Róðrar og lundinn

15.Júní'09 | 11:13

Georg Arnarson

Ég réri þrisvar í vikunni, fiskiríið var ágætt eða liðlega 6 tonn. Tíðin hefur verið með eindæmum góð að undanförnu, en framundan eru austlægar áttir sem eru mjög óhentugar hér í Eyjum, en henta mér ágætlega, enda á ég ekki krók beittan í frystiklefanum og þarf að fara að skvera bátinn, enda komin tími á skoðun.

Mikil umræða um lundann í eyjum þessa dagana og margir veiðimenn óhressir með tillögu náttúrufræðistofu suðurlands um bann við lundaveiðum. Þessar tillögur hins vegar koma mér ekkert á óvart, enda er þetta í samræmi við það fyrsta sem ég heyrði frá Erpi Snæ, áður en hann byrjaði að rannsaka ástand lundastofnsins í eyjum, þ.e.a.s. að lang best væri að stoppa allar veiðar. Margt er hægt að segja um þetta, en ég ætla að rifja upp orð Kristjáns Lillendal, fuglafræðings, frá því um vorið 2007 þar sem hann orðaði þetta svona: "Það er því miður staðreynd að eftir því sem útlitið er dekkra, þeim mun einfaldara er fyrir fuglafræðinga að fá fjármuni til að rannsaka, en ef útlitið er hins vegar þannig að ástandið sé í jafnvægi, þá er oft nánast vonlaust að fá fjármagn til rannsókna." Svo mörg voru þau orð. Erpur hefur hins vegar marg oft látið hafa eftir sér, að lundaveiðar í sjálfu sér hafi lítil eða engin áhrif á stofninn, en stundum finnst mér spurningin vera fyrst og fremst sú, hvor er í viðtali, Dr. Jekyll eða Mr. Hyde?

Lundaveiðar eru mikil forréttindi og ég vona svo sannarlega að bæjarstjórn Vestmannaeyja láti ekki blekkjast, enda mjög auðvelt að bera saman upplýsingar frá Erpi annars vegar frá því fyrir tveimur árum síðan, þar sem hann upplýsti að lundaholu fjöldinn í Vestmannaeyjum væri í kringum 1300 þúsund og hins vegar í dag, þar sem hann segir að fjöldi varpfugla séu 704 þúsund pör. Merkilegt þessi skyndilega fækkun á fullorðnum fugli og það á sama tíma og nánast ekkert hefur verið veitt. Eitt atriði langar mig að nefna að lokum. Í tilkynningu náttúrufræðistofu suðurlands kemur fram að lundaveiðar í Eyjum séu ekki lengur sjálfbærar. samkv. mínum útreikningum miðað við pysjufjöldann í höfninni og í Vestmannaeyjum s.l. haust, þá var nýliðun í stofninum ca. 100 þúsund pysjur, en veiðin aðeins um 16 þúsund lundar. Ef þetta eru ekki sjálfbærar veiðar, þá veit ég ekki hvað.

Meira seinna.

http://georg.blog.is

 

Viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála

2.Nóvember'18

Áhugavert efni - Hér getur þú skoðað viðhorfskönnun til samgangna og bæjarmála í Vestmannaeyjum sem Eyjar.net lét gera í október 2018.

Allt fasteignir - Fasteignasalan Eldey

27.Október'17

Fasteignasalan Eldey Vestmannaeyjum. Sími: 861-8901. Arndís M. Kjartansdóttir löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Goðahrauni 1. disa@alltfasteignir.is / www.alltfasteignir.is. Söluþóknun aðeins 1,1%

Afmælisár Vestmannaeyjabæjar - Dagskrá

15.Apríl'19

Í ár fagnar Vestmannaeyjabær 100 ára kaupstaðarafmæli. Af því tilefni er fjölbreytt dagskrá allt árið. Hér má skoða dagskrá ársins.

Fréttaskot - Eyjar.net

31.Janúar'18

Ertu með athyglisverða ábendingu eða frétt?
Sendu okkur línu á eyjar@eyjar.net - Fyllsta trúnaðar gætt.