak Chris útaf með beint rautt spjald. Víkingar vitanlega ekki sáttir, þar sem mikill vafi var á hvort dómurinn hefði verið réttur. Viðar lét það þó ekki trufla sig tók spyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi í stöngina og inn.

Þetta reyndist síðasta spyrna leiksins og Eyjamenn þar með komnir í 16-liða úrslit á kostnað Víkinga.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

V.I.P - tjaldsvæði á Þjóðhátíð

16.Júlí'18

Vaktað tjaldsvæði yfir Þjóðhátíð með salernisaðstöðu, á besta stað í Eyjum, skammt frá Herjólfsdal, (við Áshamar).
Þú getur hlaðið símann - endurgjaldslaust, loftpressa til að blása dýnuna - auk annara fríðinda. Smelltu hér - til að sjá nánar.

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.